Ást

Reynslusaga
Heftið okkar Leiðsögn til bata skiptist í sex kafla og þar gefst okkur tækifæri til að gera persónulega úttekt á viðhorfum, ábyrgð, sjálfsmati, ást, þroska og skapgerðareinkennum okkar. Áður hafa verið birtast hér á síðunni reynslusögur um viðhorf og ábyrgð. Hér kemur reynslusaga um ást.
 
Ég minnist þess ekki að einhver hafi sagt við mig í mínum uppvexti að hann elskaði mig eða þætti vænt um mig og sjaldan var ég föðmuð eða tekin í fangið, en ég fékk að heyra að ég væri dugleg og gott að treysta mér. Með þetta úr fortíðinni var frekar erfitt að svara spurningum um ástina – elskaði ég mig? Nei, en við það að vinna sporin fyrst sjálf, og smá með mínum æðri mætti, með félögum í deildinni og síðan þegar félagi bað mig að fara með sér skriflega í fjórða spor Al-Anon – Uppgjör (Leiðsögn til bata P-5) opnuðust nýjar víddir í mínu lífi.
Ég hafði verið misnotuð kynferðislega í æsku eins og fleiri börn alkóhólista og þar þurfti ég að takast á við það að ekki var brugðist við þegar ég sagði frá – en þó var mér trúað, ég þurfti að horfast í augu við og viðurkenna fyrir sjálfri mér, hvað hafði gerst, við hvaða aðstæður og hve oft. Þessu fylgdi sársauki og átök og ég er þakklát félögum í deildinni minni sem töluðu um svipuð mál af trúnaði og í einlægni á þessum tíma og einnig maka mínum fyrir skilning og stuðning. Þegar þessu uppgjöri var lokið fann ég hvað ég fór að sættast við mig og horfa á mig á annan hátt, ég hafði fyrirgefið sjálfri mér og við það fann ég að ég átti auðveldara með að bera sannar tilfinningar til annarra. Að læra að taka utan um aðra einstaklinga sem mér þótt vænt um og að segja upphátt við þá hvað mér þykir vænt um þá var ótrúlega góð tilfinning og ég get gefið ást án þess að ætlast til endurgjalds.  Það að ég horfði af hreinskilni og sannleika á kynlífssamband mitt og hver ég er sem kynvera breytti miklu. Að fá að njóta þess að upplifa kynlíf sem góða tilfinningu þar sem báðir aðilar eru að gefa og þiggja er í raun ólýsanlegt þegar tilfinningar eins og skömm, skylda eða viðbjóður höfðu áður verið undirliggjandi og sem var hinum aðilanum alveg óviðkomandi.
 
Ég hef ekki leiðrétt allt sem þessi hluti fjórða sporsins um ástina bendir okkur á, ég ber t.d. ekki ósvikna umhyggju fyrir meðbræðrum mínum og ég gleymi afmælis- og öðrum tyllidögum minna nánustu, kannski er þetta hluti af mínum persónueinkennum hver veit?
 
Kærleikur rúmast ekki í hjarta sem er fullt af ótta og gremju.
 
Al-Anon félagi