Frá félaga í karladeild Al-Anon:
– reynslusaga uppkomins sonar alkóhólista
Ég er aðstandandi og uppkomið barn alkahólista. Ég hef fundið lausn í Al-Anon. Al-Anon eru samtök til að hjálpa aðstandendum og fjölskyldum alkahólista, því þetta er sjúkdómur með stóru S-i. Maður smitast ekki af þessum sjúkdómi, en maður lærir að vera með hann. Nelson Mandela sagði einu sinni: Grunnurinn að öllum okkar ótta, er óttinn við ljósið í okkur sjálfum. En þegar við erum veik, gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að slökkva ljósið í hvort öðru. Þetta hef ég gert, og þess vegna á ég heima í Al-Anon.
Ég hélt alltaf að A.A. væri bara skammstöfun á AL-ANON. Ég vissi bara ekki betur. Mér datt ekki í hug að það væri til hálfgert dótturfyrirtæki, þar sem væri boðið upp á hjálp fyrir fjölskyldur og aðstandendur alkahólista. Og auðvitað fór hausinn á mér af stað og ég fór að hugsa með sjálfum mér: Hvurn djöfulinn þarf þetta lið á aðstoð að halda? Er ekki A.A bara nóg? Er ekki allt í gúddí þegar alkinn er hættur að drekka? Getur ekki öll fjölskyldan drullast í Eden og keypt sér ís?
Ég hafði alveg ógeðslega fordóma gagnvart þessum samtökum, í raun hafði ég miklu meiri fordóma gagnvart Al-Anon heldur en AA. Þar var náttúrulega sjúkdómurinn minn að verki. Sjúkdómurinn minn vildi auðvitað ekkert að ég leitaði mér hjálpar. Ég vissi að það væri ýmislegt í gangi í fjölskyldunni sem betur mætti fara- en ég hugsaði líka með mér að það væri svo göfugt að alast upp við mótlæti og erfiðleika og spennu, af því það myndi þroska mann svo mikið fyrir fullorðinsárin og þá væri ég betur í stakk búinn til að takast á við lífið.
Pabbi minn hann var alkahólisti og mamma mín var mjög meðvirk. Þau eru núna bæði dáin. Þau dóu bæði án þess að hafa nokkurntíma leitað sér hjálpar í AA eða Al-Anon, fyrir utan eina litla meðferð sem pabbi fór í. Hann kom heim eftir 10 daga, skrafþurr en alls ekki edrú. Ástæðan: Liðið sem var með honum í meðferðinni var bara eitthvað helvítis pakk.
Ég er yngstur af 7 systkinum, og þegar mest var þá bjuggum við öll í sömu íbúðinni- 9 manna fjölskylda. Pabbi og mamma elskuðu okkur krakkana mjög mikið. En við höfum aldrei verið sú tegund af fjölskyldu sem er mikið að faðmast eða tala út um hlutina. Ég hef margoft líkt honum pabba mínum við jólatré. Þetta jólatré krafðist þess að fjölskyldan dansaði í kringum sig.
Og á þessu heimili voru jól á hverjum degi. Málið var, að það var mamma sem stjórnaði dansinum.
Hún stjórnaði ekki dansinum með því að arga og garga, alls ekki. Hún fékk okkur öll í lið með sér, á móti kallinum, með því að leika hlutverk píslarvottarins. Ég fattaði seinna að það er alls ekki sniðug hugmynd hjá foreldrum að láta börnin taka afstöðu með því hvoru foreldrinu það er með í liði. Þú getur tekið hvað sem er, þögn, gjafmildi, jafnvel grát og gnístran tanna, og notað sem vopn- til að ná þínu fram.
Ég hef sjálfur notað heimatilbúin vopn, til að knýja fram breytingar- stundum með því að vera mjög gjafmildur og fórnfús, þannig að heimurinn verði nákvæmlega eins og ég vil hafa hann. Málið er að ég vil að heimurinn sé alltaf eins og hann var þegar ég var barn. Og ég ólst upp í stöðugri spennu. Og hélt auðvitað að heimurinn ætti bara að vera þannig. Og enn síður hafði ég hugmynd um að það væri hægt að leita hjálpar í samtökum eins og Al-Anon eða Alateen.
Mamma sætti sig við drykkju pabba míns því hann drakk heima. Hann var þá allavega ekki einhversstaðar útí bæ að drekka og skandalísera. Og mamma var eldklár í að tala endalaust um vandræði annara.
