Sjöunda erfðavenjan

Úr How Al-Anon Works….
Um gildi þjónustunnar og virði andlegu næringarinnar sem við hljótum á fundum
 

Sjöunda erfðavenjan

Sérhver deild ætti að vera algjörlega á eigin framfæri og hafna  utanaðkomandi framlögum.

 
Engin þóknun eða gjöld eru greidd fyrir aðild að Al-Anon. En vegna þess að við þiggjum engin utanaðkomandi fjárframlög eru félagar beðnir um að taka þátt í að styðja eigin deild og samtökin í heild með því að láta af hendi rakna það sem við erum aflögufær um.
   Al-Anon leiðin er á eigin framfæri. Rétt eins og við lærum að taka ábyrgð á okkar eigin bata í stað þess að vænta þess að aðrir sjái um vinnuna fyrir okkur, þá er hver deild hvött til þess að taka ábyrgð á eigin velferð. Grundvöllur þess er að deildin sé fjárhagslega sjálfstæð. Jafnvel velviljuðustu tilboð um fjárframlög frá aðilum utan Al-Anon geta haft slæm áhrif á deildirnar okkar. Við getum verið laus undan utanaðkomandi áhrifum með því að sinna  eigin þörfum. Engir duldir hagsmunir eru samtvinnaðir fjármálum okkar. Það gerir deildunum okkar kleift að vera sjálfstæðar og við njótum góðs af því  að sjá að við erum fær um að mæta okkar eigin þörfum.
  
   Hver deild er hvött til þess að veita hluta af fé sínu til þess að styrkja Al-Anon á eigin svæði, á landsvísu og á alþjóðavísu.      Framlög okkar gera þjónustuskrifstofum á hverjum stað kleift að veita þeim upplýsingar sem vilja finna Al-Anon fund á svæðinu okkar og alþjóðaskrifstofu okkar að halda við alþjóðlegri fundaskrá svo að við getum komist í samband við Al-Anon deild hvert sem við ferðumst. Ekki væri unnt að gefa út mánaðarlegt tímarit okkar, The Forum[1], án stuðnings deildanna okkar. Framlög okkar stuðla að því að boðskapur Al-Anon nái til þeirra eru á sjúkrahúsum og í fangelsum og þau styðja við Alateen leiðina.
   Þau gera þýðingar á Al-Anon lesefni á meira en tuttugu tungumál mögulegar, þannig að sú huggun og viska sem felst í Al-Anon aðferðinni berst til milljóna manna um allan heim. Hér er aðeins fátt talið af mörgu því sem fjárframlögin okkar gera mögulegt. Þegar við styrkjum þjónustugeira samtakanna okkar tryggjum við með því að boðskapur Al-Anon standi öllum þeim til boða sem á honum þurfa að halda áfram.
   
En fjárhagslegur stuðningur er aðeins hluti af dæminu. Við styrkjum deildirnar okkar sem einstaklingar með virkri þátttöku. Lesefni Al-Anon er unnið upp úr persónulegri tjáningu félaganna. Þessar frásagnir um reynslu, styrk og vonir hjálpa til þess að halda félagsskapnum okkar saman og næra hann með því að leggja til umræðuefni á fundum og umhugsunarefni á milli funda.
   Deildirnar okkar styrkjast með í hvert skipti sem við mætum á fund og deilum reynslu okkar. Við veitum stuðning okkar þegar við hlustum á félaga í Al-Anon sem þarfnast þess að á þá sé hlustað og þegar við skiptumst á hugmyndum og hvatningarorðum. Deildirnar okkar gætu ekki komist af án Al-Anon þjónustu af þessu tagi. Annars konar þjónustu, eins og að raða upp stólum eða gegna starfi deildarritara, er alveg jafn lífsnauðsynlegar. Al-Anon samtökin halda velli og dafna vegna þátttöku og skuldbindingu félaga sinna.


[1] ‘A Íslandi er það vefritið Hlekkurinn og vefsetur okkar www.al-anon.is