Að „lifa jólin af“ eða njóta þeirra

– kótilettan og Al-Anon
Það var í október sem ég gerði mér grein fyrir því að ég hafði verið með kvíðahnút í maganum í nokkra daga. Ég fór að velta því fyrir mér af hverju hann stafaði, fór yfir atburði síðustu daga en svo skaut mynd upp í kollinn á mér af aðfangadegi 2000. Það var í eldhúsinu heima hjá mömmu, kærastinn minn var í brjáluðu skapi út í mömmu mína, sonur minn sem þá var tæplega fjögurra ára hafði tekist að ná sér í eldspýtustokk og kveika á eldspýtu (án þess að meiða sig þó – guði sé lof!) og mamma var farinn að skvetta vel í sig. Kvöldið endaði svo með því að mamma var orðin vel „íðí“ og ég ákvað að fara heim eftir að hún hafði hlammað sér niður, með glas í hendi, við hliðina á syni mínum sem var að leika sér og fór að tala við hann á allt annan hátt en hún var vön.
Ekki vilji guðs að hamingja mín sé undir öðrum komin
 
Þetta voru svo sem ekki verstu jól sem ég hef átt en ég hef áttað mig á að ég get gert jólin betri og eins og segir í bókinni okkar, Einn dagur í einu í Al-Anon, „það er ekki vilji guðs að hamingja mín sé undir öðrum komin“. Ég ákvað að biðja æðri mátt um kjark til að breyta því sem ég gæti breytt.
 
Ég hef átt tvö tímabil þar sem ég hef stundað fundi, það fyrra í Al-Anon og seinna í öðrum tólfsporasamtökum. Ég vann aldrei sporin og ég þorði aldrei að horfast í augu við minn þátt í kringumstæðunum. Ég var svo nauðbeygð til að fara aftur að stunda Al-Anon í janúar sl. vegna þess hve illa mér leið í sambandi með virkum alkóhólista. Einhverra hluta vegna ákvað ég í janúar að ,,taka leiðsögn“ og ,,lifa í prógramminu“ – sem betur fer. Kannski var ég bara allt í einu tilbúin, a.m.k. hef ég ekki áður séð líf mitt með þeim augum sem ég sá það í ársbyrjun, smátt og smátt eftir því sem afneitunin ,,lak“ af mér.
 
Þá loks gerði ég mér ljóst að ég var haldin fjölskyldusjúkdómnum alkóhólisma og að nýr kærasti, að eignast barn, vera í góðri vinnu eða eignast íbúð – myndi hvorki fylla mig því sjálfstrausti sem ég sóttist eftir né heldur að sefa sársaukann sem ég fann nánast stöðugt fyrir.
 
Velti mér eins og kótiletta upp úr sjálfsvorkunn
 
Eftir því sem liðið hefur á þessa nýju Al-Anon göngu mína hef ég áttað mig á því að þó svo að ég sé vanmáttug gagnvart öðru fólki, kringumstæðum og hlutum þá get ég haft stjórn á sjálfri mér – og það er akkúrat það eina sem ég á möguleika á að stjórna – ég á mig sjálf og ekkert annað! Þá fór einnig að renna upp fyrir mér ljós að þar sem ég gat stjórnað sjálfri mér þá gat ég stjórnað því hversu lengi ég leyfði mér að vera í hlutverki kótilettunnar, eins og einn Al-Anon félagi í annarri af heimadeildunum mínum segir stundum. Með því á ég við – ég get kannski ekki stjórnað því hvaða tilfinningar gera vart við sig hjá mér en það er á mínu valdi að ákveða hvort ég leyfi þeim að gera sig heimakomnar eður ei.
 
Sum sé, ég ræð því hversu lengi ég velti mér eins og kótiletta upp úr sjálfsvorkunn. Það var akkúrat sjálfsvorkunnin og fórnarlambið eða tilfinningin um að ég hefði ekkert með eigin hamingju að segja, sem var allsráðandi hjá mér á síðasta aðfangadag, að þessum kringumstæðum væri þröngvað upp á mig og að ég þyrfti bara að „lifa kvöldið af“.
Eftir að ég áttaði mig á því í október að ég var farin að kvíða jólunum ákvað ég eftir einn til tvo daga að hætta í kótilettufílingnum og fór að spyrja sjálfa mig hvernig ég myndi vilja hafa jólin. En líkt og dæmigert fullorðið barn alkóhólista hef ég vart hugmynd um hvað ég vil. Svo ég ákvað að spyrja son minn: „Hvernig vilt þú hafa jólin?“. Hann þurfti ekki að hugsa sig um og svaraði: „Skemmtileg“.
 
