Eru steinar lifandi?

Ég velti þessari spurningu fyrir mér einn daginn þegar ég fór að hreinsa steinbeð (án blóma) hjá mér í garðinum, við mér blasti steinveggur á aðra hönd og steinsteypt gangstétt á hina og þar á milli er þetta steinbeð.
 
Ég hófst handa við að taka hvern steininn á fætur öðrum og leggja þá á gangstéttina, undir steinunum er gróf möl – smá steinar, en í öðrum endanum hefur jarðvegur blandast saman við og undir þessu öllu er jarðvegsdúkur sem hafði færst úr stað. Ég lagfærði jarðvegsdúkinn og festi hann niður með góðum steini og jafnaði síðan mölinni sem var blönduð jarðvegsúrganginum yfir smásteinana og þegar mér fannst þetta orðið nokkuð jafnt hófst ég handa að raða steinum yfir, tók fyrst þá sem mér virtust vera stæðstir og síðan koll af kolli. Þá veitti ég því eftirtekt hvað þeir voru í raun ólíkir að gerð og lögun og þá varð mér hugsað til sporanna og sporavinnunnar yfirleitt.
Þegar ég byrjaði að sækja fundi voru í minni deild mjög öflugir sporafundir og okkur var skipt í 4-6 hópa á hverjum fundi og reyndir félagar leiddu hvern hóp og þar reyndum við eftir bestu getu að svara spurningunum sem voru sporaheftinu (bláa). Í fyrstu var mér mikið kappsmál að grafa upp allt það sem ég mundi sem lengst aftur í minni barnæsku, sem sagt alveg að jarðvegsdúknum. En síðar þegar ég fór aftur í sporin hafði ég náð smá hugarró sá ég að margt í minni barnæsku var bara hrein möl, en á öðrum stöðum hafði ýmis jarðvegur blandast við og mér lærðist að best væri að reyna að jafna úr og sætta sig við það sem ég gat ekki breytt. Seinna þegar ég fór enn og aftur í sporin (þá var komin Leiðsögn til bata, 4. spors uppgjör) þá fór ég að raða lífi mínu eftir stærð og lögun, þannig að hver dagur varð betri en gærdagurinn. Síðan þetta var hef ég oftar en einu sinni farið í gegnum sporin og það er vinna sem við getum endurtekið aftur og aftur og komið með nýja sýn á lífið okkar.
Það vakna oft spurningar hvernig eigi að vinna sporin og um daginn kom kunningi minn að máli við mig og spurði mig: „Hvort ég hefði verið „sponsor“ í sporunum? „Jú, það hefur komið fyrir“. Þá var spurt: „Hvort ég færi alveg eftir leiðbeiningum með fjórða sporinu?“ Þá kváði ég: „Eftir hvaða leiðbeiningum“? „ Nú í AA-bókinni“! Ég leit á hann og svaraði: „Bíddu, ég er ekki alkóhólisti, ég er aðstandandi og vinn sporin sem aðstandandi og nota Al-Anon leiðsögn þegar ég „sponsora“ sporin“.
Mér þótti leitt að heyra að innan Al-Anon var honum leiðbeint eftir AA sporunum, en þessi kunningi er að stíga sín fyrstu spor í Al-Anon. Þó við getum leitað okkur leiðsagnar í lesefni sem ekki er samþykkt Al-Anon lesefni notum við það ekki á fundum eða í 12. spors starfi. Sjálf reyni ég að lesa mér til fróðleiks og ánægju efni sem er tengt þessum fjölskyldusjúkdómi og einmitt þegar ég var einhverju sinni í fimmta sporinu þá rakst ég á efni um fimmta spor AA sem varð til þess að ég skyldi hve það er mikilvægt að játa fyrir öðrum einstaklingi yfirsjónir okkar, ekki bara okkur sjálfum og æðra mætti.
Getur verið að þeir Al-Anon félagar sem benda á AA-bókina til að vinna sporin ofl. séu ennþá í „skápnum“ og hafa ekki kjark til að játa vanmátt sinn gagnvart áfengi eða öðrum fíknum?
Hættum að vera hækjur alkóhólista eða annara sem við látum stjórna lífi okkar og líðan. Notum Al-Anon aðferðina látum hana ómengaða fylla upp með litlum sandkornum í eyðurnar sem hafa myndast milli steinanna stórra og smáa, við þurfum ekki neina sérleið, hún villir okkur sýn.
Niðurstaða mín er sú að steinar eru lifandi því þeir eru kveikjan að þessum línum og sannar það enn og aftur, það er alltaf hægt að nota Al-Anon aðferðina hvar og hvenær sem er. Lifum og leyfum öðrum að lifa. Mér finnst rigningin góð.
Með kveðju, Al-Anon félagi.