Að leyfa sér að hafa tilfinningar

Mér fannst oft á fyrstu árum mínum í al-anon að kvart og kvein ætti alls ekki heima í prógramminu og ef að ég fengi löngun til slíks þá væri ég alls ekki í nógu góðum bata.  En svo gerði ég mér ljóst að einn af kostum þess að vera í bata er að gera sér grein fyrir þvi hvað það er að hafa tilfinningar og það að þær eiga rétt á sér.  Með tímanum getur maður svo sorterað þær í sundur og gert sér grein fyrir því hvað er hvað.  T.d. að fatta að ef maður öfundar einhvern, þá  er stærsta sporið að verða meðvitaður og geta látið af þessari hegðun.  Það er nefnilega ekki hægt að hætta að gera eitthvað ef maður er algerlega ómeðvitaður um hvað maður er að gera.
 
Að leyfa sér að hafa tilfinningar og vera opin fyrir öðrum getur verið áhætta, en það að vera mannlegur er ekki nein synd. Ég er ekki að tala um það að fólk eigi að vera í píslarvætti, voli og væli og verja það með því að það séu sjálfsögð mannréttindi að vera þannig.  Ég er að tala um það að vera meðvitaður um tilfinningar sínar. Allir geta orðið reiðir, en það er spurning hvernig maður sýnir reiðina. Fyrir mér er það alveg eins merki um meðvirkni að loka allt inni eins og ég var gjörn á að gera og að sleppa sér og kenna öðrum um. Maður hefur rétt á því að hafa tilfinningar og sýna þær, svo lengi sem þær eru ekki notaðar sem stjórnunartæki á annað fólk. Vanmáttur vegna tilfinninga er oft til staðar en þá er svo dýrmætt að geta lagt þessar blessuðu tilfinningar í hendurnar á æðri mætti, lesa lesefnið og tala við al-anon vini til þess að sleppa tökunum og láta ekki stjórnast af augnablikinu. Okkur líður ekki alltaf vel, kosturinn við það að lifa eftir al-anon leiðinni er að við lærum að  lifa með tilfinningunum og við fáum vonina til að styðjast við. Nú get ég tekið á móti flestum dögum með gleði í hjarta, án ótta og kvíða.