Byrjaði á útilokunaraðferðinni
 
Ég varð hálf hvumsa á því hve einfalt svarið var. Því næst fór ég að kvíða því að ég gæti ekki gert jólin skemmtileg fyrir son minn. Loks ákvað ég að sleppa tökunum og leyfa guði og viðurkenndi líka að ég gæti ekki tryggt það að sonur minn skemmti sér vel á aðfangadagskvöld né heldur gæti fjögurra ára gamall sonur minn gæti tekið ábyrgðina af mér á minni hamingju. Ég áttaði mig líka á því að þó svo að ég vissi ekki hvernig ég vildi hafa aðfangadagskvöld þá gæti ég byrjað á útilokunaraðferðinni og talið upp þau atriði sem ég vildi ekki. Það tók ekki langan tíma. Það var tvennt sem ég vildi ekki. Í fyrsta lagi vildi ég ekki að mamma mín (né nokkur annar á staðnum) væri drukkin á aðfangadag og í öðru lagi vildi ég ekki að mamma mín og kærasti væru gröm út í hvort annað.
 
Ég hugsaði með mér að ég gæti verið heima hjá mér á aðfangadagskvöld en ekki heima hjá mömmu líkt og ég hef gert undanfarin þrjú jól. Þá gæti ég haft betur stjórn á því að hún væri ekki að drekka þar sem ekkert áfengi fær að koma inn á mitt heimili. Ég gæti bannað henni að koma með áfengi og bannað kærastanum mínum að sækja hana heim til hennar svo hún neyddist til þess að keyra til mín og þá gæti hún nú ekki verið drukkin.
 
Þessi hugsun varð þó ekki langlíf, Al-Anon vinnan hafði „eyðilagt“ fyrir mér svona einfaldar og „þægilegar“ lausnir á hlutunum. Ég áttaði mig á því að ég gæti hvorugu stjórnað, óvild þeirra út í hvort annað og drykkju móður minnar. Ég fann samt, og það er nú líka trúnaðarkonunni minni að þakka, að ég bar ábyrgð á því að segja fólki frá mínum þörfum og löngunum. Við nánari umhugsun fann ég að fyrst og fremst þyrfti ég að aftengja mig gagnvart pirring kærasta míns út í móður mína og öfugt. Þau verða víst að fá að haga sér eins og þau vilja. Eftir stóð að ég þurfti að segja móður minni að ég vilji ekki að hún sé drukkin á aðfangadag. Ég hef aldrei sagt henni að ég telji hana vera alkóhólista. Ég held að ég þurfi ekki að segja henni það enn sem komið er. Hún verður að lifa sínu lífi. Mér nægir til að byrja með a.m.k. að segja henni hvernig mér líður þegar hún er að drekka. Það er líka það eina sem ég ber ábyrgð á, mín líðan – ekki hennar hegðun.
 
Aðeins fyrir náð guðs
 
Ég bað guð um styrk og fann að smám saman varð ég að verða tilbúin til að tala við móður mína. Ég beið eftir að æðri máttur færði mér tækifærið og kringumstæðurnar til að setjast niður með mömmu og tala um jólin. Loks kom tækifærið. Við mamma ákváðum að setjast niður til að ræða um hvaða smákökutegundir við ættum að baka saman fyrir jólin og á eftir ætluðum við að fara í búð til að kaupa í kökurnar.
 
Ég ákvað að færa þetta í tal áður en við legðum af stað í verslunarleiðangurinn. Mér tókst það og ég sagði mömmu að mér hefði þótt vont hvað það hefði verið mikið um áfengi síðasta aðfangadagskvöld. Hún brást vel við og sagðist hafa drukkið vegna þess hve mikil spenna hefði verið. Hún sagði að sér hefði þótt óþolandi að hafa kærasta minn í eldhúsinu sínu. Við þrjú ræddum málið og ákváðum að mamma eldaði aðalréttinn heima hjá sér, kærasti minn sæi um að búa til forréttinn heima hjá okkur og kæmi svo með hann til mömmu, og loks að ég sæi um eftirréttinn og hann myndi ég einnig útbúa heima hjá mér. Svo ákváðum við að hafa gos og ávaxtasafa með matnum og kaffi eftir matinn.
 
Ég var alveg í skýjunum og mamma virtist vera það líka. Ég geri mér þó grein fyrir því að þó svo að ég sé búin að bera ábyrgð á mér og koma fram með mínar langanir varðandi aðfangadagskvöld þá getur vel verið að bæði mamma og kærasti minn verði öskuaugafull og fari að slást. Ég get ekki stjórnað því. En ég get stjórnað því hvort ég sit undir slíku eða hvort ég fer heim eða út í göngutúr. Þegar ég finn fyrir kvíða út af því hvort aðfangadagskvöld verði yndislegt eða hræðilegt, hugsa ég um að ég er búin að gera mitt og núna er það í hendi guð og svo hugsa ég um slagorðið okkar – ,,Aðeins fyrir guðs náð“ eða: ,,But for the grace of god.“
 
– Þakklátur Al-Anon félagi