Afmælisfundurinn minn

Íslensk reynslusaga
Í fyrra fór ég í fyrsta sinn á afmælisfund Al-Anon. Ég hafði verið í samtökunum í nokkur ár en aldrei haft mig í að fara. Ástæðan var sú að afmælisfundurinn var alltaf á sama tíma og fundur í minni heimadeild og hef ég ætíð verið óöruggur þegar breyta á út af vananum. Þegar ég kom svo inn í Grafarvogskirkju fann ég gríðarlega mikla samkennd og má segja, hátíðarstemningu.
Fundurinn var verulega góður og upplifði ég hann sem nokkurs konar uppskeruhátíð fyrir þann árangur sem ég, og aðrir, höfðum náð í Al-Anon. Ég fylltist þakklæti fyrir það samband sem ég á við alkóhólistana í lífi mínu í dag og fyrir þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið hjá mér. Að horfast í augu við hvernig hlutirnir voru, hvernig hlutirnir eru núna og að ferðalag mitt í þessari sjálfskoðun sé rétt að byrja, er mér ómetanlegt.
Nú er ég fullur tilhlökkunar fyrir komandi fundi. Ég hef lofað mér því að afmælisfundur Al-Anon verði eitthvað sem ég sleppi ekki hér eftir.