Fróðleikur um stofnun Al-Anon samtakanna

Al-Anon samtökin voru stofnuð árið 1951 af Lois W. og Anne B.  Innan AA samtakanna höfðu sprottið upp fjölskyldudeildir sem voru fyrir fjölskyldur alkóhólista. 
Þar sem AA samtökin eru einvörðungu fyrir alkóhólista ákváðu þau að fjölskyldudeildir fyrir aðstandendur gætu ekki starfað í þeirra nafni.  
Lois og Anne sendu árið 1951 bréf til allra þeirra 87 fjölskyldudeilda sem voru starfandi og fengu svör frá 56 þeirra.  Ári síðar var nafnið ,,Al-Anon fjölskyldudeildir“ valið og 12 reynsluspor AA samtakanna tekin upp í Al-Anon.
Árið 1955 kom fyrsta Al-Anon bókin út en hún heitir “The Al-Anon Family Groups, A Guide for the Families of Problem Drinkers”.  Þessa bók sömdu Lois og aðrar Al-Anon konur með aðstoð Bill og er hún enn til og seld sem lesefni samtakanna.
Árið 1957 voru Alateen samtökin stofnuð en þau eru hluti af Al-Anon og ætluð unglingum 13-18 ára sem eru aðstandendur alkóhólista.
Því miður hefur sá leiði misskilningur náð að skjóta rótum á meðal margra Al-Anon félaga að þær Lois og Anne B. hafi verið eiginkonur Bills og Bob, stofnenda AA samtakanna.
Lois W. var eiginkona Bill W. annars af stofnendum AA samtakanna, þau bjuggu í húsinu Stepping stones þar sem fyrsta skrifstofa Al-Anon var til húsa.  Anne B var hinsvegar gift manni að nafni Devoe B.  Þessi misskilningur er sjálfsagt til kominn vegna þessa að hinn stofnandi AA, Dr. Bob átti líka konu sem hét Anne en hún lést árið 1949, tveimur árum áður en Al-Anon samtökin voru stofnuð.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun samtakanna árið 1951.  Þá voru 56 deildir starfandi en í dag eru yfir 30.000 Al-Anon deildir starfandi í 130 löndum um allan heim.
Á Íslandi voru Al-Anon samtökin stofnuð 18. nóvember 1972.   Í dag eru starfandi um 47 deildir víðsvegar um landið og auk þeirra 3 deildir sem halda Al-Anon fundi á íslensku í Danmörku og Bretlandi.  Einnig eru starfræktar 3 Alateen deildir á Íslandi.
Margt bendir til þess að Al-Anon samtökin hafi stækkað ört undanfarin ár og ánægjulegt að sjá að sífellt fleiri þiggja þá hjálp og von sem bataleið Al-Anon gefur fjölskyldum og vinum alkóhólista.
 
Alþjóðafulltrúar Al-Anon á Íslandi
 
p.s. Kæru félagar ef ykkur þyrstir í meiri fróðleik um samtökin þá skrifið okkur línu á hlekkurinn@al-anon.is