Fyrsta sporið

Í nokkuð mörg ár hef ég verið að gægjast inn á Al-anon fundi í þeirri von um að lausnin mundi breytast. Var virkilega nauðsynlegt fyrir mig að viðurkenna vanmátt minn gagnvart áfengi og að mér var orðið um megn að stjórna eigin lífi? Eftir því sem að árin hafa liðið og líðan mín og líf ekki breyst til hins betra, þá kom ég að þeim tímamótum enn og aftur að velja á milli þess að halda áfram í gamlar, úreltar hugmyndir eða taka við þeim verkfærum sem að Al-anon hefur uppá að bjóða. Í þetta skipti valdi ég Al-anon og svo sannarlega sé ég ekki eftir því. Viðhorf mín breyttust svo sannarlega.  
Ég hafði oft óskað þess að geta stjórnað fólki, bæði hegðun þess og hugsunum. Auðvitað vissi ég hvað var best fyrir alkólistann eða samstarfsmann, ef hann eða hún bara mundi hlusta á mig að þá mundi líf hans eða hennar ganga upp! Ég reyndi á ýmsan hátt að gefa augljósar eða óljósar vísbendingar til manneskjunnar svo að hún mundi fatta og skilja. Lítið vissi ég að ég var aðeins að koma í veg fyrir að manneskjan bæri ábyrgð á sínu lífi og ég mínu.
 
Uppgjöf mín byrjaði í rauninni fyrir mörgum árum síðan og hefur alltaf verið að hluta til en aldrei til fulls. Ég var í rauninni vön því að lifa með sársaukanum og kvíðahnútnum í maganum og fannst það bara allt í lagi. Ég var þjökuð af lélegu sjálfsáliti og ótta
gangvart öðru fólki. Ég átti mér óskýr mörk og vissi ekki hver ég var eða hvað ég vildi. Hugur minn leitaði alltaf í huga annarra þar sem ég las út úr hugsunum meðbræðra minna og túlkaði eftir eigin höfði. Ég var oft með öndina í hálsinum og þorði ekki að hafa skoðun á því hvernig fólk kom fram við mig eða þá hvernig ég kom fram við annað fólk. Ég var iðulega fórnarlamb aðstæðna og ég var sannfærð um að heimurinn væri búin að ákveða að viðurkenna mig ekki sem eina mannesku, heldur sem óljósa útlínu sem hefði ekki nafn. Á þennan hátt hefur boltin rúllað öll þessi ár, og eftir því sem boltinn varð þyngri þá varð ég bara enn duglegri í því að halda honum á lofti þangað til að ég gat ekki haldið lengur. Þarna lá líka svarið; að viðurkenna að ég get ekki gert þetta ein var fyrsta skrefið í átt að heilbrigði.
 
Í dag er ég ekki þessi óljósa, nafnlausa útlína sem ég óttaðist. Ég get sagt með ánægju að ég er að breytast til hins betra. Ég er að finna fyrir því að ég hef mörk og sjálfstraust. Ég get treyst innsæi mínu og látið í ljós eitthvað sem mér líkar ekki. Ég má hafa skoðanir, drauma og líka hafa rangt fyrir mér og gera mistök. Auðvitað heldur þessi vinna áfram dag frá degi og enn þarf ég að sleppa tökunum og læra nýja hluti.
 
Félagi