Von um veröld víða

– Alþjóðaþjónustufundur Al-Anon í Bandaríkjunum
Færum von Al-Anon um víða veröld; Al-Anon, Expanding Our Worldwide Link of Hope. Þessi hvatning var yfirskrift ellefta alþjóðaþjónustufundar Al-Anon samtakanna sem haldin var í borginni Virginia Beach í Virginíufylki í Bandaríkjunum 2. til 6. október síðastliðinn.  Fundurinn, sem á ensku nefnist International Al-Anon General Service Meeting, er haldinn annað hvert ár á vegum alþjóðaskrifstofunnar (World Service Office) í Virginia Beach, á víxl í Bandaríkjunum og utan þeirra.  Rétt til að senda fulltrúa hafa Al-Anon samtök í þeim 45 löndum sem hafa komið á skipulegu Al-Anon starfi og starfrækja skrifstofur.  Alls starfa Al-Anon deildir í 115 þjóðlöndum, í heild 30.000 talsins, en WSO skráir og þjónar deildum í þeim löndum þar sem ekki eru reknar skrifstofur.  Fundinn sóttu að þessu sinni 42 fulltrúar frá 23 löndum, þar af tveir frá Íslandi, og í þessari grein verður rakið það helsta sem fram fór.
 
Al-Anon samtökin hér á Íslandi hafa sent fulltrúa á IAGSM-fundinum allt frá árinu 1984 og sótt þangað reynslu, hugmyndir og upplýsingar sem vafalítið eru stór þáttur í því að þau eru jafnvirk hér á landi og raun ber vitni.  Auk fulltrúa Íslands komu til fundarins frá Norðurlöndum einungis félagar frá Finnlandi og Noregi.  Mörg ríki Evrópu sendu fulltrúa; þ.á.m. Belgía (frá bæði frönsku-og flæmskumælandi svæðum),  Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Holland, Spánn, Sviss (frá bæði frönsku-og þýsku mælandi svæðum), Stóra-Bretland og Írland; einnig komu félagar frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Brasilíu, Costa Rica, Kólumbíu, Mexíkó, Suður-Afríku sem og Kanada, sem ásamt Bandaríkjunum hefur alþjóðaþjónustuskrifstofuna í Virginia Beach að höfuðstöðvum.
           
Á fundinum fluttu Al-Anon félagar frá sex löndum erindi um hin ýmsu málefni sem varða starf samtakanna, og eftir hvert þeirra fóru fram umræður þar sem reynslu var deilt, hugmyndum miðlað og lagðar fram fyrirspurnir til starfsfólks alþjóðaskrifstofunnar.  Eitt þessara erinda, um Al-Anon og Netið, sem annar fulltrúi Íslands flutti, var birt í síðasta mánuði í Hlekknum undir yfirskriftinni Internetið og örsamfélagið.  Fengist hefur leyfi til þess að snara öllum erindunum á íslensku á næsta ári og birta þau í Hlekknum eitt af öðru, jafnskjótt og alþjóðaskrifstofan hefur gengið frá og birt skýrslu fundarins á heimasíðu samtakanna, www.al-anon.org. 
 
Sem dæmi um önnur málefni sem til umræðu voru má nefna þjónustuhugtökin tólf sem hafa verið kölluð ,,best varðveitta leyndarmál Al-Anon“, sjöunda erfðavenjan sem snýr að andlegum þroska sem og fjárhagslegu sjálfstæði okkar, hlutverk fulltrúa í aðalþjónustunefnd, Alateen starfið, þar sem hlúð er að börnum og unglingum alkóhólista, og mikilvægi þess að Al-Anon samtökin séu sýnileg almenningi, þrátt fyrir áherslu á nafnleynd og trúnað. 
 
Unnið var í sex vinnusmiðjum á fundinum, þar sem fjallað var um hlutverk alþjóðafulltrúans, um Alateen í breyttum heimi, um ráðstefnusamþykkt lesefni samtakanna, þýðingu þess, útgáfu og notkun (CAL: Conference Approved Literature),  um starfssvið og hlutverk framkvæmdastjóra skrifstofu Al-Anon, um félaga annarra tólf spora samtaka sem sækja Al-Anon fundi og að síðustu um þá sem öll þjónusta í samtökunum veltur á: Sjálfboðaliðana og hvernig er unnt að virkja félaga til þátttöku og mikilvægi þess að allt starf okkar við skipulag og þjónustu sé unnið í anda sporanna, erfðavenjanna og þjónustuhugtakanna tólf.
 
