Að sleppa tökunum

Aftenging!
Einblöðungurinn S-19
Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur. Flestum er um megn að búa við afleiðingar drykkju annarrar manneskju án þess að leita sér hjálpar. 
Í Al-Anon lærum við að einstaklingar eru ekki ábyrgir fyrir sjúkdómi annarrar manneskju eða bata hennar.  Við látum af þráhyggju vegna hegðunar annarra og hefjum hamingjuríkara og viðráðanlegra líf, líf sem felur í sér reisn og réttindi; líf sem lýtur leiðsögn máttar æðri okkur sjálfum.
 
Í AL-ANON LÆRUM VIÐ:
·           Að þjást ekki vegna gjörða eða viðbragða annarra;
·           Að leyfa okkur ekki að vera notuð eða misnotuð af öðrum í þágu bata annarra;
·           Að gera ekki það fyrir aðra sem þeir geta gert fyrir sig sjálfir;
·           Að hagræða ekki kringumstæðum til að aðrir borði, fari í háttinn, fari á fætur, greiði reikninga, drekki ekki;
·           Að fela ekki mistök annarra eða misgjörðir;
·           Að búa ekki til erfiðleika (krísu);
·           Að fyrirbyggja ekki erfiðleika ef þeir eru eðlileg framvinda mála.
Það að sleppa tökunum felur hvorki í sér góðmennsku né óvild. Það felur heldur ekki í sér dóm eða fordæmingu á manneskjunni eða kringumstæðunum sem við erum að sleppa tökunum á. Það þýðir einungis að við leyfum okkur að skilja okkur frá þeim neikvæðu áhrifum sem alkóhólismi annarrar manneskju getur haft á líf okkar.
Það að sleppa tökunum hjálpar fjölskyldum til að horfa raunsætt og hlutlaust á stöðu sína, og gerir þeim kleift að taka skynsamlegar ákvarðanir.
 
AL-ANON ER
alþjóðasamtök sem bjóða upp á bataleið sem byggir á sjálfshjálp fyrir fjölskyldur og vini alkóhólista hvort sem alkóhólistinn leitar sér hjálpar eður ei, eða viðurkennir yfirleitt að hann/hún eigi við drykkjuvandamál að stríða. Félagar veita og þiggja huggun og skilning með því að deila reynslu sinni, styrk og vonum hver með öðrum. Með því að deila svipuðum vandamálum bindast einstaklingar og deildir böndum sem vernduð eru af nafnleyndinni.
 
AL-ANON ER EKKI
trúarleg samtök eða ráðgjafastofa. Það er ekki meðferðarstöð né er í tengslum við önnur samtök sem bjóða slíka þjónustu. Al-Anon fjölskyldudeildir, þar með taldar Alateen-deildir sem eru fyrir félaga á unglingsaldri, láta hvorki í ljósi skoðun á málefnum utan samtakanna né styðja utanaðkomandi fyrirtæki eða framtak. Engin félagsgjöld eru í Al-Anon. Fólk gerist sjálfviljugt félagar í samtökunum, eina skilyrðið er að líf viðkomandi hafi orðið fyrir neikvæðum áhrifum af drykkjuvandamáli annars.
 
Unnið upp úr AL-ANON SPEAKS OUT, fréttabréfi fyrir fagfólk. Al-Anon Family Group Headquarters, Inc. 1981
Samþykkt af World Service Conference Al-Anon Family Groups
Gefið út af Aðalþjónustuskrifstofu Al-Anon á Íslandi.
 
S-19