Reykjavík, 20. september 2014
Til allra deilda og landsþjónustufulltrúa
Á fundi aðalþjónustunefndar sem haldinn var 13. september 2014 var ákveðið að fresta Landsþjónusturáðstefnu Al-Anon á Íslandi þar til í febrúar á næsta ári, en ráðstefnuna átti að halda í október í ár. Er það m.a. gert í ljósi þeirrar fjárhagsstöðu sem er hjá samtökunum.
Engar tillögur bárust frá svæðisfundum fyrir ráðstefnuna sem fyrirhuguð var í haust og ekki náðist að skipa fullan fjölda fulltrúa frá svæðunum á ráðstefnuna. Aðalþjónustunefnd tók því líka ákvörðun um að lengja frest svæða til að skila inn fyrirspurnum og tillögum til ráðstefnunnar til 15. desember 2014. Þetta gerir svæðunum kleyft að nota svæðisfundina í haust til að kynna Landsþjónusturáðstefnuna fyrir félögum og kjósa fullan fjölda fulltrúa á ráðstefnuna ef það var ekki gert á svæðisfundunum í vor.
Vinsamlega munið að senda fundargerðir svæðisfunda í haust á skrifstofu samtakanna (al-anon@al-anon.is) og einnig nöfn, heimilisföng og netföng allra kjörinna ráðstefnufulltrúa. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar fyrir ráðstefnu-nefnd svo hún geti komið gögnum til allra fulltrúa.
Til upplýsinga: Tilgangur Landsþjónusturáðstefnunnar er að styrkja Al-Anon starfið í landinu. Ráðstefnan er aðalfundur nefnda Al-Anon þar sem þær greina frá starfinu á undangengnu ári í landsþjónustu Al-Anon. Svæðin þrjú leggja til kjörna fulltrúa sem greina frá starfi svæðanna og hafa atkvæðisrétt á ráðstefnunni. Ráðstefnan er stefnumiðandi fyrir samtökin og hefur að leiðarljósi tólf erfðavenjur og tólf þjónustuhugtök Al-Anon. Vakin er athygli á að einungis kjörnir landsþjónustufulltrúar, aðalþjónustunefnd, framkvæmdanefnd og ráðstefnunefnd hafa rétt til þátttöku á ráðstefnunni. Einnig er vakin athygli á að fyrirhugað er að halda vinnusmiðju í tengslum við næstu ráðstefnu þar sem allir félagar geta komið og tengst betur því starfi sem fram fer í landsþjónustu samtakanna.
Með þakklæti og Al-Anon kveðju
Ráðstefnunefndin
Ráðstefnunefndin