9. Mars- Traust

Courage to Change (Kjarkur til að breyta):
Ég berst oft við að finna út hver minn vilji er og hver Guðs vilji er. Ég finn æðruleysið hverfa mér á meðan styrjöld geisar í huga mér og háværar raddir skipa mér að fara þessa leið eða hina leiðina. 
Efi er óumflýjanlegur fylgifiskur leitarinnar að andlegri hjálp. Ég hef ekki leiðarvísi svo að ég verð að halda áfram að skoða og skora skynjun mína á hólm. Ég veit að þegar ég finn örvæntingarfulla hvöt til þess að framkvæma, þá er það yfirleitt minn vilji sem er að reyna að fá sínu framgegnt, og þegar ég finn rólega fullvissu, þá er það yfirleitt vilji Guðs.
En oftast hef ég ekki svo skýrar vísbendingar. Hvað þá? Stundum bíð ég þess að það rofi til eða reyni að hlusta betur eftir leiðsögn; ég get deilt ráðvillu minni með einhverjum og fengið dómgreind annarra að láni; eða ég get bara valið og séð hvað verða vill. Meira mun koma í ljós þegar tíminn er réttur, hvert svo sem val mitt er. Þar sem ég hef falið Guði líf mitt og vilja, verður val mitt, hvert svo sem það er, notað til þess að framkvæma vilja Hans.
 
Til umhugsunar í dag:
Í dag ætla ég að muna að óvissa er ekki annmarki heldur tækifæri. Allt sem ég geri og allt það sem á vegi mínum verður – fólk, kringumstæður, hugmyndir – allt þetta felur í sér tækifæri til að stuðla að þroska mínum og skilningi. Bara í dag, þarf ég ekki að vita hvert þetta framlag er.
 
„Það er meiri trú í heiðarlegum efa en í helming trúarsetninga,“
Alfred, Lord Tennyson.
 
 
-Courage to Change: one day at a time in Al-Anon II/Al-Anon Family Groups, Inc.
Þýð: KS