Þátttaka er lykillinn að jafnvægi

Fjórða þjónustuhugtakið:
– erindi og umræður á ráðstefnunni 2001
Eftirfarandi erindi var flutt á landsþjónusturáðstefnu Al-Anon á síðasta ári:
 
Reynslusporin tólf og erfðavenjurnar leiðbeina einstaklingnum til þroska og hópum til einingu. Þjónustuhugtökin eru leiðbeiningar um þjónustu, þ.e. hvernig við getum skipulagt samtök, þannig að þar séu engir stjórnendur, og að grundvöllur Al-Anon, þ.e. deildin sjálf, sé án skipulags. Þau lýsa því hvernig hægt er að sinna tólftaspors vinnu á sem víðtækastan hátt. Þau sýna einnig hvernig félagar á Alþjóðaþjónustuskrifstofu Al-Anon geta fyrir tilstilli Alþjóðaráðstefnunnar tengst innbyrðis og við hópa í þeim tilgangi að bera boðskap Al-Anon um víða veröld.
 
Fjórða þjónustuhugtakið er:  Þátttaka er lykillinn að jafnvægi.  Lois, stofnandi Al-Anon, sagði:  ,,Allir geta byrjað á einhverju en það þarf marga til að halda hlutunum gangandi.”  Þetta er megininntak fjórða hugtaksins.
 
Flestum fyrirtækjum er stjórnað ofan frá – hátt settir stjórnendur hafa völdin. Alþjóðaþjónustu Al-Anon er stjórnað með lýðræðislegu aðferðinni þar sem hverjum hóp í alþjóðaþjónustunni er frjálst að greiða atkvæði í samræmi við ábyrgð þeirra. Hver og einn á þátt í uppbyggingu þjónustunnar – allir eru mikilvægir.
 
Þátttaka er lykillinn að jafnvægi innan Al-Anon. Hún fullnægir líka andlegri þörf okkar til að tilheyra félagsskapnum. Al-Anon hugmyndin um samvinnu getur aldrei leitt til þess að litið sé á nokkurn félaga sem annars flokks. Þetta hugtak er grunnurinn að landsþjónustu og er grundvallaratriði í lífinu sjálfu.           
 
Það er sagt að ef við eigum þátt í ákvarðanatöku þá finnst okkur að við tilheyrum frekar félagsskapnum og að við séum einhvers virði þar sem við lögðum eitthvað fram í málinu. Ákvarðanataka okkar tengir okkur því frekar við félagsskapinn.
Þessi regla um þátttöku tryggir að ein deild nær ekki valdi yfir annarri. Hver deild virðir skoðanir hinna. Þessi sama virðing kemur einnig í ljós á Alþjóðaþjónusturáðstefnunni þar sem hlustað er kurteislega og tekið tillit til hugmynda, tillagna og meðmæla ráðstefnufulltrúa, stjórnarmanna og starfsmanna WSO. Það sama á við allstaðar í félagsskapnum, í hvert sinn sem atkvæði deildarsamvisku eru greidd – innlegg allra er nauðsynlegt.
 
Allir eiga rétt á þátttöku, bæði á heimilum okkar og í þjónustugeira Al-Anon. Við eigum rétt á að vita að okkar þáttur er mikilvægur, svo lengi sem við sýnum öðrum sömu virðingu. Við getum unnið saman á jafnréttisgrundvelli fullviss um að endanlegt vald í lífi okkar er Guð eins og við skiljum hann.  Notkun á þjónustuhugtökunum getur hjálpað okkur að ná ákvörðun sem við getum öll sætt okkur við.
 
Deildir okkar njóta góðs af samvinnu. Í hvert sinn sem Al-Anon fundur er haldinn, um leið og dyrnar eru opnaðar, ljósin kveikt, kaffivélin sett í gang, stólum raðað og lesefni raðað upp. Fundarstjórinn byrjar fundinn á venjulegan hátt, spyr ritarann, gjaldkerann og deildarfulltrúann hvort það séu einhverjar tilkynningar sem þarf að koma á framfæri. Dagskrárstjórinn velur umræðuefni fyrir fundinn og félagarnir taka að deila reynslu sinni. Það þarf fólk til að sinna þessari þjónustu – öll er hún nauðsynleg. Ef einn þáttinn í þjónustuna vantaði, mundum við örugglega sakna hans. En samt mynda þeir fullkomna heild innan deildarinnar og tilfinninguna fyrir að tilheyra frá upphafi til enda.
 
