Dramatísk og krassandi reynsla

– sem breytti lífi mínu
,,Æi, á nú að fara að tala um erfðavenjurnar– og ég sem kom af því að ég þarf að tjá mig um brýnu vandamálin mín…“  Þessi hugsun flaug í gegnum huga minn oftar en mig langar til að viðurkenna fyrstu árin mín í Al-Anon.  Heimadeildin mín fundar um erfðavenjurnar í fyrsta fundi hvers mánaðar og í mörg ár hefur það verið venja að deildarfulltrúi les þýðingu úr bókinni ,,12 steps, 12 traditions“ í upphafi þess fundar, sem tekur um 5-7 mínútur.  Ég setti mig í stellingar til að hlusta á lesninguna, og leið oftar en ekki frekar illa undir henni, þar sem iðulega var verið að tala um þann bata sem hægt er að fá með þjónustu í samtökunum, og fleira sem mér fannst ekki nándar nærri eins mikilvægt og vandamálin mín vegna drykkfellds maka og stjórnlauss lífs okkar. 
Það voru sjaldnast liðnar meira en tvær mínútur þegar ég datt út og hugurinn reikaði út á tún og út um móa. Ég tók stundum að mér að mæta hálftíma fyrr en venjulega og leggja lesefni og kaffidótið á borðin, og taka saman á eftir, og fannst ég hafa ,,gefið til baka“ og ,,sýnt þakklæti í verki“ í nógum miklum mæli til að þurfa ekki að rífast við samvisku mína í fyrsta fundi hvers mánaðar. Ég veitti því ekki athygli að það var enginn annar sem reifst við mig um mitt framlag til samtakanna; það var bara samviska mín – ekki hinir félagarnir…
Kvöld eitt, eftir fund, kom til mín kona sem ég vissi að hafði verið lengi á fundum, og bauð mér að koma með sér á Vog, meðferðarstöð SÁÁ, til þess að kynna Al-Anon samtökin næsta laugardag. Þetta væri liður í því semkallað væri tólfta spors starf, eða þjónusta í AL-ANON. Við yrðum þrjár, og ef ég yrði stressuð, þá þyrfti ég ekki að tala nema örstutt; kannski að lesa inngangs-eða lokaorðin okkar.  Ég var upp með mér, en ögn kvíðin líka og hjartað sló ögn örar.  Hafði ég lært eitthvað sem gæti komið öðrum að gagni?  Ég sem hafði stundað fundina mjög stopult um langt skeið, en aðeins nýlega byrjað að taka Al-Anon leiðina alvarlega – keypt og lesið bækurnar og byrjað að sækja sporafundi þar sem farið var í vinnubók um sporin. 
 
Hvað sem því leið þá ákvað ég að skorast ekki undan og mætti upp á Vog þetta laugardagssíðdegi á tilsettum tíma.  Áheyrendurnir voru um 40-50 alkóhólistar af báðum kynjum.  Það dró ögn úr taugaóstyrk mínum þegar ég sá að þeir voru allir klæddir náttsloppum, ósköp varnarlausir að sjá; og ég skildi hvernig þeim unglingi líður sem fer ekki úr úlpunni sinni á ókunnum stað.  Við vorum þrjár saman á kynningunni og þær reyndari sögðu áheyrendum frá uppbyggingu Al-Anon og tilgangi samtakanna og eflaust mörgu fleiru sem ég man ekki eftir, því ég var svo upptekin af að hugsa um hvað í ósköpunum ég ætti að segja.  Átti ég að treysta ,,þessu liði“ fyrir sjálfri mér, fyrir sögunni minni og hvernig ég væri að styðjast við Al-Anon leiðina til að eignast betra líf? Þegar röðin kom að mér að fara í pontuna hafði ég ekki komist að niðurstöðu, en fór í huganum með heimagerðu Al-Anon-bænina mína: ,,Góði Guð, hjálpaðu mér að hlusta af kærleika og tala af kærleika.“ 
 
Ég man ekki mikið af því sem ég sagði, en ég man að sú hugsun flaug í gegnum huga minn að ég hefði engu að tapa þótt ég gæfi þessu fólki hlutdeild í reynslu minn.  Að ekkert sem ég hefði upplifað þekktu ekki eitthvert þeirra af eigin raun – og kannski gæti reynsla mín af Al-Anon hjálpað einhverjum til að skilja eigin aðstandendur; mörg þeirra hlutu auk þess sjálf að vera aðstandendur annarra alkóhólista. Ég man betur hvernig mér leið þegar ég hafði sagt þeim söguna mína.  Eftir að við höfðum slitið kynningunni með því að fara saman með æðruleysisbænina komu margir til okkar og föðmuðu okkur og þökkuðu fyrir; sumir sögðu ,,það sem þú sagðir var eins og talað út úr mínu hjarta“ eða ,,Ég skil þig svo vel, þú minnir mig á dóttur mína, konuna mína/mömmu mína.“  Ég fór heim svífandi af gleði og hamingju; ég hafði gert gagn og hlotið þakklæti fyrir sem var engu öðru líkt.
 
Ég hafði lært að sumt verður ekki keypt; batann í Al-Anon öðlast maður aðeins sem gjöf, og þeirri gjöf er aðeins hægt að halda með því að miðla henni áfram. Og með því að miðla stækkar hún og eykst. 
 
Einhvers staðar á leiðinni fór ég að hlusta og skilja og þykja vænt um erfðavenjurnar tólf.  Ég lærði að heimfæra þær á fjölskyldu mína og skilja að þátttaka okkar allra, í fjölskyldu jafnt sem samtökunum, er mikilvæg fyrir þroska okkar.  Við búum öll yfir broti af þeirri þekkingu sem er okkur öllum nauðsynleg og við verðum að deila því broti til að raða þeim saman í heildarmynd. Eitt af því sem ég hef nýtt mér er að halda samviskufundi á heimilinu, þar sem allir í fjölskyldunni hafa rétt til að tjá skoðanir sínar, og við tökum sameiginlegar ákvarðanir um það sem varðar okkur öll sem heild. Það gengur á ýmsu, og stundum finnst einum að hann sitji upp með öll húsverkin, alla þjónustuna, og hinir þurfa að vita af því og fá tækifæri til að sinna því sem þeir eru færir um að sinna, og þiggja þakklæti fyrir frá öðrum í fjölskyldunni. 
 
Kæri félagi, sem baðst mig í fyrsta sinn að taka þátt í þjónustu fyrir Al-Anon – takk fyrir að gefa mér tækifæri til að upplifa þessa dramatísku og krassandi reynslu sem breytti lífi mínu.
 
Með kærri kveðju,
-V.