Baráttan við sektarkenndina

Þakklát móðir skrifar:
,, . . við skiljum hvernig þér líður“
Ég sat við skrifborðið mitt fagurt sumarkvöld og horfði yfir höfnina.  Sjórinn var rennisléttur og fagur.  Sólin var í þann mund að setjast og fegurðin gagntók huga minn.  Allt í einu fylltist ég þakklæti þegar upp í huga minn kom atvik sem átti sér stað fyrir mörgum árum, löngu áður en ég komst í kynni við Al-Anon samtökin.  Ég sá hvað sporin höfðu breytt viðhorfi mínu mikið og mér veittist auðveldara að treysta æðri mætti fyrir þeim sem mér þykir svo óskaplega vænt um.  Ég sá fyrir mér löngu liðinn atburð:
 
Ég geng um gólf og lít annað slagið út um gluggann.  Klukkan er tvö að nóttu og hún dóttir mín er ekki komin heim.  Hún fór út í fússi fyrir sex klukkutímum og ég veit ekki hvar hún er.
 
Klukkan er fjögur og ég geng enn fram og aftur um stofugólfið.  Ég opna útidyrnar og athuga hvort ég sjái nokkurn bíl í nágrenninu sem hún gæti verið í.  Ég þoli ekki lengur við inni og ákveð að fara og leita að henni.  Ég keyri um bæinn fram og aftur en kem hvergi auga á hana.  Hvar er hún?  Hvað hefur komið fyrir hana?  Hefur hún gert alvöru úr hótun sinni og gengið í sjóinn?  Ég bruna niður að höfn – sturluð af hræðslu.  Ég fer út úr bílnum og geng um alla höfnina og græt.  Góði Guð, láttu hana ekki vera hérna.  Ég kreppi hendurnar í angist og horfi á sjóinn.  Hann er ískaldur og ógnandi og ef til vill hefur hann fengið barnið mitt í nótt.
 
Ég fer heim aftur, örmagna á sál og líkama og græt mig í svefn.
Næsta dag um hádegi kemur barnið mitt heim, heilt á húfi.  Mér léttir að sjá að ekkert hefur komið fyrir hana.  Ég garga á hana með ásökunum og buna út úr mér hvað hún hafi komið voðalega fram, að láta ekki vita af sér.  Ég segi henni ekki að ég hafi verið hrædd um hana af því að mér þyki svo óskaplega vænt um hana.  Ég kann það ekki.
 
Eftir langa baráttu á milli okkar kemst ég að raun um að hún er alkóhólisti.  Hvað hafði ég gert til þess að þetta þyrfti að koma fyrir?   Ég hafði verið vond móðir.  Ég hafði ekki sinnt skyldu minni og verndað hana fyrir vondum félagsskap.  Ég hafði ekki verið nógu góð við hana.  Þetta var allt mér að kenna.
 
Góður vinur minn sagði mér að fara á fund hjá Al-Anon.  Ég hlýddi og það var tekið á móti mér með opnum örmum og sagt við mig:  ,,Við skiljum hvernig þér líður.  Haltu áfram að koma, það virkar.“
 
Það var ótrúlegur léttir að finna að ég var ekki lengur ein.  Ég skildi fátt af því sem félagarnir sögðu en ég fann að þarna átti ég heima, hjá ÞESSU fólki sem talaði svo fallega um tilfinningar sínar og hvernig þau færu að því að láta hvern dag verða góðan dag, jafnvel þó alkóhólistinn drykki.
 
Ég lærði að ég hefði ekki valdið því að barnið mitt væri alkólhólisti og ég gæti heldur ekki læknað þennan sjúkdóm, frekar en til dæmis lungnabólgu.  Ég lærði að til væri æðri máttur sem gæti hjálpað mér ef ég vildi ná stjórn á lífi mínu.  Ég þyrfti aðeins að verða fús til að þiggja hjálpina.  Ég lærði að gott væri fyrir mig að gera persónulegt yfirlit yfir þá eiginleika mína sem mér þætti ekki gott að hafa, en jafnframt að gleyma ekki að skoða líka kostina mína.  Ég lærði að ég ætti val, hvort ég vildi leggja orku mína í að rækta gallana eða kostina.
 
Ég treysti Al-Anon leiðinni og bað Guð í auðmýkt að losa mig við sektarkenndina og hjálpa mér á veginum til betra lífs.  Ég bað Guð einnig að gera það sem ég var nú orðin sannfærð um að ég gæti ekki, að hjálpa alkóhólistanum mínum að finna rétta leið, ef það væri hans vilji.  Einnig bað ég um hjálp og trúði að ég fengi hana, til að sætta mig við lífið eins og það er, en ekki eins og ég vildi svo gjarnan hafa það, og mátt til að framkvæma það sem ég þyrfti að gera sjálf á veginum sem fyrstu sjö sporin hafa lagt fyrir mig.  Þannig komst ég að áttunda sporinu, heil á húfi og margt er orðið betra í lífinu mínu en áður.
 
Ég veit að ég get ekki numið staðar hér.  Enn eru eftir fimm spor af tólf.  Ef ég hef raunverulega áhuga á að öðlast hugarró ásamt góðum degi framundan þá held ég áfram og tek þau spor sem eftir eru.  Með æðri mátt mér við hlið mér reyni ég að hlusta á leiðbeiningar þeirra með opnum huga, jafnvel þó mér þyki þær ekki alltaf auðveldar.
 
-Þakklát móðir

 

Áður birt í Hlekknum 4. tbl. 1992