Ég öðlaðist nýja lífssýn í Al-Anon

Eiginmaður segir frá:
Í tólf ár var ég í sambúð með alkóhólískri konu og var orðinn fársjúkur aðstandandi.  Ég var sjúklega meðvirkur og þar sem ég er líka fullorðið barn alkóhólista passaði ég fullkomlega í þetta hlutverk.  Ég stjórnaðist algjörlega af duttlungum þessa sjúkdóms.  Þegar ég fyrir áeggjan ,,vina“ minna ákvað að lýsa yfir stríði á hendur sjúkdómnum hrundi veröldin eins og ég þekkti hana.  Ég áttaði mig ekki á að andstæðingurinn var öflugri en nokkuð annað sem ég hafði fyrirhitt á minni stuttu æfi.
Stórsóknin byrjaði með öflugu áhlaupi með misjafnlega vel upplýstu stuðningsfólki og leiðbeinendum, sem voru tvö fullorðin börn alkóhólista og læknir.  Það voru nánar vinkonur okkar, sem sáu sig sem fullorðin börn alkóhólista,, en höfðu aldrei tekist á við það svo orð væri gerandi á, og hafa aldrei verið virkar í Al-Anon prógramminu. Læknirinn virtist alveg óupplýstur um alkóhólista og aðstandendur.  Í góðri trú þáði ég ráð frá þessu góða fólki, án þess að gera mér grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefði í för með sér.  Þar sem ég var orðinn þunglyndur og framtakslaus tók ég leiðsögninni fegins hendi, en hún fólst meðal annars í því að fjarlægja alla vímugjafa og koma konunni minni í mjög erfiða aðstöðu við að nálgast lyf.  Samband okkar hafði staðið af sér ýmis áföll en þarna varð skipbrot.  Þessar vanhugsuðu gjörðir ólu af sér tortryggni, vantraust og reiði.  Í samráði við lækninn setti ég konu minni stólinn fyrir dyrnar: Hún færi í afvötnun eða það yrði skilnaður!
 
Þarna var komið að því að ég var gjörsamlega búinn að reka hana út í horn og hún hafði einungis tvo valmöguleika, eða eins og það horfði við fyrir mér: Einungis einn. Andstæðingurinn var öflugur, svarið sem ég fékk var stutt og laggott: ,,Skilnaður.“  Allt sem ég hafði byggt upp, konan sem ég unni og börnin sem ég elska, öllu kippt frá mér á augabragði, í einni setningu.  Veröld mín hrundi gjörsamlega til grunna.  Ég hafði verið mjög langt niðri en við þetta náði ég botninum, ég hrundi saman og fékk taugaáfall.
 
Með aðstoð frá prestinum okkar var ég lagður inn á geðdeild Landspítalans.  Þar varð ég fyrir seinna áfallinu.  Fyrir utan að missa alla ástvini mína á einu bretti sneru flestir vina minna við mér bakinu.  Ég ætla ekki að segja að geðdeild hafi ekki vakið með mér fordóma áður en ég varð svo lánsamur að leggjast þar inn, en það varð mér til happs og gæfu og vakti með mér löngun til að halda áfram að lifa.  Ég hafði gjörsamlega misst áhugann á því að lifa, en ákvað samt sem áður að reyna ekki sjálfsvíg.  Ég bað til Guðs: Ef þú ert til láttu mig þá ekki vakna á morgun.  En mér til undrunar vaknaði ég á hverjum morgni, alltaf jafn vonsvikinn og í reiði minni sagði ég skilið við Guð. Í mínum huga var hann ekki til, ég missti trúna á hann.  En Guð er þolinmóður og ég skildi ekki þá að hann hafði hlutverk fyrir mig áfram. 
 
Í sex vikur var ég undir handleiðslu góðs fólks sem hafði ótrúlega þolinmæði, kærleika og hlýju að gefa þessum brotna og reiða einstaklingi.  Þarna inni held ég að ég hafi byrjað minn þroska.  Þarna voru einstaklingar sem hafði orðið fyrir áföllum í lífinu og voru að glíma við það. Þarna öðlaðist ég nýja sýn;  það voru til fleiri sem þurftu að takast á við áföll og innri togstreitu, mikið af veiku fólki sem margt hvert var það yndislegasta sem ég hef kynnst.  En það voru fleiri reiðir en ég.  Konan sem ég elskaði hafði umbreyst í villidýr og lét einskis ófreistað að bæta á mína vanlíðan, sem endaði á því að henni var bannað að hafa samskipti við mig.  Mér fannst það í fyrstu mjög gott en eftir smátíma kom söknuður. Ég hafði misst minn besta vin og félaga.  Eftir sex vikur varð ég að yfirgefa þennan örugga stað þar sem ég hafði verið verndaður gegn áreiti.  Ég þurfti að fara að takast á við grámyglu hversdagsleikans með formerkjum sem voru mér framandi.
 
