Fólk eins og ég

Forum, desember 2008
Í þrjá daga heyrði ég stöðugt: ,,Farðu í Al-Anon, farðu í Al-Anon, farðu í Al-Anon.” Þessi söngur ómaði stöðugt í höfðinu á mér þegar ég var á fjölskyldunámskeiði þar sem sonur minn var í meðferð. Ráðgjafi leiddi helgarvinnusmiðjuna. Ég hugsaði stöðugt: ,,Hvað er hún að tala um? Ég hef aldrei heyrt um Al-Anon. Hvar er það? Hvernig virkar það? Hvað ætli það kosti? Af hverju þarf ég að fara?”
Ég gerði mér alls ekki grein fyrir því að ég var komin á minn botn. Líf mitt var stjórnlaust og ráðgjafinn hafði gert sér grein fyrir því. Ég hlustaði og ég grét í þrjá daga. Ég spurði: ,,Hvers vegna lýgur hann að mér ef honum þykir vænt um mig?”
Hún svaraði: ,,Farðu í Al-Anon”.
Ég sagði: ,,Ég er svo reið við hann.”
Ráðgjafinn svaraði: ,,Þú þarft á Al-Anon að halda.”
Ég bætti við: ,,Ég gef honum peninga og hann ber enga virðingu fyrir mér.”
Hún sagði: ,,Al-Anon.”
,,Við rífumst alltaf.”
,,Al-Anon.”
,,Ég verð meira að segja að hringja og athuga hvort hann hafi mætt í vinnuna.”
,,Al-Anon.”
,,Ég held stöðugt áfram að segja honum hverja afleiðingarnar verða.”
,,Þú þarft virkilega á Al-Anon að halda.”
,,Ég verð að vaka eftir honum og athuga hvort sé lykt út úr honum þegar hann kemur heim.”
,,Al-Anon.”
,,Ég verð að tryggja að hann opni póstinn sinn.”
,,Al-Anon.”
Að lokinni helginni fór ég heim full gremju en með fullt af lesefni og fundarskrá. Ég fór á einn fund og hitti fólk sem var eins og ég. Ég las lesefni, mætti á fundina og eftir fáeina mánuði bað ég konu í heimadeildinni að vera trúnaðarmaður minn. Hún hjálpaði mér að skilja og lifa Al-Anon bataleiðina. Ég er búin að læra að biðja til og treysta mínum æðri mætti. Ég hef lært að vera þakklát og ég hef lært að elska son minn á ný. Ég á nú marga daga fulla æðruleysis og allt vegna þess að ég fór í Al-Anon og ég held áfram að fara á fundi.

 

Birt með góðfúslegu leyfi The Forum, Al-Anon Family Group Hdqts., Inc., Virginia Beachs, VA.


 

Öll réttindi áskilin! Al-Anon og Alateen félögum er frjálst að prenta út og dreifa efninu innan samtakanna og til félaga. 
Al-Anon samtökin á Íslandi©