Ég fór í gegnum sporin fyrir tæpum 5 árum. Það er engin spurning að þetta virkar svo vel að allt lífið breytist. Ég hugsa öðruvísi og hef breyst mikið.
En ef þið eruð að hugsa um þetta drífið ykkur þá af stað og finnið ykkur sponsor því þetta er algjört kraftaverk – hvernig þetta virkar. En þið verðið að gera það sem sponsorinn segir þótt ykkur mislíki það stundum. Þetta gengur ekki, ef þið viljið stjórna ferðinni. Ekki vera að velta fyrir ykkur hvort þið hafið tíma, því þetta er svo miklu betra en að vera að velkjast í vafanum og meðvirkninni. Farið með bæn og biðjið æðri mátt að vera með ykkur og gefa ykkur styrk.
Stundum var þetta mjög erfitt og reyndi mikið á og ég var ekkert ánægð með sponsorinn minn eða sjálfan mig og að þurfa að hringja í hana á hverjum degi. En mest af tímanum var þetta ótrúlegt og frábært, það gerðist svo margt og mér þótti ekkert smá vænt um sponsorinn minn og geri enn að sjálfsögðu. Því það eru forréttindi að fá að hringja í ókunna manneskju á hverjum degi í fjóra mánuði og fá að tala um hvernig dagurinn var og að sjálfsögðu að fara eftir fyrirmælum sponsorsins.
Ég tek orðið allt öðruvísi á málunum og er orðin ánægðari með sjálfan mig og alla í fjölskyldunni minni. Tek orðið eftir því þegar ég er að fara framúr mér í samskiptum eða öðrum verkefnum og kann orðið að stoppa mig af eða biðja aðra afsökunnar án þess að gera lítið úr sjálfum mér. Og allur tíminn sem ég hef núna sem fór áður í meðvirkni og rifrildi, engin spurning – þetta virkar!
Ég er líka svo heppin að hafa fengið að sponsa margar aðrar konur í gegn um sporin og það hefur hjálpað mér ennþá meira að láta þetta virka fyrir mig. Eða eins og sponsorinn minn sagði alltaf við mig, þú ert að hjálpa mér miklu meira en ég þér. Ég skildi það ekki þá en ég skil það vel í dag, fyrir utan það hvað ég kynnist mörgum hliðum á lífinu þegar ég er að sponsa og sé orðið marga hluti í dag í allt öðru ljósi. Ég hvet ykkur því aftur að hika ekki – drífið ykkur að fá ykkur sponsor.
Þetta tekst með ykkar vilja og ekki hætta við á miðri leið, hugsanir ykkar breytast og við tökum allt öðruvísi á öllum þeim verkefnum sem lífið færir okkur. Auðvitað dett ég ennþá í skurðinn en ég er orðin ansi fljót að klifra upp aftur.
Gangi ykkur vel og guð geymi ykkur.
Kveðja – Al-Anon félagi.