Í samspili hljómsveitar spilar hvert hljóðfæri sitt viðeigandi hlutverk. Hornin mega ekki drekkja tónum fiðlanna, trommurnar mega ekki yfirgnæfa flautuna. Í uppbyggingu þjónustu Al-Anon leggur hver félagi og hver deild fram nauðsynlegan tón í heildarsamspilið.  Samhljómurinn í lagi hljómsveitarinnar er að ná því markmiði að skemmta áheyrandanum, eins er það í Al-Anon að markmiðið er að jafnvægi sé í þjónustu og að allir séu jafnir og stefni að sama markmiði þ.e. að láta sér líða betur.
Allir félagar taka þátt í samstarfinu, enginn er álitinn annars flokks, það eru engir hærra settir en aðrir, enginn hópur hefur endanlegt vald yfir öðrum.
 
Þegar við tökum þátt í athöfn og hvetjum aðra til þess sama þá verðum við að muna að fara eftir gullnu reglunni að koma fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur þ.e. af virðingu.  Það eru tvær hliðar á þátttöku –  að gefa af okkur sjálfum og gefa til annarra.  Við segjum álit okkar og gefum af tíma okkur þ.e. við verðum þátttakendur.  Þegar okkur verður ljóst að okkur er treyst til að taka þátt í þjónustu Al-Anon með vinnuframlagi og í ákvarðanatöku þá finnst okkur mikilvægt að taka þátt.  Lærdómurinn og reynslan er líka ómetanleg, þ.e. að fá að taka þátt og deila skoðunum sínum með öðrum og hlusta á reynslu og skoðanir annarra.
 
Áður en við kynntumst Al-Anon vorum við oft einmana. Tilfinning einangrunnar er stór þáttur í sjúkdómnum alkahólisma. Ef til vill tókum við að okkur mest af ábyrgðinni heima hjá okkur til þess að ná stjórn á aðstæðum.
 
Þegar við sáum hvernig Al-Anon deildum okkar var stjórnað hvatti það okkur til að flytja þessa aðferð, þar sem allir taka þátt, inn á heimili okkar. Við byrjuðum á því að deila ábyrgðinni með öðrum í fjölskyldunni – þeir höfðu eitthvað að segja um sitt hlutverk innan fjölskyldunnar. Þetta varð til þess að þeim fannst þeir tilheyra. Það stuðlaði einnig að jafnvægi innan fjölskyldunnar þegar hver og einn varð mikilvægur partur af heildinni.
 
Ég er mikil hópmanneskja. Það að taka þátt og eiga þátt í ákvörðun hvetur mig til að vinna vel.  Eflaust er hvatinn að fá hrós fyrir, eða leita eftir viðurkenningu hjá öðrum og staðfestingu á að ég sé sé einhvers virði.  Að gefa er betra en að þiggja stendur einhvers staðar, en það er líka gott að taka þátt og kemur jafnvægi á  egóið.
 
Ég þurfti að taka mig á í því að leyfa öðrum að taka þátt í ,,mínum” verkum.  Í gegnum tíðina hef ég þó lært í Al-Anon að betra er að fleiri taki á sig ábyrgð heldur en að ein persóna geri allt.  Því ein manneskja getur ekki staðið undir öllum verkum í hóp, því þá endar allt í mikilli einstefnu og jafnvel með útbrunninni manneskju.  Ég ákvað t.d. að á mínu heimili að ,,leyfa” manninum mínum að þvo og brjóta saman þvott eins og hann vill, því hann myndi ekki brjóta saman þvottinn og ganga frá honum ef mínar forsendur giltu.  Það verður að leyfa hverjum og einum að hafa sína sérvisku og bera ábyrgð á gjörðum sínum.
Gæta þarf þess að leyfa öðrum að taka þátt og muna að það eru ótal aðferðir til að gera hlutina.
 
(Upplýsingar m.a. fengnar úr bókinni ,,Paths to Recovery: Al-Anon´s Steps, Traditions, and Concepts” 1997, auk þýðingar á bæklingnum ,,Why the Concepts” drög 1989,  Hlekknum, 1 tbl. 1991 5. árgangur (Forum apríl 1991 bls 26), Forum apríl 1982, bls 21, Donna D, Huntingtom Beach CA, 5 og texta frá Landsþjónusturáðstefnu Al-Anon 1994 um þjónustuhugtökin.)
 