Samskipti mín við konuna mína fyrrverandi skánuðu ekki.  Þegar ég kom út af spítalanum var hún búin að ganga frá skilnaðinum, tæma reikninginn minn og skrá mig út af mínu eigin heimili.  Sem betur fer á ég ástríka foreldra og bræður sem studdu mig.  Þau mynduðu varnarvegg í kringum mig, skutu yfir mig skjólshúsi og hjálpuðu mér að fóta mig í þessari framandi veröld sem virtist svo tilgangslaus.  En fyrrverandi konan mín var ekki búin.  Hún dembdi á mig bróðurpartinum af skuldum okkar og samskiptin versnuðu enn, urðu svo slæm að í 11 vikur fóru þau eingöngu fram í gegnum lögfræðinga. 
 
Í nokkra mánuði sat ég og hugsaði um hversu öflugur andstæðingur alkóhólisminn væri.  Um það leyti sem ég brotnaði niður hafði ég byrjað á fjölskyldunámskeiði hjá SÁÁ.  Þegar ég kom út af spítalanum hafði ég samband við ráðgjafa þar sem ég hafði verið hjá og hún kippti mér inn aftur og ég kláraði námskeiðið.  Í framhaldi af því hóf ég göngu mína í Al-Anon, sem nú hefur varað í tvö ár.  Á fundum hjá Al-Anon uppgötvaði ég að það voru fleiri en ég sem áttu í mjög svipuðum erfiðleikum og ég.  Þarna voru þjáningarbræður og systur, fólk sem kom úr öllum stéttum þjóðfélagsins og á öllum aldri; fólk sem átti það sameiginlegt að vera aðstandendur alkóhólista.  Þarna er fólk sem vinnur í eigin bata, við að bæta líðan sína og hugarástand sitt.  Fólk sem deilir reynslu sinni um hvernig það tekst á við meðvirkni.  Þarna fann ég alvöru vini sem stóðu við stóru orðin; fólk sem var tilbúið til að hlusta ef ég þurfti að tjá mig um hvað sem er. 
 
Ég get nú ekki sagt að ég öfundi fólkið mitt, Al-Anon félagana mína, af því að hafa þurft að hlusta á mig þegar ég þurfti að hella úr skálum reiði minnar, en félagarnir leyfðu mér að tala frá mér reiðina, biturðina og hatrið.  Þegar það var búið fór ég að geta tekið við þeirri fræðslu og visku sem félagarnir höfðu að bjóða.  Ég öðlaðist nýja lífssýn sem byggist á fræðslu og reynslu.  Hugsun mín fór að skýrast, hugur minn að róast.  Ég fór að komast í jafnvægi og mér til mikillar gleði hef ég getað farið að gefa af mér til baka. Þvílík verðlaun, þvílík ánægja að geta tekið á móti til fólki sem kemur brotið og geta hughreyst og huggað og horft á það blómstra. 
 
Sjálfsvinna mín hefur ekki einungis komið sjálfum mér til góða heldur bætt samskipti mín og fyrrverandi konu minnar.  Örlögin höguðu því þannig að ári eftir skilnaðinn fór hún í meðferð og þar með fannst mér að ég hefði unnið einhvern fullnaðarsigur.  En málið snýst ekki um að vinna eða tapa.  Í desember fór ég að huga að jólunum. Börnin okkar áttu að vera hjá mér á aðfangadagskvöld, því þau höfðu verið hjá mömmu sinni jólin áður.  Það hlakkaði í mér í fyrstu, en svo fór ég að gera mér grein fyrir því að þarna voru þrír einstaklingar sem voru háðir duttlungum foreldra sinna um hvar þau deildu jólunum.  Eftir lestur í Al-Anon bókinni okkar Einn dagur í einu, og hafa hlustað á reynslusögur annarra, tók ég örlagaríka ákvörðun.  Ég tók upp símann, hringdi í fyrrverandi konuna mína og bauð henni að deila jólunum með mér og börnum okkar.  Þvílíkur léttir þegar hún þáði boðið og eftir tæplega tveggja ára styrjöld var komið á vopnahlé sem ég vona að vari að eilífu.  Við töluðum saman í fullkominni hreinskilni og án nokkurra undanbragða.  Þetta varð eitt allsherjar uppgjör, án rifrildis.  Mér til mikillar undrunar var hún fullkomlega ósérhlífin og við gátum klárað að gera upp málin.  Síðan þá, síðustu þrjá til fjóra mánuði, hefur margt gerst.  Jafnvægi er komið á börnin okkar og ég hef endurheimt vin.  Ég get talað við hana án fordóma og hún er virk í AA-prógramminu.  Eins og málin hafa æxlast held ég að þau séu komin í það horf sem best verður á kosið og það þakka ég Al-Anon.  Sem dæmi um samkomulag okkar nú er að fyrrverandi konan mín las þetta yfir og sagði þetta eins og það var.  Ef fólk efast um að Al-Anon leiðin virki þá held ég að þessi reynslusaga mín sanni að Al-Anon virkar svo sannarlega.
 
-Sigurbjörn