Of langt mál yrði að rekja allar þær hugmyndir, vandamál og lausnir sem bar á góma í hverri umræðu en eitt og annað varðandi kynningarstarf Al-Anon verður tínt til hér og nú.  Í umræðunum kom fram að ákveðinn vandi felst í því að kynna samtökin okkar út á við jafnframt því að tryggja trúnað okkar hvert við annað.  Auglýsingar eru kostnaðarsamar og hvarvetna er fjárhagur í böndum, enda veltur allt á frjálsum framlögum félaganna.  Sjálfboðaliðastarf við kynningar er því mjög mikilvægt, og að almannatengslanefndin sé fullmönnuð og virk.  Það er þó ekki eingöngu almannatengslanefndin sem getur séð um kynningarstarf; þar getur hver og einn félagi unnið mikið starf án þess að kosta miklu til, t.d. með þátttöku í kynningum á meðferðarstofnunum og á fjölskyldunámskeiðum. 
 
Mikilvægast er að sjálfsögðu að sýna í verki árangur Al-Anon aðferðarinnar í daglegu lífi, en fleira má gera.  Til að mynda skipulagði Al-Anon í Finnlandi svokallaða ,,Gleymskuviku“, sem fólst í því að félagar í þeim 175 deildum sem starfa þar í landi voru hvattir til að kaupa sér nokkra bæklinga á næsta fundi sínum og ,,gleyma“ þeim síðan hér og þar um borg og bý.  Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri við Al-Anon félaga á Íslandi og lagt til að frá og með 30 ára afmælisfundi Al-Anon á Íslandi, sem haldinn verður 18. nóvember nk., og út þetta ár geri hver og einn félagi það að markmiði sínu að kaupa sér nokkra Al-Anon bæklinga á hverjum fundi sem hann síðan ,,gleymir“ hér og þar, svo sem á hárgreiðslustofunni, hjá tannlækninum, á biðstofu heilsugæslustöðvarinnar, á biðstofu sérfræðingsins eða slysamótttökunnar, á pósthúsinu (tilvalið lesefni í jólabiðröðinni!) og í bankaútibúinu. 
 
Önnur aðgerð til kynningar, einföld og ódýr, er sú að hver og ein deild taki að sér að búa til og dreifa upplýsingum um eigin staðsetningu og fundartíma á þær tilkynningatöflur sem fyrirfinnast í viðkomandi bæjarfélagi eða hverfi.  Einfalt er að útbúa slíka tilkynningu í tölvu og prenta út í nokkrum eintökum; þar þyrfti aðeins að koma fram stuttur texti um tilgang Al-Anon, hvar deildin er til húsa og á hvaða tímum er fundað.  Staðir þar sem festa mætti upp tilkynningu gætu verið verslanir og verslanamiðstöðvar, heilsugæslustöðvar, skrifstofur hjálparstofnana og félagsþjónustu, elliheimili, sjoppur, vídeóleigur eða hver sá staður þar sem gestkvæmt er og einhver gæti rekist inn sem gæti þurft á framréttri hönd Al-Anon eða Alateen að halda. 
 
Þessi samantekt um alþjóðaþjónustufund Al-Anon í Virginia Beach verður látin nægja að sinni en því má við bæta að alþjóðafulltrúarnir eru boðnir og búnir til þess að miðla félögum þeirri reynslu á fundum ef óskað er, og reyndar hefur ein slík kynning þegar farið fram á nýafstöðnum svæðisfundi vesturhluta Reykjavíkur. Sem fyrr segir verða erindi fundarins birt eitt af öðru í Hlekknum á næsta ári, og hver sá/sú sem getur aðstoðað við þýðingavinnu, þótt í litlum mæli sé, er hvött/hvattur til þess að láta vita þar um í tölvupósti; netfangið er hlekkurinn@al-anon.is

 

Vilborg D. og Ragnheiður Þ.
alþjóðafulltrúar Al-Anon á Íslandi