Ég og æðri máttur

Þriðja sporið:
Ég hef um tíma talið mér trú um að ég væri búin að taka þriðja sporið og  hefði fært Guði líf mitt og vilja til umönnunar. Vissulega var það rétt að  nokkru leyti en mér varð ljóst fyrir nokkru að ég hefði aðeins fært honum valda kafla af lífi mínu og vilja. Ég hélt ákveðnum þáttum eftir fyrir mig.  Ástæðan var hræðsla. Ég var viss um að ég myndi tapa sjálfstæði mínu, persónueinkennum mínum ef ég gæfi allt upp á bátinn í þessa óvissu, sem vilji Guðs er. Einhvers staðar las ég þá setningu að maðurinn gæti ekki bæði verið reiðarinnar barn og barn Guðs, hann yrði að velja á milli.
 
Ég hélt að það að færa Guði góðu hliðarnar mínar, svo sem þakklæti, bænastundir mínar með  honum og bænir um leiðsögn, þegar ég var í jafnvægi og fús til að nálgast Guð, væri það sem átt væri við með að taka Þriðja sporið.  Það getur verið að þetta sé nóg fyrir suma en svo var ekki með mig. Fyrir náð Guðs hef ég nú séð að þegar ég reiðist, verð særð, hrædd, óánægð eða vonsvikin þá tek ég völdin í mínu lífi og Guð kemst hvergi að. Ég ákvað að Guði væri aðeins þóknanlegar “betri” hliðar mínar og vildi vissulega gefa honum allt hið fallegasta sem ég átti en hinar lakari hliðar mínar voru óhreinu börnin hennar Evu og óverðugar Guði.  Ég sá mig nefnilega aðeins með mannlegum, gagnrýmun augum, ekki augum Guðs.  Því fór sem fór. Ég hélt áfram að bregðast ósjálfrátt við reiði- og þreytutilfinningu, vonbrigðum, höfnun, sársauka og ótta. Viðbrögðin voru svo snögg að ég hafði enga stjórn á þeim. Þau voru fljótari en hugsun mín að bregðast við, hvað þá að detta Guð í hug. Og árangurinn létt ekki á sér standa, sjálfsfordæming, minnimáttarkennd, reiði, vonleysi, – sömu gömlu viðbrögðin, sama gamla líðanin.
Þetta var vissulega ekki daglegur viðburður, því ég hef oft átt gleði- og árangursríka daga með hjálp Guðs og þessa prógramms, en þetta gróf oft undan æðruleysi mínu og vellíðan, fyrir utan hversu mikil áhrif þetta stjórnleysi mitt hafði á fjölskyldu mína. Stundum fannst mér ég lifa tvöföldu lífi – annars vegar þar sem ég var jákvæð, umburðarlynd, þakklát og kraftmikil,  (barn Guðs) – og hins vegar sem hinn uppstökki, argi kröfuharði og reiði einstaklingur sem sræði bæði sjálfa mig og aðra (barn reiðinnar).  Því vissulega er ég reiðarinnar barn þegar ofsafengin viðbrögð og tilfinningar ná slíkri stjórn á mér að ég get ekki hugsað heila hugsun á enda. Á þeirri stundu stjórnar enginn lífi mínu, síst af öllu ég, hvað þá Guð. Ég verð eins og korktappi í ólgusjó sem fylgir aðeins straumnum og ölduhæðinni. Þá er minn æðri máttur stjórnlaus viðbrögð og tilfinningar sem hafa hingað til alltaf leitt mig til vanlíðunar, sektarkenndar,  sjálfshaturs og iðrunar. Þetta er það sem vilji minn hefur m.a. komið til  leiðar í lífi mínu.  Og þetta er einmitt það sem 2. og 3. sporið tala um og  bjóða bót á: ,,Til er æðri máttur sem getur læknað einmitt þessi viðbrögð og líðan”.  Allt og sumt sem ég þarf að gera er að taka þriðja sporið til fulls,  (,,að taka ákvörðun og láta vilja minn og líf lúta handleiðslu Guðs samkvæmt skilingi mínum á honum”).
 
Ég hafði jú tekið ákvörðunina sem til þarf en hafði ekki framkvæmt verkið.  Mér hafði t.d. aldrei dottið orðið hlýðni í hug. Að hlýða aga og vilja einhvers mér æðri minnti mig á æsku- og unglingsárin sem voru uppfull af STANS merkjum og fyrirfram ákveðnum kössum sem ætlast var til að ég træði mér í. En í þriðja sporinu er verið að tala um HANDLEIÐSLU sem merkir fyrir mér í dag að hvílast í útréttum höndum Guðs sem leiða mig áfram af kærleika, gætni og framsýni. Ég trúi því að Guð feli okkur verkefni til að leysa í lífinu og þannig höfum við alltaf val að færast nær honum eða ekki. Þess vegna er ég þakklát fyrir reiðimunsturverkefnið mitt í dag sem varð til þess að gefa mér tækifæri til að læra að treysta Guði betur. Ef ég hefði ekki haft þetta prógramm hefði mér sjálfsagt ekkert fundist óeðlilegt að líða og láta svona, en Al-Anon prógrammið er hluti af lífi mínu í dag og hjálpar mér til að vera heiðarleg við sjálfa mig og takast á við það sem ég get breytt MEÐ GUÐS HJÁLP.
 
Þetta hegðunar- og vanlíðunarmunstur mitt, sem hefur meitt mig eins og þröngir skór í mörg ár, varð til þess að færa mig nær Guði er ég tók þá ákvörðun að gefa honum mig alla, kosti mína og galla, og halda engu eftir (eins og ég hef vit til í dag). Það hefur orðið til þess að þröngu skórnir sem VILJI minn tróð mér í losnuðu og ég geng frjáls og berfætt á nýjum grunni sem aðeins Guð getur byggt. Guð sér mig eins og ég er í raun og veru og elskar mig samt, það hefur breytt lífi mínu, að læra að treysta kærleika hans og leiðsögn sem ég gat aldrei gefið mér sjálf, frekar en annar mannlegur máttur. Setningin ,,segðu mér hvað ég á að segja og gera” var mér erfiður lærdómur því mér er tamt að segja: ,,Ég skal” með þjósti – en hún er að létta mér lífið í dag ásamt daglegu vitundarsambandi við Guð.  Ég veit í dag að þriðja sporið virkar eins og allt annað í þessu prógrammi stígi ég skrefið til fulls og TREYSTI GUÐI.

 

Þakklátur Al-Anon félagi.
Hlekkurinn 3. tbl. 1991, 4. árgangur.