Félagi deilir reynslu af sporavinnu
Ég hef undanfarið unnið mikið í að greina sjálfa mig sem aðstandanda alkóhólista og hef reynt að finna hvað það er sem ég vil breyta og bæta.
Ég hef verið að vinna í sporavinnunni og er komin í 10. sporið sem segir: „Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar okkur skjátlaðist, viðurkenndum við það undanbragðalaust“. Í þessari sjálfskoðun hef ég komist að ýmsu. Ég hef komist að því að ég þarf ekki að vera fullkomin til að ég hafi leyfi til að vera til. Ég þarf ekki að taka ábyrgð á öllu og öllum í kringum mig til að geta farið sátt í rúmið á kvöldin.
Ég áttaði mig nefnilega á því að ég var orðin eins íþróttalið. Ég var sóknarmaðurinn sem tók boltann og passaði upp á að engin marktækifæri færu framhjá liðinu. Ég var varnarmaðurinn sem tók að sér að koma í veg fyrir að boltar andstæðinganna lentu inn fyrir okkar varnarlínu og ánægðust var ég ef ég gat fórnað mér fyrir hina í liðinu þannig að boltinn lenti á mér en ekki þeim. Ég var hornamaður sem var ávallt tilbúinn til að grípa boltann og koma honum í markið ef einhver gaf á mig. Ég var líka varamaður, þannig að ef einhver mætti ekki til leiks… þá tók ég stöðuna hans. Síðast en ekki síst var ég klappstýra sem hvatti alla áfram, sagði þeim að þær væru æðislegir og yndislegir til að þeir myndu nú örugglega ekki missa móðinn í því sem þeir væru að gera. En sennilega var liðsstjórastarfið stærsta hlutverkið mitt. Þetta var reyndar eins og að vera liðsstjóri í lélegu liði í 5. deildinni… það voru stopul laun, frammistaðan léleg hjá liðinu, við mættum illa á mót, mikið um veikindi hjá liðsmönnum og svo var það ég sem tók við öllum skömmunum. Það var ég sem var ekki að standa mig þegar liðið tapaði. Alveg eins og í ensku deildinni. Þá er það þjálfarinn sem er rekinn… alltaf skipt um þjálfara og aldrei lagast liðið neitt.
Nú veit ég af hverju það var. Fyrirliðinn var búinn að reka tvo þjálfara sem stóðu sig ekki heldur. Ég var nefnilega þriðji þjálfarinn í liðinu mínu. Þegar ég áttaði mig á því að ég stóð mig ekki sem þjálfari fór ég á þjálfaranámskeið hjá Al-Anon. Ég sá að þetta var þvílík vinna sem ég átti fyrir höndum ef ég ætlaði að vera góður þjálfari. En það sem kom mér mest á óvart var að ég þurfti ekkert að láta liðið mitt gera fleiri magaæfingar eða hlaupa fleiri hringi á vellinum fyrir leik. Það eina sem ég þurfti að gera var að bæta við mína andlegu þekkingu og ná stjórn á mér sem sjálfstæðri manneskju. Átta mig á því að það var ekki mitt hlutverk að vinna leikina – það mátti alveg tapa leikjum, því ef ég tryggði liðinu alltaf sigur í leikjunum sá liðið mitt aldrei að það var ekki að standa sig. Þegar ég hafði stundað þetta frábæra þjálfaranámskeið í nokkra mánuði sá liðið mitt að við svo búið yrði ekki unað lengur. Þjálfarinn var um það bil að fara frá liðinu og það var ljóst að það yrði að fá enn einn þjálfara. Innst inni vissi liðið að engum öðrum þjálfara myndi takast að láta þetta lið vinna einn einasta leik. Þannig að fyrirliðinn tók þá stóru ákvörðun að fara á ókeypis æfingabúðir á Vog og síðan í framhald á Staðarfelli. Á meðan nýtti ég tímann til að endurskoða leikjaskipulagið, skipa upp á nýtt í stöðurnar og setja ný viðmið fyrir liðið.
Nú hlakka ég til að setja liðið okkar saman að nýju eftir jólin. Það verður skipað upp á nýtt í stöðurnar og það fá fleiri í liðinu alvöru hlutverk. Ég veit núna að það er ekki einu sinni mitt hlutverk að skipa í stöðurnar. Það verður gert með samvinnu allra liðsmanna og vonandi náum við þá þeim árangri sem er ásættanlegur fyrir íþróttalið þar sem allir eru að stefna að sama markmiðinu. Nú hef ég sett mér markmið – Ég vil upplifa mig sem hluta af liði sem vinnur saman sem ein heild.