Smám saman, fara áhrif þessa uppeldis að sjást á mér sjálfum. Þegar ég var 12 ára, þá lofaði ég sjálfum mér því að drekka aldrei deigann dropa af áfengi, af því að ég ætlaði sko aldrei að verða eins og pabbi. Það átti sem sagt að redda mér. Og ég stóð við það. Ég drekk ekki, ég reyki ekki, ég dópa ekki, reyni að borða hollan mat og hreyfa mig- og ég drekk ekki einu sinni kaffi. Ég er sem sagt- alveg klín. Ó, ég er svo klín. Ég er þessi
sem drekk bara vatn á Al-anon fundum.
Þegar ég vex úr grasi, fer ég að laðast að fólki sem mér finnst á einhvern hátt spennandi, og ég náði aldrei að fatta af hverju. Vinir mínir voru undantekningarlaust súpergreint fólk, margir hverjir með yfirburðagreind. En allir mínir vinir hafa átt það sameiginlegt að þeir eru að díla við eitthvað stórt svart gat í maganum á sér. Sækjast sér um líkir. (Takes one
to know one)
Ég hef ýtt undir áfengisneyslu annars fólks. Ég hef viðhaldið sjúkdómum fólks í kringum mig- svo það verði nákvæmlega eins og ég vil hafa það, svo að spennan sem ég þekkti úr barnæsku viðhaldi sér af því ég kann ekki að lifa í logni. Þá hef ég ástæðu til að redda öllu á síðustu stundu, í örvæntingafullri von um að alkinn minn muni breytast af því ég er svo góður við hann. Svo breytist hann ekki. Þá hef ég ástæðu til að kveinka mér og
hella mér útí fullkomna gremju og EYMD.
Ég náði mínum botni í meðvirkni, þegar ég fór í freyðibað. Ég lá í freyðibaðinu í ca. hálftíma- og kipptist svo uppúr vatninu- og fékk samviskubit yfir því að hafa eytt tímanum til einskis. Ég get ekki lifað í logni. Þarna í freyðibaðinu gerði ég mér grein fyrir að ég væri ekki með neina stjórn á mínu eigin lífi. Ég var orðinn algerlega vanmáttugur gagnvart öllu í kringum mig. Ég hef margoft gert mig að fífli, bæði opinberlega og í einkalífinu. Ég hef reynt að vekja á mér athygli, fá viðurkenningu og fá allan heiminn til að líka vel við mig. Ég starfa í skemmtanabransanum, þannig að frumsýningar, opnunartónleikar, áritanir, beinar útsendingar í sjónvarpi þar sem 300.000.000 manns horfa á- ég fílaði þetta allt saman í botn.
Ég er bara þannig saman skrúfaður, að ég er stöðugt að sækjast eftir viðurkenningu og hrósi. Ef einhver hrósar mér, þá geri ég lítið úr hrósinu, sný jafnvel útúr því eða skríð undir borð. Ef einhver gagnrýnir mig, þá rýk ég upp í blossandi vörn. Ég get ekki tekið hrósi. Ég get ekki tekið gagnrýni. Ég er sem sagt- í andlegri pattstöðu.
Alltaf þegar ég var að taka að mér ný verkefni- eitthvað sem ég þekkti ekki og hafði aldrei gert áður- KOM KVÍÐAHNÚTURINN- og hausinn á mér fór af stað og ég fór að ímynda mér allt það sem ætti eftir að gerast og hvursu miklu ég ætti eftir að fokka upp. Sem endaði á því að ég annaðhvort hætti við verkefnið eða var svo mikill perfeksjónisti að ég hikaði ekki við að særa aðra til að ná mínu fram. Mér líður EKKI VEL með þennan kvíðahnút í
maganum, en ég get ekki verið án hans. Þá kom AL-ANON inní líf mitt og spurði: „Hvað ertu að gera svona flókið?“ HAFÐU ÞAÐ EINFALT.
Ég náði svo seinna tilfinngalegum botni þegar ég tók eftir því að mörg vinasambönd mín enduðu með kjarnorkusprengingum. Vinir mínir voru og eru margir alkahólistar, eða mjög meðvirkt fólk- það hefur stundum verið að tryllast úr meðvirkni og ég hef verið að tryllast úr meðvirkni með þeim. Ég fríkaði út við minnstu gagnrýni á þetta ákveðna fólk- og fór í brjálaða vörn, meira að segja þegar þau gerðu óverjandi hluti. Á sama tíma var ég farinn að baktala þá útum allan bæ og brjálast útaf einhverju sem þau gerðu mér og ég sagði öllum öðrum frá því nema þeim. Ég varð halda öllu (og öllum) í gúddí. Þessu fólki skulda ég núna feitt 9 spor.
