Al-Anon– ekkert fyrir mig!

Þessu hef ég trúað í hartnær 15 ár.  Ég er sum sé “uppkomið barn alkóhólista” svo rétta hugtakið sé notað.  Merkilegt, allan þennan tíma hef ég ekki upplifað mig sem neitt sérstakan “bara” þótt pabbi hafi drukkið brennivín og vel af því.  Faðir minn er alkóhólisti, var virkur sem slíkur fyrstu 20 ár ævi minnar, en hefur verið nokkurn veginn edrú síðan.  Ég hef nú ekkert talið athugavert við mig eða minn persónuleika eða persónueinkenni í gegnum tíðina J en ef svo ólíklega skyldi nú vera að þar væri eitthvað að, þá hefur það nú klárlega ekkert með pabba að gera né heldur að hann skyldi drekka! Eða hvað? 
 
Ég hef hins vegar alltaf haft sterkar taugar til AA.  AA hjálpaði pabba mikið.  AA hjálpaði þannig mér mikið.  Al-Anon hef ég líka lengi talið hið besta mál.  Bara ekki fyrir mig.  Karlmenn eiga jú að vera sterkir.  Karlmenn eiga ekki að velta sér uppúr einhverjum vandamálum.   Karlmenn eiga ekki að finna til.  Þetta hljómar kannski eins og stuttur úrdráttur úr Tarsan bókunum en á sér samt ótrúlega sterka taug í “mönnum á mínum aldri”.
 
Ég er heppinn maður.  Heppinn að mörgu leyti en þó í þessu tilliti sérstaklega vegna þess að ég kynntist góðri konu sem er virk í Al-Anon.  Þessi kona ýtti í rólegheitum því að mér því að e.t.v. væri nú eitthvað í Al-Anon sem passaði fyrir mig.  Hún lánaði mér m.a. bók um uppkomin börn alkóhólista.  Ég las þessa bók þegar hún lánaði mér hana og þá sagði bókin mér ekkert.  Fyrir nokkrum vikum síðan las ég hana aftur.  Eftir þann lestur, og meðan á honum stóð, spurði ég mig í alvöru nokkrum sinnum hvernig þessi ágæti höfundur þekkti mig.  Hvernig hann gæti vitað allt þetta um mig án þess að hafa nokkru sinni talað við mig!  Ég, sem hef aldrei talið mig “týpískan” að einu eða neinu leyti.  Ég hef greinilega haft rangt fyrir mér.   Ég er að mörgu leyti týpískt barn alkóhólista.
Hafandi komist að þessari niðurstöðu, ákvað ég að taka hið stóra skref.  Ég skyldi fara á Al-Anon fund.  Aftur naut ég óbeinnar aðstoðar vinkonu minnar, ég hafði fengið um það upplýsingar að Al-Anon væri komið á vefinn, og þar mætti finna upplýsingar m.a. um fundi.  Hafi einhvern vantað staðfestingu á því að Al-Anon á vefnum skilaði árangri, þá er ég lifandi dæmi.  Ég sá að þennan sama dag var nýliðafundur í einni Al-Anon deild.  Ég væri ekki sá sem ég er, nema að ákveða í skyndi að á þennan fund skyldi ég fara.  Klukkan átta þetta sama kvöld var ég mættur á staðinn.  Satt best að segja hafði ég ekki hugmynd um hvað biði mín, ég var bara nokkuð ánægður með sjálfan mig að hafa stigið skrefið.  
 
Þessi fundur var um margt eftirminnilegur fyrir mig.  Í fyrsta sinn í lífi mínu sagði ég “ég er barn alkóhólista” og skynjaði sérstaka meiningu í því.  Þó það hljómi e.t.v. sem mótsögn, þá var það góð tilfinning.  Góð vegna þess að um leið og ég sagði það, fann ég að ég gat talað um margt sem hafði áður verið grafið í djúpi gleymsku og vanlíðunar.  Ekki það að það ryddist allt fram úr mér, ég bara fann að getan var fyrir hendi til að takast á við þetta.
 
Það var líka ýmislegt sem stuðaði mig á þessum fundi.  Ég var þarna eini karlmaðurinn.  Þarna voru konur sem flestar höfðu að segja raunasögur um samskipti sín við karlkyns alkóhólista.  Ég verð að viðurkenna að ég upplifði mig að hluta sem e.h. konar fulltrúa þessara “karlsvína” á svæðinu.  Margar þessar sögur voru líka sögur af hræðilegum lífsreynslum, eitthvað sem fékk mig til að efast um hvort ég ætti eitthvert erindi þarna inn “með mín gömlu smávandamál”.  Ég hins vegar áttaði mig fljótt á því að þetta væri ekki keppni um hver hefði haft það verst í samskiptum sínum við alkóhólista, heldur þyrfti hver að glíma við sín vandamál, takast á við sína persónu.
 
