Sem fullorðið barn alkóhólista missti ég af mjög mikilvægum hluta lífs míns – barnæskunni. Ég fullorðnaðist á einni nóttu á alkóhólísku heimili okkar. Í dag er ég að vinna aftur hluta af þessu tapi. Það getur verið sársaukafullt ferðalag að vaða í gegnum kvalafullar minningar. Það getur einnig verið ævintýri að ferðast þar sem ég á hreinlega engar minningar. Þetta er hluti af lífi sem ég er að reyna að öðlast á ný og þroska. Ferðalagið er nauðsynlegt fyrir bata minn. Líkt og allir könnuðir í sögunni hef ég þurft hugrekki til að leggja á ókunnar slóðir. Minn fyrsti Al-Anon fundur gaf mér minn fyrsta skammt af styrk.
Alateen bókin, Courage to be me (Hugrekki til að vera ég), útvegaði restina. Í bókinni var mikið efni til umhugsunar og hún fékk mig til að líta til baka á líf mitt. Það var eins og að horfa í spegil þegar ég las efnið eftir unga meðlimi. Þeirra upplifun var sú sama og mín. Ótti þeirra var sá sami og minn. Þær vonir sem þau deildu með mér hafa orðið mínar vonir.
Ég er að byrja að skilja ýmislegt af því sem ég gekk í gegnum, atburði sem ég varð að lifa með til að lifa af. Núna get ég jafnvel séð einhvern tilgang í öllu brjálæðinu. Með því að skoða það sem kom fyrir mig og í kringum mig er ég fær um að vaxa og þroskast. Ég er jafnvel að læra að gagnrýna mina eigin framkomu og hegðun. Það er ekki auðvelt, en ég á mér von.
Með því að líta svona til baka á hvernig líf mitt var fyrir löngu síðan, er ég að gefa sjálfri mér mína eigin barnæsku að gjöf. Ég leik mér eins og barn, og er að enduruppgötva heiminn í gegn um mitt eigið sakleysi. Mikilvægara er þó að ég er að þroskast, að þróa raunverulegt sjálfstraust, að gera mér grein fyrir reiði minni, og takast á við óttann með stuðningi Al-Anon fjölskyldu minnar. Þetta er ferðalag uppgötvana og Al-Anon bókmenntir eru brottfararspjaldið mitt. Lestraráhugi minn hefur sent mig af stað í leiðangur í átt til heilsu, hamingju og lífs!