Tökum þátt:
Þegar ég kom fyrst í Al-Anon fyrir nokkrum árum niðurbrotin á sálinni þá fann ég fljótt að ég gat treyst því fólki sem þar var. Það sýndi mér mikla vinsemd og hlýju. Það var vel tekið á móti mér, mér fannst ég vera komin heim. Síðan eru liðin nokkur ár. Nú þekki ég betur sjálfa mig, sjálfstraustið hefur aukist og ég er tilbúin að takast á við lífið. Nú þegar mér líður betur er ég tilbúin að gefa til baka og ég hef lært í Al-Anon að allt sem ég gef fæ ég margfalt til baka aftur.
Það er nafnleyndin sem gerir okkur kleift að starfa saman og vera samtök.
Og nafnleyndin er hinn andlegi grundvöllur allra erfðavenja okkar og minnir okkur á ætíð á að setja málefni og markmið ofar einstaklingum. Þannig hljóðar 12 erfðavenjan.
Eiga samtökin að aðeins að vera fyrir okkur þegar okkur líður illa? Of oft hunsum við samtökin þegar okkur líður vel og viljum ekkert gefa til baka. Með því að taka ekki þátt í þjónustu erum við að meina okkur um bestu bataleiðina. Við þurfum að halda vöku okkar og benda nýliðum á hversu mikilvæg þjónustan er. Hvernig væri að hver og einn spyrði sjálfan sig þessa: Hvað hefur Al-Anon gert fyrir mig og hvað vil ég gefa til baka? Það er í raun í höndum okkar sjálfra hver framtíð samtakanna verður.
Ég byrjaði eins og svo margir í kaffiþjónustu. Svo hef ég alltaf stigið einu skrefi lengra en ég hef þorað. Samtökin hafa gefið mér kjark til að takast á við ný og krefjandi verkefni. Ég er Al-Anon ævarandi þakklát fyrir að hafa verið til fyrir mig þegar ég þurfti á þeim að halda. Nú er ég tilbúin að gefa til baka allt það sem ég hef fengið. Að lokum vil ég þakka Al-Anon félögum mínum fyrir að hafa verið til staðar þegar ég var hjálpar þurfi. Nú er ég til fyrir ykkur.
Kveðja frá þakklátum félaga