Ævintýrið ,,Prinsessan, drekarnir og töfrakistan“

Einu sinni var prinsessa sem langaði til að finna sér draumaprins sem elskaði hana ofar öllum öðrum. 
Hún leitaði hátt og lágt og fór um víðan völl í leit sinni en þótt margir álitlegir piltar segðust vera prinsar kom jafnoft í ljós að konungdæmi þeirra stóð aðeins um skamma hríð og gufaði stundum hreinlega upp þegar sólin kom upp að morgni. 
En dag einn taldi hún sig þó loks hafa fundið hinn eina sanna draumaprins.  Hann var hávaxinn og karlmannlegur eins og prinsum sæmir og það besta var að hann sagðist elska hana ofar öllum öðrum.  Eini gallinn var sá að draumaprins þessi átti stóran og feitan dreka sem hann hafði með sér hvert sem hann fór og voru þeir félagarnir gjörsamlega óaðskiljanlegir.  Enda ekki nema von því dreki prinsins var afkvæmi dreka foreldra hans og höfðu fjölskyldurnar fylgst að lengi.  Dreki prinsins hét Alkóhólismi en hann gegndi reyndar aldrei nafni, fremur en aðrir drekar af hans ætt.  Til matar hafði hann hroka, ótta, reiði og sektarkennd en til drykkjar hafði hann mikið af áfengi.  Prinsessunni þótti drekinn dálítið plássfrekur og vissi að hann hafði áður rekið burt aðra stúlku sem hafði viljað að draumaprinsinn losaði sig við hann.
Sjálf átti prinsessan reyndar tvo dreka sem voru þeirri náttúru gæddir að þeir voru ósýnilegir því að þeir földu sig í Skúmaskotum sálarinnar, þar sem aldrei var tekið til.  Þeir gátu talað til hennar og sannfært hana um næstum hvað sem var ef þeim sýndist svo.  Drekar þessir hétu Ótti við höfnun og Vanmetakennd og höfðu fylgt prinsessunni allt frá því að hún var lítið barn.  Drekum prinsessunnar leist ljómandi vel á dreka prinsins og sáu fram á að ef hún myndi binda trúss sitt við prinsinn gætu þeir drekarnir leikið sér saman allir þrír og nært hver annan.  Þeir hófust því handa við að hvísla hvor í sitt eyra prinsessunnar öllu því sem þeim þótti vænlegt til að tryggja samvistir sínar við dreka prinsins.  Þeir sögðu prinsessunni að dreki prinsins væri nú frekar smávaxinn, raunar varla stærri en agnarlítill hvolpur, og eflaust væri auðvelt að temja hann og kenna honum góða siði, að minnsta kosti fyrir hverja þá draumaprinsessu sem vildi standa undir nafni sem slík. Þeir bentu henni líka á að alls ekki væri víst að nokkur annar prins myndi líta við henni og ef hún hagaði sér ekki vel væri eins víst að prinsinn rynni henni úr greipum, líkt og stúlkunni sem hafði verið bæði afskiptasöm og leiðinleg við drekann hans. 
Prinsinn sjálfur hafði af löngum samvistum sínum við drekann sinn lært að hægt var að gera hann nær ósýnilegan fyrir prinsessum, að minnsta kosti um tíma, með sérstökum töfraorðum (,,Ég elska þig“ og ,,Fyrirgefðu“).  Hann lagðist nú á sveif með þeim Ótta við höfnun og Vanmetakennd og beitti töfraorðunum í tíma og ótíma.  Prinsessan lét að lokum sannfærast og þau prinsinn og drekarnir þrír bjuggu sér heimili í konungsríkinu ,,Hringekja drekanna“.  Í hönd fóru nú æsispennandi tímar þar sem drekarnir þrír kepptust við að næra hver annan.  Með tímanum ólu þeir af sér afkvæmi sem hétu Óhamingja, Einmanaleiki, Stjórnleysi og Sorg.  Allir drekarnir höfðu nóg að eta og hver fitnaði af öðrum.  Dreki prinsins, Alkóhólismi, fékk alltaf nóg af áfengi að drekka og ríkti sem einveldiskonungur í ,,Hringekju drekanna“. 
Árin liðu og prinsessan gerði hvað hún gat til að halda Alkóhólisma í skefjum og hlaupa undan hinum drekunum.  En það var alveg sama til hvaða ráða hún greip, dreki prinsins lét ekki að stjórn og var sífellt fyrirferðarmeiri, og hinir drekarnir bitu hana í hælana á hverjum degi.  Töfraorð prinsins voru alveg hætt að duga til að gera Alkóhólisma ósýnilegan. Hennar eigin drekar voru henni þó jafn ósýnilegir og áður en spúðu sífellt meira eitri í líf hennar.  Aftur og aftur sögðu þeir henni að hún væri ekki nógu góð og það væri ástæðan fyrir því að yngri drekarnir fjórir væru farnir að taka svona mikið pláss á heimilinu.  Hún reyndi því að standa sig stöðugt betur í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur í þeirri von að hrekja drekana að heiman, en ekkert dugði. Þeir sátu sem fastast á hverju sem gekk og fjölgaði reyndar enn; í heiminn kom drekinn Fullkomnunarárátta.
