Íslensk reynslusaga
Ég var alin upp við alkóhólisma og 6 ára gömul var ég send í sveit til vandalausra yfir sumarið. Ég var í sveit á sumrin frá 6-15 ára aldri og fór yfirleitt daginn eftir skólaslit og kom rétt fyrir skólabyrjun. Ég fór aldrei á sumarnámskeið eins og skólasystkini mín, aldrei í skátabúðir, aldrei í unglingavinnuna.
Ég eignaðist barn 21 árs gömul og var ein með son minn lengst af. Ég upplifði aldrei að fara í búðina á föstudegi með manni og barni og spá í hvað við ættum að hafa í matinn eða gera skemmtilegt um helgina eða í fríinu. Ég þurfti alltaf að bera allt inn sjálf, þrífa, elda og allt sem því tilheyrir að reka heimili, ég upplifði aldrei að koma heim og einhver væri búinn að gera þessa hluti. Ég upplifði aldrei sameiginlegar útilegur hjóna/para með börn og buru, í mesta lagi einhverjar vinkonuferðir með börnin.
Ég grét yfir því sem ég „fékk ekki“ að upplifa og mig langaði svo í. Með vinnu minni í Al-Anon hef ég gert mér grein fyrir því að ég hef ekki misst af neinu, ég hef bara fengið annað í staðinn. Ég upplifði margar góðar stundir í sveitinni og lærði að njóta náttúrunnar og lesa í umhverfið. Ég var heppin að lenda hjá góðu fólki í sveitinni og þar var ég laus við drykkjuvandamálin heima hjá mér. Ég var heppin að geta séð fyrir mér og syni mínum og þurfa ekki að upplifa erfitt heimilislíf. Oftast gerði ég það sem mig langaði til, varð ekki að búa við drykkju eða erfiðleika annarra, ég á góðar vinkonur og við gerðum oft skemmtilega hluti saman. Ég var og er fullfær um að reka heimili og þarf ekki hjálp til þess. Það er yndislegt að deila lífi sínu með ástvinum en það er ekkert eitt rétt í því og allt annað „mistök“.
Ég er að læra að horfa öðrum augum á líf mitt og fortíðina, nú leita ég að og rifja upp skemmtilega hluti sem ég hef upplifað og skipti því inn í stað þess sem mér fannst að ég „ætti“ að fá að upplifa en fékk ekki. Það getur enginn upplifað allt hér í lífinu og það sem skiptir máli er að sættast við fortíðina, halda í góðu minningarnar en sleppa hinu. Þetta hefur Al-Anon kennt mér…
ÉG HEF EKKI MISST AF NEINU.