Erindi flutt á alþjóðaþjónustufundi Al-Anon:
Kæru félagar í Al-Anon.
Gildi Internetsins og heimasíðu Al-Anon á Íslandi er afar mikið fyrir samtökin í okkar fámenna, en dreifbýla landi. Íbúafjöldi á Íslandi er aðeins tæp 300 þúsund en notkun Netsins í landinu er mjög almenn. Læsi og menntunarstig er hátt í landinu og um 78% þjóðarinnar hafa aðgang að Netinu á heimili sínu, í vinnu eða skóla. Þar að auki bjóða langflest almenningsbókasöfn upp á aðgang að Netinu.
Haustið 1999, nokkrum mánuðum eftir að ég hóf störf á skrifstofu Al-Anon á Íslandi, færði ég þá hugmynd í tal við aðalþjónustunefnd, að við myndum netvæða skrifstofuna til þess að auka aðgengi fólks að upplýsingum um Al-Anon. Margir félagar höfðu óskað eftir auðveldara aðgengi að lesefni og almennum upplýsingum, vegna þess hve opnunartími skrifstofunnar er skammur. Vegna smæðar okkar og fjárskorts er skrifstofan aðeins opin í þrjá tíma fjóra daga í viku, enda er hún rekin af einungis 33 deildum sem telja á að giska 500 félaga. Íslendingar, sem flestir eru útivinnandi, voru þá þegar orðnir mjög vanir því að nýta sér Netið í samskiptum og upplýsingamiðlun, og spara sér þannig tíma og fyrirhöfn.
Á 27 ára afmæli Al-Anon á Íslandi í nóvember 1999 var fyrsta heimasíðan okkar komin á Netið, með grunnupplýsingum um samtökin, tilgang þeirra, lista yfir lesefni og fundarskrá. Í fyrstu vorum við með undirlén hjá Símanum Internet, en snemma árs 2001 fengum við okkar eigið lén, al-anon.is og netfangið al-anon at al-anon.is. Ég sótti síðan námskeið í vefsíðugerð og lærði heimasíðugerð. Með þá kunnáttu að vopni uppfærði ég síðan heimasíðuna okkar og hafði heimasíðu Al-Anon í Bandaríkjunum (WSO) til hliðsjónar við vinnuna, og í apríl hófum við útgáfu mánaðarlega tímaritsins okkar, Hlekksins, á heimasíðunni.
Þetta tímarit með reynslusögum íslenskra Al-Anon félaga og þýðingum úr The Forum var gefið út í prentuðu formi árin 1987 til 1998. Útgáfan hafði þó átt mjög erfitt uppdráttar seinni árin, vegna vaxandi kostnaðar og erfiðleika við að fá sjálfboðaliða til vinnu við skriftir, innslátt, prentun og dreifingu. Okkur virðist raunar að þeir tímar séu liðnir að hægt sé að fá fólk til slíkrar vinnu án endurgjalds og því spratt upp sú hugmynd að nýta Internetið til að halda útgáfu tímaritsins áfram.
Fáum mánuðum eftir að heimasíðan og Hlekkurinn hófu göngu sína höfðum við spurnir af sögu ungs manns, sem er kvæntur alkóhólista. Hann kom á fund í lítilli deild og sagði frá því að hann hefði kynnst Al-Anon í gegnum Netið. Hann sagðist hafa lesið vefsíðuna, og nánast allt sem birst hafði í Hlekknum og við þennan lestur hafði hann sannfærst um að hann ætti heima í Al-Anon og fengið kjark til þess að mæta á fund. Meirihluti Al-Anon félaga á Íslandi er konur og því þótti okkur mikils vert að heyra þessa sögu frá karlmanni. Þessi saga gaf okkur byr undir báða vængi og var okkur mikilvæg hvatning til að halda áfram á þessari braut.
Reynsla þessa manns segir okkur að við getum með Netinu náð til stærri hóps en áður og breiðari, bæði karla og kvenna, jafnt í þéttbýli höfuðborgarsvæðisins þar sem um 80% Íslendinga búa, sem dreifbýlisins allt í kringum stóru eyjuna okkar. Netið veitir fólki möguleika á að meta það í einrúmi hvort það á erindi á fund í Al-Anon, fólki sem gæti veist erfitt að horfast í augu við aðra og viðurkenna að það eigi við vandamál að stríða. Þessi möguleiki er mikilvægur, sérstaklega í litlu samfélögum eins og þeim sem eru í bæjum á Íslandi. Í slíkum örsamfélögum dugir að kaupa bók um alkóhólisma í bókabúðinni til þess að viðkomandi fái áhyggjur af því að hann hafi dæmt fjölskyldu sína og sjálfan sig, og gefið tilefni til slúðurs.
