Gleði og þakklæti um jólin

Með hjálp Al-Anon:
– í stað sorgar og vonbrigða
Áður fyrr voru jól og áramót versti tíminn í lífi mínu.  Ég sagði að jól væru svo mikill tilfinningatími og þá rifjuðust upp allar erfiðu minningarnar.  Í lífi fjölskyldu sem er með sjúkling sem er haldinn sjúkdómnum alkóhólisma er þetta oft staðreynd.  Við erum kvíðin.  Verður hann drukkinn eða ekki um þessi jól? Getum við átt von  á því að hann (eða hún) liggi fram eftir aðfangadegi í þynnku og sjálfsvorkunn?  Ýmsar álíka spurningar leita oft á okkur aðstandendur á þessum tíma.  Viðbrögð mín voru þau að ég reyndi að þóknast alkóhólistanum á allan hátt til þess að verða nú ekki völd að því að hann eyðileggði jólin fyrir sér og öðrum.  Ég tiplaði á tánum í kringum sjúklinginn og missti þar með af allri þeirri gleði sem fylgt getur jólahátíðinni.
 
Um áramótin sat ég og horfði á liðna árið með eftirsjá og grét.  Ég hætti mér ekki út fyrir dyrnar og gat þar af leiðandi ekki tekið þátt í skemmtun barnanna við að skjóta upp flugeldum.  Ég hafði kviðið þessu kvöldi allt árið og var þeirri stundu fegnust þegar upp rann nýársdagur og ég gat farið að leyfa mér að vona (að minnsta kosti fyrstu dagana) að þetta ár yrði skárra en það síðasta.
 
Ég var búin að vera í Al-Anon í þrjú ár þegar ég upplifði í fyrsta skipti annars konar jól og áramót.  Þessi þrjú undangengin ár hafði ég reynt að skoða sjálfa mig og viðhorf mín með hjálp Sporanna og breyta því sem ég gat breytt, þ.e. sjálfri mér.  Ég fór einnig að æfa mig í því að vera ábyrg fyrir eigin hamingju en bíða ekki eftir því að aðrir gerðu eitthvað til þess að ég yrði hamingjusöm.  Það rann líka upp fyrir mér að ég gat ekki breytt því sem á undan var gengið og að hamingja mín væri komin undir því að mér tækist að lifa einn dag í einu, í nútíðinni, en syrgði ekki fortíð eða hefði áhyggjur af framtíðinni. Fortíðin var til þess að læra af henni og sleppa síðan tökum á henni, fyrirgefa sjálfri mér mistök mín.  Framtíðinni gat ég stjórnað með því að gera daginn í dag eins góðan og mér var mögulegt. 
Með þessi nýju lífsviðhorf í farteskinu hafa undanfarin tvenn áramót og jól verið með allt öðrum hætti en áður.  Ég hef notað desembermánuð til þess að hlakka til jólanna og sleppt því að hafa áhyggjur af eða taka ábyrgð á því hvort alkóhólistinn drykki nú eða ekki.  Afleiðingin hefur orðið friðsælir hátíðisdagar þar sem gleðin og þakklæti er efst í huga mínum í stað sorgar og eftirsjár.
 
Það var undur notalegt að vera úti á miðnætti á gamlársdag að skjóta upp flugeldum með dætrum mínum.  Fegurð himinsins var ólýsanleg þegar hann logaði upp af allavega litum ljósum.  Mér varð þá hugsað til þess að líf mitt hefur líkt og flugeldur sprungið út og breitt geisla sína um huga minn og hjarta.  Sporin tólf hafa tekið sér bólfestu og verða leiðarljós mitt á nýja árinu, sem ég veit að verður að minnsta kosti jafngott og það síðasta, ef ekki betra.
 
Það er einungis vegna gæsku Guðs að ég er ekki með sjúkdóminn alkóhólisma, þennan ógnvekjandi sjúkdóm sem hefur áhrif á alla fjölskylduna og allt nánasta umhverfi.  Ég þakka fyrir að hér á landi skuli vera til leið fyrir mig sem aðstandanda að vinna mig frá þeim áhrifum sem sjúkdómur ástvina minna hefur haft á líf mitt.
 
Al-Anon samtökin voru til fyrir mig þegar ég þurfti á að halda og þau eru einnig til fyrir þig sem hefur ekki kynnst þeim ennþá.  Við eldri félagarnir bjóðum þig velkomna/velkominn og hlökkum til að sjá þig á nýju ári.  Líf þitt getur breyst með því að sækja fundi í samtökunum, tala við eldri félaga, tileinka þér Sporin tólf, lesa um reynslu annarra.  Með hjálp Al-Anon aðferðarinnar geta jól þín og áramót breyst   
úr tíma sorgar og vonbrigða í tíma gleði, þakklætis og eftirvæntingar.

 
-ANON
 

Áður birt í Hlekknum, tímariti Al-Anon á Íslandi
1.tbl. 1993 6. árg.