Ég fékk kjark til að breyta því sem ég gat breytt

Þegar ég fór að gera eitthvað í mínum málum, fór í viðtal hjá ráðgjafa, á fjölskyldunámskeið og fór að stunda Al-Anon fannst mér að ekkert væri að hjá mér.  Það var aðeins eitt vandamál og það var maðurinn minn.  Hann drakk svo mikið.   Hann var búinn að eyðileggja mitt líf.  Mér fannst allt sem úrskeiðis hafði farið vera honum einum að kenna.

Ég var gjörsamlega búin að gefast upp.  Gefast upp á því að kenna manninum mínum að drekka.  Við vorum búin að vera gift í rúm tuttugu ár og áttum fjögur börn.  Allan þennan tíma reyndi ég að stjórna drykkju hans.
 
Við vorun ung þegar við kynntumst.  Ég hafði alist upp á heimili þar sem áfengi var ekki haft um hönd.  Foreldrar mínur voru á móti áfengi og brýndu fyrir okkur systkinunum að halda okkur frá því.  ,,Það fylgir því ekkert nema ógæfa að drekka áfengi“ sögðu þau.

 
Svo þegar ég fór að vera með manninum mínum voru þau ekki hrifin af því.  Pabbi minn og bróðir voru hreinlega á móti þessu sambandi.  En ég hlustaði ekki á þá og hélt að þetta væri ekkert mál.  Þetta mundi eldast af manninum.  Alkinn minn hélt líka fast í mig enda hafði ég ótakmarkaða þolinmæði og lifði mig inn í það að vernda og hlúa að.  Ég var sem sagt dyggur og traustur stuðningsmaður fyrir hann.  Ég sá alltaf um að hann kæmist heim til sín og forðaði honum frá öllum vandræðum.
 
Eftir að við vorum gift og fórum að búa saman byrjaði feluleikurinn fyrir alvöru.  Ég leyndi ástandinu fyrir fjölskyldunni og vinum.  Var alltaf tilbúin með afsakanir fyrir hans hegðan.  Hringdi í vinnuna og sagði hann veikan þegar ekki var hægt að vekja hann eftir fyllirí.  Já, ég bar ábyrgð á því hvort hann kæmist í vinnuna eða ekki.
 
Hver helgi var algjör martröð.  Bíða, hlusta, fela flöskur, leita að flöskum, lagfæra og halda öllu hreinu.  Enginn mátti vita hvernig ástandið var.  Ég hafði gjörsamlega gleymt sjálfri mér í öllu þessu rugli.  Ég þorði ekki að hafa skoðun á nokkrum hlut.  Varð fyrst að hlusta eftir hvað öðrum fannst.  Gat ekki valið fötin mín sjálf eða ákveðið hvað ætti að vera í matinn.  Maðurinn minn og börnin mín urðu að hjálpa mér við það.  Stundum leið mér þannig að ég átti erfitt með að fara ein út í búð.  Börnin urðu að koma með mér frekar en að fara ein.  Ég var farin að einangra mig og vildi helst vera heima og hafa alla undir mínum verndarvæng.  Ég ætlaði að passa alla svo vel.
 
Að lokum gafst ég upp, ég vildi skilja – losna – en mig vantaði hjálp.  Það var þá sem ég steig það gæfuspor að fara á Al-Anon fund.  Ástandið á mér var ekki gæfulegt.  Ég kom varla upp nokkru orði.  Ég bara grét.  Mér fannst ég ekkert reið, en komst fljótlega að því að ég var uppfull af reiði og hefndarhug.  Ég var algjörlega kjarklaus og vissi ekkert hvað ég vildi.  Vissi bara að ég vildi ekki búa með virkum alkóhólista.
 
Smátt og smátt fór ég að sjá ljósglætu í öllu þessu svartnætti sem ég var í .  Þetta ljós var ÆÐRULEYSISBÆNIN sem ég hélt dauðahaldi í.  Með hjálp hennar fékk ég KJARK til að breyta því sem ég gat breytt, sjálfri mér.  Sætti mig við það sem ég gat ekki breytt.  Ég gat ekki breytt manninum mínum.
 
Eftir stutta dvöl í Al-Anon þá gerðist það ótrúlega.  Maðurinn minn fór í meðferð.  Nú eru rúm fimm ár síðan.  Við höfum unnið vel í okkar málum.  Hann með hjálp AA og ég með hjálp Al-Anon.
 
Í dag líður mér vel.  Mér þykir vænt um manninn minn EINS OG HANN ER.  Al-Anon hefur algjörlega bjargað mínu lífi og minni fjölskyldu.  Ég komst út úr þessu rugli.  Ég veit að með hjálp Al-Anon og AA tekst okkur að hjálpa börnunum okkar.  Þau eru einnig sjúk því þetta er jú fjölskyldusjúkdómur.
 
Ég bið Guð á hverjum degi um hjálp við að sætta mig við það sem ég ekki fæ breytt og kjark til að breyta því sem ég get  breytt.
 
Al-Anon félagi

 

Áður birt í Hlekknum í mars 1995