Slagorð Al-Anon:
– sérstaklega í desember
Þetta hefur alltaf verið uppáhaldsslagorðið mitt þegar frí og stórhátíðir eru í nánd. Það er vegna þess að það hefur hjálpað mér til að njóta frítímans, hátíðanna og þess sem það hefur upp á að bjóða.
Ég á það oft til að hlaða alla daga, vikur og mánuði með alls konar starfsemi. Ég kann vel við að vera önnum kafin og nýt þess að hafa fullskipaða verkefnaskrá. En þegar frídagar eru í nánd með öllum viðbótarverkum sem þeim tilheyra – baka, skreyta húsið, versla, pakka inn, senda kort, skipuleggja hátíðir og samkomur o.s.frv., þá þyrmir stundum yfir mig og mér finnst ég ofhlaðin verkefnum.
Ef ég hefði ekki þetta slagorð til að minna mig á að hægja ferðina er hætta á að ég vinni yfir mig, flýti mér of mikið, verði pirruð, og áður en ég veit af er ég útkeyrð. ,,Góðir hlutir gerast hægt“ minnir mig á að ég þarf ekki að gera allt á sama deginum, minnir mig á að ég verð að vera góð við sjálfa mig. Ef ég bæti fimm hlutum við það sem ég ætla að gera í desember verð ég að kanna hvar ég get minnkað við mig annars staðar. Það að ætlast til meira af mér en ég get með góðu móti ráðið við er örugg ávísun á vonbrigði, mistök og leiða.
Við sem krefjumst of mikils af okkur sjálfum erum gjörn á að krefjast einnig of mikils af öðrum; en ég hef ekki ennþá fyrirhitt þá manneskju sem nýtur þess að vera rekin áfram til einhverra verka. Ég verð að vera stöðugt á varðbergi og leyfa öðrum að þroskast á sínum hraða, ekki mínum. Þó ég vilji fá svo og svo mikið gert á einum degi get ég ekki ætlast til þess að aðrir í kringum mig setji markið jafnhátt. Ég var vön að byrja daginn með langan lista yfir það sem þurfti að framkvæma þann daginn og verða síðan reið og pirruð þegar mínir nánustu færðust undan og voru ósamvinnuþýðir. Ég hafði gleymt því að ég hef engan rétt til að skipuleggja líf annarra, einungis mitt eigið líf. Ef ég vel þann kostinn að vinna yfir mig þá er það mitt vandamál. Þó einhver hafi ákveðið að taka lífinu með ró get ég ekki ásakað viðkomandi um mína ofþreytu. Ég get líka ákveðið að taka lífinu með ró, mitt er valið.