Eftirminnileg hópvinna

4. spors vinna
Þegar ég var búin að vera í Al-Anon samtökunum í 6 ár og farin að taka að mér meiri þjónustu í deildinni langaði mig að fara dýpra í 4. sporið. Ég var þá að lesa Paths to Recovery (Leiðir til bata), þá frábæru bók. Bókin fjallar um allar þrjár meginstoðir Al-Anon samtakanna, sporin 12 fyrir bata einstaklingsins, erfðavenjurnar 12 fyrir heilbrigt samfélag í deildum og þjónustuhugtökin 12. Ég nefndi á fundi að mig langaði til að lesa ennþá meira um 4. sporið og spurði hvort einhverjir félagar gætu bent mér á Al-Anon efni. Eftir fundinn kom félagi til mín sem var búinn að vera lengi í samtökunum og kynnti fyrir mér heftið Leiðsögn til bata sem er 4. spors vinnuhefti. Hún og fleiri spjölluðu við mig dágóða stund og það endaði með því að við ákváðum að mynda hóp sem myndi hittast reglulega og fara í gegnum spurningarnar í vinnuheftinu.
Skemmst frá að segja þá hittumst við á viku- til hálfsmánaðarfresti allan veturinn og tókum um það bil 10 spurningar í einu. Ég hafði tekið sporin með trúnaðarmanni en á þennan hátt heyrir maður fleiri viðhorf og mér fannst þetta starf alveg afskaplega gefandi og fannst gott að fara svona djúpt í hverja tilfinningu sem er tekin fyrir sérstaklega í heftinu. Þar sem við svöruðum öllum spurningunum skriflega og lásum svo svörin okkar við einni spurningu í einu þá spunnust oft alveg æðislegar, einlægar og andríkar umræður. Þessi 4. spors vinna varð til þess að ég varð óhrædd að gefa kost á mér til starfa í landsþjónustu Al-Anon.
                Sporavinnan sem slík hafði valdið mér miklum létti þar sem ég komst að því að ég var í grunninn góð manneskja en ekki vond eins og ég hafði sjálf haldið eftir uppeldi í alkóhólískri fjölskyldu. Hins vegar eftir þennan vetur tókst mér að gera upp og kveðja alla gremju, sorg og eftirsjá sem kom til af því að vera í alkóhólísku hjónabandi og ég fór að taka meiri ábyrgð á uppeldi dóttur minnar. Ég hvet alla Al-Anon félaga að íhuga að gefa sér tíma til þess að vinna í hóp með öðrum Al-Anon félögum og nýta sér þetta hefti í batavinnunni. 
 
Vesturbæjarmær