Viðhorf

Reynslusaga
Þegar ég kom fyrst í Al-Anon var ég óttasleginn, óöruggur og átti erfitt með að treysta öðru fólki. Ég fann fljótt að ég átti heima í þessum félagsskap og smám saman fór ég að treysta því að það sem væri sagt á fundum og félaga í milli færi ekki lengra.
Það kom að því að ég varð tilbúinn til að vinna sporin með aðstoð  trúnaðarmanns. Afraksturinn af þeirri vinnu var að ég varð óhræddur, fullur sjálfstraust og var tilbúinn til að takast á við lífið og tilveruna í blíðu og stríðu. 
          Ég hafði ávalt verið mjög reiður út í föður minn, alkóhólistann og setti ávalt sjúkdóminn alkóhólisma og persónuna í sama bás. Eftir að hafa unnið sporin sá ég að þetta voru 2 aðskilin mál. Hegðun föður míns litaðist af sjúkdómnum einsog  hegðun mín litaðist af fjölskyldusjúkdómnum alkóhólisma.
          Ég ákvað því að aðskilja föður minn og sjúkdóminn. Ég heimsótti hann og kom fram við hann einsog föður, þrátt fyrir sjúkdóminn. Það var mikið frelsi fólgið í því að geta sleppt tökum á reiðinni, sem hafði verið til staðar í alltof mörg ár, og sett kærleika í staðinn. 
          Þetta var stórt skref í mínum bata. Ég varð fær um að eiga samskipti við föður minn án þess að lifa stöðugt í fortíðinni. Samskiptin voru hér og nú og byggðust á stöðu okkar hvors um sig eins og hún var þann daginn, en ekki á því sem hafði gerst fyrir löngu síðan.
          Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um viðhorfsbreytingu hjá mér sem ég er ævinlega þakklátur fyrir. Faðir minn lifði ekki í mörg ár eftir þessi endurnýjuðu kynni okkar og ég er þakklátur Al-Anon fyrir þessa góðu gjöf. 
            Ég geri mitt besta til að gefa eins og mér var gefið. 
 
Al-Anon félagi
 
Í heftinu Leiðsögn til bata er kafli sem fjallar um Viðhorf