Hópavinna var unnin eftir flutning erindisins og ráðstefnufulltrúar skiptu sér í fjóra hópa, ræddu fjórða þjónustuhugtakið og svöruðu eftirfarandi fjórum spurningum:
 
1.         Hverju tek ég þátt í?
2.         Hvað gerir þátttaka fyrir mig?
3.         Hverju hef ég skilað til annarra með þátttöku minni?
4.         Hvað geri ég til að vera þátttakandi?
 
Svörin voru eftirfarandi í samantekt í skýrslu ráðstefnunnar:
 
Hópur eitt:
 
1. Flest allir byrja í kaffiþjónustu og síðan koma önnur störf innan Al-anon, til að mynda hafa margir í hópnum verið með kynningar á Vogi. Einn félagi talaði um að þegar hann hætti að taka þátt í þjónustunni datt hann út og hætti að mæta á fundi.
2. Talað var um hvað mikilvægt er að tilheyra heildinni. Þátttaka kenndi  okkur að taka þátt í lífinu, kenndi mikilvægi þess að gefa af sér, hlusta og tilheyra heildinni. Þátttaka jók sjálfstraustið við lærðum að bera ábyrgð á eigin bata, tjá okkur og gefa af okkur.  Það er þó mikilvægt að taka eitt verkefni að sér í einu, ekki hlaða á sig verkefnum.  Finnum hvernig þátttaka er áskorun.
3. Gott að deila til annarra og skila til nýliða von um betra líf. Öll þátttaka innan samtaka inn á fundum og utanþeirra, hjálpar samtökunum að vera til og deildum að vera til.
4. Við erum  til staðar og tökum þátt í fundum, kaffiþjónustu, svæðisstarfi. Erum hér.
 
Hópur tvö:
 
1. Mikilvægast er að mæta á fundi.  Þau embætti sem við tökum að okkur innan samtakanna fylgja manni áfram þrátt fyrir að við látum af þeim. Það er alltaf leitað aftur til okkar og við  erum því  alltaf þátttakendur. 
2. ,,Þátttaka heldur manni edrú í hausnum og er andlegt vítamín” setning sem kom frá einni í hópnum.  Það færist yfir mann hugarró. Sú virðing sem við sýnum öðrum skilar sér til baka til okkar. Finnum hvað þátttakan er mikilvæg þegar við sleppum fundum þá sér maður hvað fundirnir eru mikilvægir.
3. Þeir sem eru í þjónustu smita frá sér, fá aðra í lið með sér.  Þetta þarf að gera á jákvæðan hátt og varast skal að biðja ekki alltaf sama fólkið að leiða fundi.  Finnum að um leið og við gefum af okkur fáum við mikið frá öðrum.  ,,Við nærumst til að mynda á nýliðunum” sagði ein í hópnum . Þátttakan hjálpar okkur að hugsa um eitthvað annað en vandamál.
4. Skiptir mestu máli að mæta á fundi.  Það er einnig mikilvægt að tjá sig á fundum og taka þátt í þjónustu.  En um leið þurfum við að kunna segja nei og taka ekki of mikið að okkur.
 
Hópur þrjú:
 
1. Allir í hópnum höfðu tekið virkan þátt í þjónustu innan Al-anon. Í umræðum kom fram að mikilvægt sé að einangra ekki embætti og hleypa öðrum að.  Það er mikilvægt að hafa byrjendafundi en þar gefum við og þiggjum frá nýliðum.
2. Hvað gerir þátttaka ekki fyrir okkur?  Það er  fljótlegra að svara spurningunni þannig. Al-Anon er fyrst og fremst mannræktarstarf. Teljum mikilvægt að deildarfulltrúar virki  almenna fulltrúa með því að bjóða þeim að taka þátt í svæðisfundum.
3. Von og trú.
 
Hópur fjögur:
 
1. Alllir töluðu um nauðsyn þess að vera þátttakandi, að tilheyra. Verðum víðsýnni með því að fara á fundi.
2. Þátttaka gerir okkur sterkari, eykur sjálfstraust og eigum auðveldara með að tjá okkur.  Það er gott að tilheyra.  
3. Þátttaka í Al-anon skilar sér heim.  Við breytumst og það skilar sér til annarra. Gefum nýliðum af okkur.