7. erfðavenjan

Reynslusaga:
Sérhver deild ætti að vera algjörlega á eigin framfæri og hafna utanaðkomandi framlögum
Ég sæki fund í heimadeildinni minni og karfan er á miðju borðinu.  Hvaða  upphæð á ég að leggja í körfuna að fundi loknum ? 
Stundum er ég blönk og á ekkert aflögu.  En ég er svo heppin að oftast á ég nóg og hvaða upphæð legg ég þá af mörkum ?  Sumir velta því fyrir sér hvað þeir séu eiginlega að greiða fyrir.  Aðrir fá sér bara glas af vatni.  Það kostar jú ekkert á Íslandi.  En málið snýst um meira en veitingarnar.  Á öllum fundum fæ ég andlega næringu, hlusta á félaga mína deila reynslu sinni, styrk og vonum.  Alltaf tek ég eitthvað með mér heim af fundi sem nýtist mér til að takast á við þau verkefni sem ég er að kljást við hverju sinni.  Þangað sæki ég styrk, fæ knús og uppörvun.  Og þegar mér líður illa, er hvergi betra að gráta. 
Ég hreinlega man ekki hver upphæðin var sem ég setti í pottinn þegar ég var að byrja í samtökunum fyrir hartnær 18 árum.  Enn síður man ég hvað kaffibollinn kostaði í þá daga á kaffihúsi.  Ég man hinsvegar að AA-félagar lögðu gjarnan andvirði sígaretturpakkans í pottinn á sínum fundum.  Í dag finnst mér hins vegar ekkert tiltökumál að setjast inn á kaffihús og greiða þrjú til fjögur hundruð krónur fyrir góðan kaffibolla.   Er nokkuð fráleitt að leggja svipaða upphæð í pottinn á Al-Anon fundinum mínum?  Og hundraðkall að auki til útgáfunnar.  Málið snýst nefnilega um fleira en eingöngu þær veitingar sem ég fæ á fundinum.  Auk þeirra þarf að greiða fyrir húsaleigu deildarinnar.  Það er líka skylda hverrar deildar að leggja eitthvað af mörkum til skrifstofu samtakanna þar sem launaður starfsmaður svarar m.a. fyrirspurnum nýliðanna.  Halda þarf úti vefsíðu samtakanna, prenta lesefni og halda landsþjónusturáðstefnur.  Al-Anon á Íslandi sendir líka framlag til alþjóðaskrifstofu Al-Anon.  Við erum jú hluti af alþjóðlegum samtökum.   
 
Þegar upp er staðið snýst þetta allt um framlagið okkar í deildunum.  Al-Anon samtökin geta ekki sótt um styrki til félaga eða stofnana, þau eru algjörlega háð því að við félagarnir séum ábyrgir.  Látum 500 kallinn vera reglu frekar en undantekningu þegar kemur að því að greiða í pottinn okkar.  Verum ábyrg.
 
Helga