Al-Anon, haldreipið í lífi mínu

Íslensk reynslusaga
Áður en ég áttaði mig á því hvaða áhrif alkóhólistarnir í lífi mínu
höfðu á mig kunni ég engin ráð til að bæta líðan mína og ná jafnvægi.
Ég sveiflaðist bara eins og pendúll í klukku, á milli þess að vera að
rifna úr hamingju í það að engjast af sársauka í sálinni.
Endurteknar uppákomur gera mann sífellt brothættari og auðsærðari.
Lífsgleðin minnkar með hverjum „túr“ hvort sem hann er í edrúmennsku
eða fylleríi. Alkinn kemst upp á lag með að stjórna líðan allrar
fjölskyldunnar með markvissum aðgerðum, viljandi og óviljandi. Hann
hefur alltaf flöskuna til að halla sér að ef aðstæður eru honum of
erfiðar. Ef einhver er ekki eins og hann á að vera er tilefni til að
fá sér í glas. Ef einhver hefur staðið sig vel er tilefni til að fá
sér í glas. Ef alkinn missir vinnuna er tilefni til að fá sér í glas.
Ef hann fær stöðuhækkun er tilefni til að fá sér í glas. Svona mætti
lengi telja. Við hin sem ekki höfum flöskuna til að halda okkur í
sveiflumst bara eins og sjómenn sem standa á þilfarinu í stórsjó og
hafa ekkert til að halda sér í. Alkinn er skipstjórinn og fær einn að
halda sér í siglutréð á meðan hinir rúlla fram og til baka um
þilfarið.

Svona rúllaði ég fram og til baka án þess að finna mér nokkuð
haldreipi í 20 ár. Þegar ég var næstum hætt að tolla um borð kom
lausnin til mín. Lausnina fann ég í Al-Anon. Núna held ég traustataki
í Al-Anon og fundina mína. Ég held í sponsorinn og sporin mín. Ég held
í minn æðri mátt og bænina. Ég held mér í allt það sem enginn getur
tekið frá mér. Það hefur enginn rétt eða mátt til að fjarlægja mitt
haldreipi.

Mér finnst ég hafa öðlast nýjan tilgang. Kjark sem ég vissi ekki að ég
ætti og vilja sem ég hélt að væri ekki til.
Nú finnst mér ég fær í flestan sjó.