Ábyrgð

Reynslusaga
 Ég var ofurábyrg yfir gjörðum fyrrverandi sambýlismanns, sona minna og skoðanamyndunum allra í kringum mig. Svona ábyrgð er íþyngjandi og skemmandi og þar af leiðandi óheilbrigð. Í Al-Anon hef ég lært að færa þessa ríku ábyrgðarkennd í heilbrigðari farveg. Það er mín reynsla að þessi lærdómur lærist smátt og smátt þar sem heilbrigðari sýn á aðstæður fara að skýrast með því að ástunda Al-Anon leiðina.       
 
Í kaflanum um ábyrgð í ,,Leiðsögn til bata“ fær maður góða og skýra leið til að sjá og skilja heilbrigða ábyrgð. Ábyrgð þýðir hæfileiki að bregðast við eigin þörfum og annarra.
 
„Að sleppa tökunum þýðir ekki að hætta að þykja vænt um, það þýðir að ég get ekki leyst viðfangsefni annara.
Að sleppa er ekki að ganga undir öðrum heldur að leyfa þeim að taka afleiðingum gjörða sinna.
Að sleppa er ekki að bera ábyrgð á heldur bera umhyggju fyrir.
Að sleppa er ekki að vernda heldur að leyfa öðrum að lifa í raunveruleikanum.
Að sleppa er ekki að afneita, heldur að viðurkenna.“
 
Með ástundun á ég við að ég les samþykkt lesefni daglega, vinn sporin 12 með trúnaðarmanni/konu og mæti alltaf á fundi í minni heimadeild, tek þátt í þjónustu deildarinnar og samtökunum í heild. Það er heilbrigð ábyrgð fólgin í því að leggja mitt að mörkum og gefa samtökunum þann tíma sem ég get til að halda Al-Anon samtökunum lifandi og til staðar fyrir alla aðstandendur Alkóhólisma sem vilja þiggja þessa fallegu gjöf sem Al-Anon bíður upp á.
 
Takk fyrir mig
 
Uppkomið barn alkóhólista, aðstandandi og þakklátur Al-Anon félagi.
 
Í heftinu Leiðsögn til bata er kafli sem fjallar um Ábyrgð.