Pabbi var yfirleitt drukkinn. Hann var mjög ofbeldisfullur, líkamlega og andlega. Mamma drakk ekki mikið en tók pirringinn út á mér.
Ég var alltaf að koma mér í vandræði. Reglurnar á heimilinu breyttust daglega, stundum oft á dag. Og þess vegna var í sífellt í einhverjum vandræðum. Mamma lamdi mig en svo fékk ég heldur betur að finna fyrir því frá pabba.
Mjög ungur lærðist mér að ég væri heimskur, ómerkilegur og ábyrgur fyrir öllu og öllum. Það var ætlast til þess að ég gerði það sem ég væri beðinn um án þess að spyrja spurninga. Mér var ekki óhætt að tjá tilfinningar mínar. Ef ég gleymdi einhverju af þessu myndi ég ekki lifa af. Pabbi reyndi að drepa mig nokkrum sinnum.
Ég lifði barnæskuna af og það sem ég kunni fylgdi mér yfir á fullorðinsárin. Ég valdi mér vini og kærustur sem umgengust mig á sama hátt og ég var alinn upp við. Það var fyrir mér eðlilegt. Það þarf ekkert að ræða það frekar, en ekkert af þessum samböndum entust og ég kenndi sjálfum mér um það.
Eftir 20 ára sambúð batt ég enda á sambandið við kærustuna. Líf okkar var gott til að byrja með. En svo varð þetta smám saman verra og verra. Hún hótaði að skjóta mig nokkrum sinnum. Að lokum fékk ég kjark til að segja henni að ég vildi slíta þessu.
Ég var orðinn einn en líf mitt var samt slæmt. Ég hafði svo margt á samviskunni að ég vildi ekki lifa lengur. Ég var við það að fremja sjálfsmorð þegar ég mundi eftir einhverju sem ég hafði heyrt um Al-Anon og hvernig samtökin gætu hjálpað. Ég hugsaði með mér að ég gæti svosem hringt og séð hvað þau segðu. Ef mér líkaði það ekki gæti ég alltaf snúið við og klárað verkið.
Ég fór aftur inn í húsið, fann símanúmerið og hringdi. Ég fékk símsvara, einhver myndi hringja í mig til baka eins fljótt og auðið væri.
Ég beið í tíu daga. Ég fór ekki út í skýlið mitt því ég hræddist það sem ég myndi gera. Reipið hékk þar ennþá, tilbúið til notkunar.
Að lokum kom símtalið. Sá sem hringdi sagði mér að það væri fundur þetta kvöld og mér væri velkomið að fá far. Ég ákvað að þiggja boðið. Ég sat bara þarna á fundinum, dauðhræddur. Ég hlustaði á félaga eftir félaga segja frá mínum fjölskylduleyndarmálum. Ég vissi ekki hvernig þau þekktu þau, en þau gerðu það. Ég vissi að þarna átti ég heima og hélt áfram að koma. Ég sagði ekki orð, í sex mánuði sat ég bara þarna. Ég hreinlega skildi ekki hvernig þau þekktu leyndarmálin mín, en mér leið betur að vita að ég var ekki lengur einn. Öðru fólki leið svipað og mér. Að lokum byrjaði ég að tala smávegis. Bataleiðin var farin að virka hjá mér.
Ég byrjaði að fá áhuga á deildinni minni, aðstoðaði við að raða upp, laga kaffið, leiða fundi og svona. Ég þurfti meira svo ég fór að sækja aðra fundi og varð virkur. Svæðið langaði að koma á fót Alateen deild og því vantaði trúnaðarfólk til starfa. Ég vissi strax að það langaði mig að gera. Ég skildi hvað það hefði haft að segja fyrir mig ef ég hefði fengið hjálp sem unglingur. Svo ég gerðist Alateen trúnaðarmaður.
Nokkrum mánuðum seinna falaðist deildin mín eftir því að ég gerðist deildarfulltrúi. Ég var nú ekki viss um að ég væri nógu góður til að taka slíkt starf að mér, en félagarnir fullvissuðu mig um að ég væri rétti maðurinn og að þau myndi hjálpa mér. Ég ákvað að slá til og fór að sækja svæðisfundi og sat mína fyrstu ráðstefnu. Þetta var bara æðislegt.
Á minni annarri ráðstefnu var auglýst starf ritstjóra fréttablaðsins. Fyrir hvatningu frá mínum æðri mætti og nokkrum frábærum Al-Anon félögum, ákvað ég að taka starfið að mér.
Lífið hefur ekki verið dans á rósum síðan ég kom í Al-Anon, en ég myndi aldrei vilja skipta því út fyrir það líf sem ég lifði áður fyrr. Ég á minn æðri mátt sem elskar og leiðir mig áfram, sanna vini sem þykir vænt um mig og yndislega bataleið. Í dag á ég innri frið, æðruleysi og er heill á geði. Hvað get ég beðið um meir ?
Mervin Y., Saskatshewan
Forum – júní 2008