Og ég labbaði inná minn fyrsta Al-anon fyrir einu og hálfu ári síðan, alveg að skíta í buxurnar af hræðslu- en ótti minn var þó mestur í garð besta vinar míns, sem ég var þá nýbúinn að dömpa af því hann er svo fársjúkur alkahólisti. Og þá kom Al-anon inní líf mitt og sagði: EYMD ER VALKOSTUR. Þú sjálfur ert ábyrgur fyrir þinni eigin hamingju. Þú getur ekki ætlast til þess að aðrir geri þig hamingjusamann. Það hefur enginn rétt til að dæma og gagnrýna annað fólk í kringum sig. LIFÐU OG LEYFÐU ÖÐRUM AÐ LIFA.
Pabbi minn var með sjúkdóm. Vinir mínir voru með sjúkdóm. Ástvinir mínir voru með sjúkdóm. Ég er líka með sjúkdóm. Bara það að viðurkenna það að alkahólismi væri sjúkdómur, létti stórlega á öllum samskiptum t.d. við hann pabba minn. Ég bjó hjá honum síðustu 4 árin sem hann lifði- og það er lífsreynsla sem ég mun aldrei getað þakkað Guði nógu mikið fyrir. Ég fór að kynnast manninum á bak við alkahólistann, og því meiri bati hjá mér sem aðstandanda, því ljúfari varð hann í viðmóti við mig. Það var mjög mikil framför, milli feðga sem töluðu lítið sem ekkert saman á breiktímabilinu.
Ég trúi því að máttur mér æðri, geti gert mig andlega heilann að nýju. Ég er hér til að biðja um andlegt heilbrigði, því ég vil ekki vera lengur í andlegri pattstöðu. Það er svo vond og ljót tilfinning. Það var alveg ótrúlega gott þegar ég og Guð urðum vinir aftur. Mér finnst ofsalega gott að hafa hann með mér- því þá er ég allavega ekki að gera þetta einn.
Þetta prógram, 12 spora kerfið, er eitthvert al-magnaðasta mannræktarprógram sem ég hef kynnst. Ég verð að þakka Al-Anon allt það sem prógrammið hefur gefið mér. Ég vil líka þakka öllu því góða fólki sem ég hef kynnst á leiðinni, sem heldur mér við efnið og styrkir mig í bata bara með því að segja nafnið sitt. Og ég vil sérstaklega þakka stráknum í nýstofnaðri KARLADEILD AL-ANON, en við erum með fundi í Héðinshúsinu klukkan hálf átta á þriðjudögum. Ég vil nefnilega ekki lifa í spennu. Ég vil ekki hafa stöðugar áhyggjur af fortíðinni, og stöðugar áhyggjur af framtíðinni. Ég vil lifa – NÚNA. Afslappaður. Í æðruleysi.
Og að lokum, ein lítil saga sem mér þykir ákaflega vænt um af því hún kenndi mér svo margt: Ein besta vinkona mín sem hefur líka verið í Al-anon, hún fékk nú aldeilis að heyra það þegar ég byrjaði í Al-Anon. Hugsunarhátturinn og hugmyndafræðin var svo brjálæðislega ný fyrir mér að ég gerði ekkert annað en að tala um Al-anon allan daginn. Það komst ekkert annað að. Þegar vinkona mín fékk enn eina ræðuna frá mér, stoppaði hún mig af og sagði: „Ókei, ókei, þú mátt sko tala um Al-Anon allan daginn fyrir mér. Ég get alveg tekið því. EN EF ÞÚ GERIR þetta prógram eins og maður, GERIR heimaverkefnin sem fyrir þig eru sett, LEST bækurnar og GERIR það sem stendur í þeim, HRINGIR í sponsorinn þinn ef þér verður illt í maganum og FERÐ á fundi, þá mun það enda með því, að einn góðan veðurdag, þá labbar þú niður í bæ- og kaupir þér ís.“
Sjáumst á AL-ANON fundum.
– 33 ára félagi í karladeild Al-Anon