Slagorðin öll hafa á einhverjum tímapunkti reynst mér vel; þau innihalda hvert um sig einfaldar leiðbeiningar um hvað Al-Anon leiðin felur í sér og minna mig á þegar ég hef týnt átttum við að „knýja fram úrlausnir“ og verð „uppstökk og ósanngjörn“. Vandamálin hafa minnkað að umfangi með árunum en ennþá tekst þeim samt að „ná tökum á hugsunum mínum og lífi“.
Með slagorðinu „Slepptu tökunum og leyfðu Guði“ tókst mér nýlega að snúa af þeirri braut.
Það rifjaðist upp fyrir mér á fundi, þegar ég var að tjá mig um fundarefnið, sem var æðri máttur, að ég „leyfði Guði“ ekki að sjá um litlu vandamál dagsins í dag. Ég hef falið honum alkóhólistann, sársauka fortíðarinnar, alvarleg veikindi og sjúkt fólk – en litlu málin: uppeldisvandamál og streitu við fæðingu nýs barns og vanda við brjóstagjöf, fannst mér óþarfi að blanda Guði inn í. Á fundinum ákvað ég að biðja fyrir litlu málunum líka og gefa æðri mætti tækifæri til að hjálpa mér. Ég mundi líka að Guð getur ekki hjálpað nema í gegnum annað fólk, og því varð ég að segja öðrum frá vanda mínum og líðan.
Ég fékk hjálpina nánast samstundis. Vinkona færði mér bók um uppeldismál, önnur benti á bók sem ég fékk á bókasafninu. Tvær aðrar höfðu samband og buðu mér streitulosun daginn sem streitan var að kollkeyra mig; önnur bauð upp á tíma í höfuðbeina-og spjaldhryggsmeðferð, hin bauð snyrtingu á táslum og andliti. Ég setti fyrirspurn á spjallvef ungbarnamæðra á Netinu og fékk góð ráð frá fimm konum á þremur dögum. Hjúkrunarfræðingurinn sem ég treysti fyrir vandanum varð líka farvegur fyrir hjálp frá æðri mætti, og ég fékk eitt besta ráðið þar við öllum mínum vanda: Slakaðu á og fáðu þér lúr á daginn! (Ágætis umorðun á slagorðinu Slepptu tökunum og leyfðu Guði). Sem sagt, vandamálin sem ég réði ekki við ein eru nú – með því að leyfa Guði að komast að – orðin að verkefnum sem eru að leysast . . upp!
Kveðja,
þakklátur Al-Anon félagi