Að greina hismið frá kjarnanum

Al-Anon lesefnið:
Þegar ég var beðin að rita grein í þetta blað sagði ég strax já.  Ég hef tamið mér það að segja já við flestu því sem ég hef verið beðin um að gera fyrir Al-Anon samtökin.  Þegar skiladagur nálgaðist fóru samt að renna á mig tvær grímur.  Um hvað átti ég að skrifa?  Reyndar komst ég að því að af nógu var að taka.  Og nú hófust greinarskrif í kollinum hver á fætur annarri en engin á blað nema þessi.
Fyrsta sumarið eftir að ég byrjaði í Al-Anon dvaldi ég úti á landi þar sem ekki voru Al-Anon fundir.  Um veturinn hafði ég sótt fundi tvisvar í viku auk sporafunda og fannst mér aldrei veita af.  Ég kveið því dálítið fundaleysinu.  En ég hafði verið góður nemandi þennan vetur og tók allt mjög bókstaflega sem mér fannst prógrammið segja mér að gera.  Eitt af því sem oft er minnst á er að Al-Anon lesefnið sé eitt mikilvægasta verkfærið sem við getum nýtt okkur til bata.
 
Minnug þess birgði ég mig upp af því fyrir sumarið.  Meðal þess efnis sem ég tók voru bækurnar Forum Favorites I og II ásamt ýmsu öðru svo sem One Day at a Time (O.D.A.T. Einn dagur í einu í Al-Anon) sem hafði reyndar verið fastur liður í dagsprógrammi mínu frá byrjun.  Allir bæklingar sem ég komst yfir fylgdu með í farteski mínu ásamt bókunum Í sjálfheldu með alkóhólista og Al-Anon Twelve Steps and Twelve traditions.
 
Þetta sumar sannreyndi ég þetta með áhrif lesefnisins.  Sérlega nýtti ég mér Forum Favorites og O.D.A.T.  Hver grein og blaðsíða voru á við fund fyrir mig.  Ég naut hverrar greinar í Forum Favorites á margfaldan hátt.  Fyrst í rúminu við lesningu, næst með sjálfri mér í hugleiðslu úti í náttúrunni, ýmist við gróðurrætkun eða berjatínslu.  Oft deildi ég þessari speki með bónda mínum um leið og ég notaði hann sem orðabók varðandi enskuna.  Ég mundi nú ekki sverja fyrir það að ég hafi ekki sérlega valið kafla sem mér fannst hann hefði gott af að heyra.
 
Þetta varð til þess að við tókum á mörgum erfiðum málum sem við þurftum að tala um.  Veturinn áður hafði hann farið í meðferð og við bættist að dóttir okkar hafði átt við andlegan sjúkdóm að glíma.  Við höfðum búið við virkan alkóhólisma í 20 ár – hann sem neytandi og ég sem aðstandandi – svo af nógu var að taka – ekki síst varðandi tjáskiptin.  Sem aukabónus bætti ég enskukunnáttu mína.
 
Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og ég hafi verið upptekin af þessu allan sólarhringinn og oft hugsaði ég með mér:  ,,Um hvað hugsaði ég hér áður fyrr!“  Um haustið hafði ég miklu að deila þegar ég loks komst á Al-Anon fund.  Mér fannst ég alltaf vera að uppgötva eitthvað nýtt í sjálfri mér.
 
Síðan þetta var eru liðin níu ár og enn er mér nauðsyn á að halda mig að lesefninu mínu og ýmislegt nýtt hefur bæst við.  Margar greinarnar í Forum Favorites hef ég lesið aftur og aftur og 9 sinnum O.A.D.T.  Samt finnst mér stundum að ég hafi aldrei séð þessar blaðsíður áður.  Að minnsta kosti sé ég alltaf nýjar og nýjar hliðar á því sem þar stendur og blaðsíðurnar höfða misjafnlega til mín milli ára.  Ég átti stundum uppáhaldsblaðsíður í nokkra mánuði af því að þær fjölluðu einmmitt um það sem ég var að fást við á þeim tíma.  T.d. var 13. júní mér sérlega minnisstæður.  Ég grét reyndar oft yfir þeirri síðu.  Hún fjallar um móður sem hafði orðið ósátt við dóttur sína og hélt að aldrei myndi gróa um heilt.  Mér fannst ég standa að mörgu leyti í sömu sporum í þrjú til fjögur ár.  Ég hafði upplifað mikla höfnun og reiði elstu dóttur minnar.  Hún var ekki minna reið við mig en alkóhólistann.    Ég var mjög óviss um orð mín og hegðan í návist hennar.  Ég hafði sett það sem forgangsverkefni í lífinu að hafa gott trúnaðar- og tjáskiptasamband við börnin mín 3 og maka.  Vegna sjúkdóms hennar var þetta allt mjög viðkvæmt og sárt hvað hana varðaði.  Þessi blaðsíða kenndi mér að bíða.  Það gæti spillt fyrir – leyfa tímanum að vinna með mér.
 
Síðastliðin ár hef ég haft gott samband við börn mín og maka, ekki síst þessa dóttur mína.  Ég er ekki alltaf sammála öllu sem hún tekur sér fyrir hendur og hún heldur ekki alltaf sammála mínum orðum né gerðum.  En við eigum trúnað og traust hvorrar annarrar, virðum skoðanir og ekki hvað síst virðum við hvora aðra sem manneskjur með sjálfstæðan vilja, deilum saman sorg og gleði og látum í ljós væntumþykju.  Hvers meira getur maður óskað sér í sambandi við börnin sín?
 
Al-Anon lesefnið hefur ekki hvað síst kennt mér að greina hismið frá kjarnanum, kennt mér að gleðjast yfir því sem ég hef, t.d. mörgu af því sem ég áleit sjálfsagða hluti áður fyrr og varð bara fýld yfir ef ekki voru í lagi en gleymdi að gleðjast yfir og þakka fyrir þegar ég hafði það.  Lesefnið hefur hjálpa mér til að skilja að það sem fyrir mig kemur er ekki það sem skiptir máli – heldur hvað ég geri við það og hvernig ég vinn úr því.   Lesefnið hefur lætt því að mér að það sé í lagi að skipta um skoðun og að stundum þarf að láta tímann vinna með sér og gott getur verið að fá “lánaða” dómgreind í úrvinnslu ýmissa mála.  Ég held bara að mér sé farið að skiljast að enginn er fullkominn – ekki einu sinni ég!  og það er bara allt í lagi. Mig langar að deila með ykkur reynslu minni af fleira lesefni.  Kannski fæ ég tækifæri til þess seinna.
 
Anna

 

Áður birt í Hlekknum, 2. tbl. 1994