Dag einn þegar prinsessan var í öngum sínum yfir þessu öllu saman bárust henni til eyrna þau tíðindi að drekinn Alkóhólismi væri með öllu ódrepandi, en ef tekin væri frá honum öll næring og hann sendur á hlýðninámskeið væri hægt að temja hann svo að hann væri í húsum hæfur.  Sá eini sem það gæti gert væri þó eigandi hans því aðra hlustaði hann aldrei á.  Prinsessan hófst nú handa við að reyna að sannfæra prinsinn um að öllum væri fyrir bestu að hann og drekinn hans færu á hlýðninámskeið.  Prinsinum leist ekki vel á það; hann vissi sem var að drekinn var skapvondur og yrði erfiður viðureignar, enda hafði hann áður farið á slíkt námskeið sem litlum árangri hafði skilað.  Hann sagðist þó skyldu hætta að gefa drekanum að drekka og smíða honum hlekki úr loforðum svo að hann léti betur að stjórn.  Prinsessan var heldur döpur yfir þessum málalyktum því hún vissi af reynslunni að drekinn braut slíka hlekki auðveldlega af sér.  Og nú voru hinir drekarnir allir orðnir svo feitir og pattaralegir að það var sama hvar hún steig, alltaf var halinn á einhverjum þeirra fyrir henni, jafnt sýnilegir sem ósýnilegir. 
Í örvæntingunni sem þá greip hana rifjaðist upp fyrir henni að einu sinni fyrir langa löngu hafði henni áskotnast töfrakista sem í voru alls kyns verkfæri og vopn sem áttu að duga gegn drekum.  Kista þessi var kölluð Al-Anon.  Sá galli var þó á gjöf Njarðar að kistan sú var henni læst og af því að prinsessan hafði verið ung og óþolinmóð þegar hún sá hana fyrst hafði hún fljótlega gefist upp á að reyna að opna hana.  Hún tók nú töfrakistuna fram aftur og skoðaði læsinguna.  Sér til undrunar sá hún þá að það eina sem þurfti til að ljúka henni upp var lítils háttar þolinmæði.  Hana hafði hún í þetta sinnið, til allrar lukku, og nú komu í ljós gersemar töfrakistunnar.  Meðal þeirra voru Fundasókn, Sporin, Erfðavenjurnar og Þjónustuhugtökin tólf, Slagorðin, Lesefnið, Trúnaðarkonan og síðast en ekki síst Trúin á æðri mátt.  Í fyrstu þótti prinsessunni mjög miður að ekkert af þessum vopnum hennar dugðu til að gera út af við dreka prinsins, en tók gleði sína fljótt þegar hún fann að þau drógu snarlega tennurnar úr hennar eigin drekum. Þeim þýddi nú ekkert lengur að fela sig í Skúmaskotum hugans því hún sópaði þau reglulega með Sporunum tólf.  Afkvæmi þeirra og dreka prinsins skruppu nokkuð saman en lögðu þó ekki upp laupana því þau höfðu góðan stuðning af drekanum Alkóhólisma sem barðist fyrir lífi sínu og þeirra með kjafti og klóm.
Þegar hér var komið sögu þótti prinsessunni einsýnt að ekki væri búandi með prinsinum og dreka hans lengur og ákvað að yfirgefa ,,Hringekju drekanna“.  Samt sem áður þótti henni prinsinn ennþá álitlegur kostur, tækist honum nú bara að temja drekann sinn svo vel væri og notfæra sér verkfærin í töfrakistu þeirri sem kölluð er AA og ætluð drekaeigendum af hans tagi.  Prinsinum þótti þetta svo sem reynandi og á hlýðninámskeiði lærði hann að hætta að gefa drekanum áfengi að drekka.  Drekinn var hins vegar ólseigur og lúmskur og þreifst ágætlega á því sem hann hafði til matar (en það voru eins og þið munið hroki, ótti, reiði og sektarkennd) og lagði hart að prinsinum að fá sér bara nýja prinsessu í stað þess að vera að veifa framan í sig þessu dóti úr töfrakistunni.  Það varð á endanum úr, enda komst prinsinn að því að gömlu töfraorðin (,,Ég elska þig“ og ,,Fyrirgefðu“) dugðu ágætlega á aðrar prinsessur, að minnsta kosti um tíma.  Þegar þau hættu að virka og drekinn varð þeim sýnilegur í öllu sínu veldi skipti hann bara um prinsessu, enda alltaf nógar prinsessur í leit að draumaprinsum um allar jarðir. 
Af prinsessu þessa ævintýris er það hins vegar að frétta að hún hefur enn ekki lokað sinni töfrakistu og nýtir sér gersemar hennar á hverjum degi.  Af og til slá litlir drekar til hala hér og þar, eins og dreka er háttur og eðli, en verkfærin úr kistunni duga ávallt til þess að draga úr þeim máttinn.   Hún veit sem er að enginn ræður við aðra dreka en sína eigin. 
– V.D.