11. Maí- Einmanaleiki

Courage to Change:
Ég ver meiri tíma með sjálfum/sjálfri mér heldur en með nokkrum öðrum. Er ekki skynsamlegt að verja dálítilli orku í að gera þetta samband eins ánægjulegt og mögulegt er?
Önnur manneskja getur ekki komið í veg fyrir að ég verði einmana, en það er unnt að fullnægja innri tómleika mínum. Ég get lært að meta eigin félagsskap. Ég er mikilsverður félagi. Ein af þeim ranghugmyndum sem mörg okkar, sem hafa orðið fyrir áhrifum af alkóhólisma annars, eigum sameiginlega er sú að einungis önnur manneskja, yfirleitt alkóhólistinn, geti fyllt tómið innra með okkur. Ef hann væri bara umhyggjusamari, ef hún yrði bara edrú, ef þau væru hjá mér núna, þá væri ég ekki einmana.
 
En mörg okkar eru jafneinmana þó svo að þessar kröfur séu uppfylltar.
 
Í dag, þegar ég er ein(n) með sjálfri/sjálfum mér, veit ég að ég er í góðum félagsskap. Þegar ég hætti að búast við því að aðrir mæti öllum mínum þörfum finn ég nýjar og spennandi leiðir til að njóta minna eigin vináttu. Og þegar ég verð einmana, hef ég huggun og stuðning æðri máttar sem aldrei yfirgefur mig.
 
Til umhugsunar í dag:
Í dag ætla ég að verja dálitlum tíma í að kanna nánansta mannlega samband sem ég mun nokkru sinni öðlast – samband mitt við sjálfa(n) mig.
 
„En hve dásamlega óvænt það er að uppgötva hversu ó-einmanalegt það er að vera ein.“
– Ellen Burstyn
 
-Courage to Change: One Day at a Time in Al-Anon II/Al-Anon Family Groups, Inc.
Þýð: KS