Að láta drauma sína rætast

Mig langar aðeins að deila því  með ykkur hvað þessi bataleið í Al-Anon hefur hjálpað mér óendanlega mikið að fá svo miklu meira út úr lífinu. Fyrir um það bil 3 árum fór ég á minn fyrsta Al-Anon fund og ég fór á þennan fund til að leita lausna. Helst lausn á því hvernig ég ætti að bjarga málum fjölskyldunnar. Mamma og pabbi voru ósátt, ég bjó erlendis og bróðir minn líka og systir mín var eina barnið sem var heima. Ég tók mikla ábyrgð á málum foreldra minna og mætti á þennan fund til að fá leiðbeiningar um það hvernig ég gæti bjargað fjölskyldunni, svo ætlaði ég bara að klæða mig í súpermann búninginn og fljúga heim og redda málunum.

 
Síðan þá hefur margt breyst. Á þessum fyrsta fundi gerði ég mér grein fyrir að það var ekki í mínum verkahring að fljúga heim og redda öllu. Ég fór á nokkra fundi þarna úti en útskrifaði mig svo eftir ca. 5 fundi. Því að mér fannst pabbi minn, sem er alkóhólisti, aldrei hafa verið neitt slæmur, þannig að ég þurfti ekki meira en 5 fundi. Afneitunin var í hámarki. Stuttu seinna flutti ég heim en það tók mig 8 mánuði hér heima, áður en ég fór á fyrsta fundinn minn og ég hef farið síðan reglulega á 2-6 fundi á viku. Þegar ég var búin að sækja fundi í um það bil 2 mánuði, hafði ég loksins kjarkinn til að fá mér trúnaðarmanneskju og demba mér í sporinn. Mér fannst þetta allt saman mjög yfirþyrmandi og erfitt að hringja í manneskju sem ég þekkti ekki neitt og deila mínum tilfinningum með. En í dag, tveimur árum síðar, er ég á sporahring númer tvö.
Það sem mig langar helst að tala um hér er allt sjálfstraustið sem ég hef fengið, traustið, trúna, vonina og kjarkinn. Ég fór smátt og smátt að skilja tilfinningarnar mínar betur og brestina mína. Í fyrsta sporahringnum gróf ég upp draum sem ég hafði átt síðan ég var 7 ára. Ég átti þó aldrei von á að þessi draumur myndi rætast. Því ég hafði ekki útlitið, ég var allt of feimin, þetta var allt of ógnvekjandi, kostaði of mikið, ég myndi bara grenja, missa tökin og ég hafði svo engan veginn hæfileikann né orkuna í þetta. En smátt og smátt, í gegnum þessa vinnu, fór ég að trúa meira og meira á að ég gæti hugsanlega prufað. Ég byrjað smátt. í hvert skipti sem ég steig út fyrir þægindahringinn með hjálp æðri máttar, sporanna og trúnaðarmanneskju þá jókst sjálfstraustið. Ég hef oft orðið skít hrædd og við það að gefast upp en þá hef ég alltaf æðri mátt og svo trúnaðarmanneskju sem minnir mig á hann ef ég gleymi honum. Ég nota óttalistann í 4. sporinu rosalega mikið og spyr sjálfa mig af hverju er ég hrædd? Og við hvað er ég hrædd? Með því að svara þessum spurningum, þá er einhvern veginn eins og óttinn minnki til muna. Einnig hef ég nýtt mér 1. sporið rosalega mikið, vanmátt og stjórnleysi. Ég get ekki stjórnað útkomunni heldur verð ég að treysta, er með rosalega fullkomnunaráráttu.

Í dag er ég komin í draumanámið mitt. Nám í þessum draumi sem ég hef átt síðan ég var 7 ára en aldrei leyft mér að eiga í raun og veru því ég gróf hann í svo djúpa holu.

Það er mér svo oft fjarstæðukennt að ég standi á þessum stað, stundum er eins og ég þurfi að klípa sjálfa mig. Það eru bara tvö ár síðan ég byrjaði í þessari sporavinnu og ég er breytt manneskja sem er að elta drauminn því ég fékk kjark og sjálfstraust til þess. Þegar maður elst upp við mikið ofbeldi hvort sem það er andlegt eða líkamlegt þá verður til mikill sjálfsefi. Ég verð stundum svo hissa á staðnum sem ég er á í dag en jafnframt svo þakklát að ég tárast, því mér finnst ég oft á tíðum standa mig svo miklu betur en mig hefði getað órað fyrir. En ég er líka ekki ein að brjóta alla þessa múra heldur fæ ég hjálparhönd frá mínum æðri mætti. Já í dag get ég klappað sjálfri mér á bakið og verið stolt af sjálfri mér fyrir vinnu mína (það er nýtt). Þakklæti er eitthvað sem ég vissi ekki að væri til áður en ég kom í þessi samtök, en þakklætinu fylgir svo mikið æðruleysi og auðmýkt.

Takk allt fallega fólk fyrir að gefa mér nýtt líf, aðskilnað frá ábyrgð sem ég á ekki og fyrir að hjálpa mér að grafa drauminn minn upp úr þessari myrku holu.

Ást og kærleikur.