Reynslan af þessum fundi fyrir mig var sú að hugsa, það er eitthvað þarna sem ég vil skilja betur.  Ég vil kanna mín sálardjúp, finna hvaða drauga ég hef grafið í sálu minni öll þessi ár, drauga sem kannski hafa truflað tilfinningalíf mitt miklu meira en mér hefur nokkurn tíma dottið í hug.  Fyrir okkur fótboltasjúklingana var þetta kannski eins og að ákveða loksins að nú yrði að fara í uppskurð vegna gamalla hnjámeiðsla, þessi meiðsl eru bara á sálinni.
 
Viku seinna dreif ég mig því á annan fund.  Í þetta sinn fór ég í aðra Al-Anon deild, hafði heyrt að það væri gott að prófa á nokkrum stöðum til að finna hvar manni liði best.  Í stuttu máli fannst mér það frábært.  Ég fann til meiri samkenndar með ókunnugum manneskjum heldur en ég hef nokkru sinni fundið áður.  Eftir fundinn spratt fram eftirfarandi hnoð:
 
            Á fund ég fór
            fannst það mjög gott
            engin “kvennakór”
            komu fleiri með “skott”!
 
Sum sé, þarna voru fleiri karlmenn, en það sem skipti meiru máli, þarna leið mér vel.  Mér leið eins og ég væri kominn heim.  Mér leið eins og það væri fólk þarna sem skildi hvað ég væri að hugsa.  Hvernig mér líður.  Hvernig mér leið þegar ég bjó með mínum alkóhólista.  Mig langaði mest til að faðma þetta fólk.  Af “meðfæddri karlmennsku” hélt ég þó aftur af mér, lét nægja að þrýsta fast hönd fallegu konunnar við hlið mér þegar við sögðum Faðir vor í lok fundarins, karlmenn eru jú alltaf karlmenn!
 
Ég fór svo á þriðja nýliðafundinn minn.  Aftur greip mig þessi góða vellíðunartilfinning, tilfinningin að geta óhræddur opnað löngu gleymdar minningarkistur.  Ekki svo að skilja að þessar minningar sem þar leynast séu yfirleitt neitt sérstaklega ljúfar.  Þvert á móti.  Vellíðunin fellst miklu frekar í því að “kreista bóluna”, hleypa út greftri sem hefur þrýst á sálina.  Hljómar ekki geðslega en er samt afar góð tilfinning.  Aftur kallaði “skáldagenið” í mér á vísu:
 
            Á annan fund ég fór
            fílaði það vel
            Mikils vísir er mjór
            missti harða skel.
           
Eftir nýliðafundinn fór ég svo á almennan Al-Anon fund.  Þar fór margt merkilegt fram.  Margir stigu á stokk og ræddu líðan sína, tilfinningar og lífsins praktísku mál.  Sumir ræddu jafnvel heilsufar sitt í smáatriðum, síðustu heimsókn til læknisins og hvernig kirtlabólgan væri að þróast.  Ég skal viðurkenna að ég varð í fyrstu fyrir nokkrum vonbrigðum.  Þarna var ég mættur til að takast á við hin “stóru vandamál” en svo var fólk bara að blaðra um alls konar smáatriði.  Eftir að hafa hlustað í góða stund, rann upp fyrir mér nokkur sannleikur.  Al-Anon er ekki þannig að allt sé hnitmiðaður sannleikur, klæðskerasniðinn að því að leysa úr vandamálum stórum og smáum.  Al-Anon er viskubrunnur.  Viskubrunnur þangað sem maður getur sótt svör, sótt ábendingar, sótt reynslusögur sem geta hjálpað manni að vinna úr sínum málum.   Það gerir bara ekkert til þó sumt sem sagt er hjálpi manni hreint ekki neitt.  Það hjálpar nefnilega kannski einhverjum öðrum.  Í gegnum Al-Anon hjálpar fólk eins og ég fólki eins og mér að hjálpa sér sjálfu.  Al-Anon er nefnilega fyrir mig.
 
Kveðja
Tryggvi Þór