Kostnaður við rekstur heimasíðunnar og Hlekksins er hverfandi miðað við það gagn sem samtökin hafa af Netinu. Það er ekki síður mikilvægt að hver sem er getur haft samband við skrifstofuna hvenær sem er; við höfum fengið tölvuskeyti hvaðanæva að sem skrifuð eru á öllum tíma sólarhringsins. Fyrir stuttu barst skrifstofunni til að mynda tölvupóstur frá ráðvilltri konu og skrifaði eftir frekari upplýsingum á þessa leið:
,,Ég veit eiginlega ekki hvað ég er að biðja um með þessu bréfi, kannski einhverja hjálp, kannski einhvern félagsskap frá einhverjum sem skilur mig eða bara bæði. Ég bý út á landi þar sem engir fundir eru haldnir fyrir aðstandendur og því get ég ekki fengið hjálp hér. Hvað get ég gert???? NN.”
Henni var ráðlagt að reyna að komast á fundi í nágrannabyggðarlögum og hún hvött til að lesa í Al-Anon lesefninu en unnt er að panta lesefnið gegnum tölvupóst á skrifstofunni sem staðsett er í Reykjavík. Þá var henni einnig bent á að hún gæti auglýst eftir pennavinum í Al-Anon á Hlekknum á Netinu. En þetta er einmitt eitt af hlutverkum Hlekksins, að vera fréttabréf fyrir Al-Anon félaga á Íslandi. Þangað eru gjarnan settar tilkynningar um nýjar deildir, afmælisfundi, breytta fundartíma og staði og fleira.
Þegar netútgáfa Hlekksins hófst endurskipulögðum við ritnefndarina okkar, þannig að í stað þess að skipa nefndinni fimm fulltrúa, þá sendi ritnefndarformaðurinn okkar bréf til allra deildarfulltrúa og óskaði eftir einum tengli við Hlekkinn í hverri einustu deild. Aðalþjónustunefndin samþykkti tillögu formannsins um að hlutverk hvers tengils fælist í eftirfarandi:
1. Að hvetja félaga í sinni deild reglulega til að skrifa og senda reynslusögur í Hlekkinn með því að tala um það á fundum og minna þar á netfangið og vefslóðina, 12. sporið og gildi þess að deila reynslu sinni á þennan hátt.
2. Að koma áleiðis til félaga upplýsingum um nýtt efni á Netinu.
3. Að prenta út 1-2 eintök af heimasíðunni og leggja fram í sinni deild í möppu þannig að þeir sem ekki hafa aðgang að Netinu geti lesið síðuna þegar þeir sækja fundi.
4. Að ljá þeim félögum ,,tæknilega aðstoð“ sem vilja deila reynslu sinni en hafa ekki aðgang eða kunnáttu til að nota tölvutæknina, þ.e.a.s. skrifa upp fyrir þá texta á tölvu og koma til ritnefndarformanns.
Strax varð ljóst af viðbrögðum deildanna að Hlekkurinn á Netinu var sérstaklega kærkominn á landsbyggðinni, og þaðan komu fljótt fyrstu tenglarnir. Í fámennum deildum var vel þegið að fá lesefni á íslensku, sem hægt var að nota sem þema á fundum. Einn stærsti vandi Al-Anon á Íslandi hefur einmitt verið sá að hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess gefa út samþykkta lesefnið (CAL) á móðurmáli okkar, íslensku. Þótt þörfin sé mikil er markhópur okkar svo smár að sala stendur ekki undir kostnaði.
Hlekkurinn hefur nú um 25 tengla í 33 deildum, og þeir fá tölvupóst frá ritnefndarformanninum í hverjum mánuði, þegar nýtt efni hefur verið sett inn. Þá sendir formaðurinn einnig út fréttatilkynningu um nýtt efni til fagfólks í meðferðargeiranum á Íslandi, á skrifstofu AA-samtakanna og á póstlista einstaklinga sem sífellt fer stækkandi.
Heimasíða Al-Anon á Íslandi og netútgáfa Hlekksins gera okkur kleift að gera samtökin mun sýnilegri öllum almenningi en áður. Tölvupósturinn nýtist okkur bæði við rekstur skrifstofunnar, upplýsingamiðlun við formenn fastanefnda, til deilda og einstaka félaga. Vefsíðan sparar okkur bæði peninga og fyrirhöfn og er mjög hagkvæm leið til að miðla Al-Anon boðskapnum til almennings. Ekki síst gerir hún okkur kleift að koma Al-Anon lesefni til félaga okkar á íslensku, en sem fyrr segir er þjóð okkar svo fámenn að prentuð útgáfa þess stendur aldrei undir kostnaði. Nú eru greinarnar í Hlekknum orðnar 100 talsins.
Í gegnum Netið bjóðum við velkomnar og hughreystum fjölskyldur og vini alkóhólista í anda fimmtu erfðavenjunnar, og deilum með hvert öðru reynslu okkar, styrk og vonum. Þegar einhver, einhvers staðar, leitar eftir hjálp megi hönd Al-Anon og Alateen ávallt vera til staðar, og megi það byrja hjá mér.