Að eiga trúnaðarmann: Nemandinn er reiðubúinn

Þýðing úr Forum, febrúar 2001
Þegar ég kom inn á minn fyrsta Al-Anon-fund var ég hrædd, sorgmædd og einmana. Líf mitt var í ringulreið. Allt mitt líf var í algjörri óreiðu – hugsanir mínar, börnin mín, heimilið mitt. Ég hafði svo lengi lifað í sjálfsvorkunn, reiði og hirðuleysi að ég vissi ekki hvernig ég átti að koma mér út úr því. Ég vissi að ég þurfti á trúnaðarkonu að halda en ég var ekki viss um hverja ég ætti að velja.  Ég hafði beðið konu eina að vera trúnaðarkonu mína en þegar ég hringdi var hún aldrei í aðstöðu til að tala. Ég hitti konu í byggingunni þangað sem ég fer til að tilbiðja minn æðri mátt og mundi að ég hafði sé hana á Al-Anon-fundi. 
Hún virtist svo hamingjusöm og full af lífi – einmitt eins og ég þráði að vera. Ég skrifaði henni bréf og bað hana að verða trúnaðarkonu mína og þegar Maggie sagði „já“ fannst mér mér vera heiður sýndur.
 
Trúnaðarkonan mín opnaði fyrir mig dyrnar að nýju lífi. Hún sagði mér að hringja í sig á hverjum degi hvort sem ég ætti við vandamál að etja eður ei. Þetta var mér erfitt. Ég spurði hana sífellt hvort ég væri ekki að ónáða hana. Hún sagði að með því að hjálpa öðrum öðlaðist hún aukinn styrk. Í dag held ég áfram að koma skilaboðunum, „ég get aðeins haldið því sem mér er gefið með því að gefa það frá mér“, á framfæri við það fólk sem ég er trúnaðarkona fyrir.
 
Trúnaðarkonan mín veitti mér innsýn í Al-Anon-leiðina sem ég nota á öllum sviðum lífs míns í dag. Hún kenndi mér ekki einungis slagorðin þrjú (c-in þrjú: I didn´t cause it, I can´t cure it and I can´t control it). Ég olli því ekki; ég get ekki læknað það og ég get ekki stjórnað því – en hún bætti því fjórða við; þú getur einungis viðhaldið sjúkdómnum. Hún kenndi mér líka a-in þrjú: (awareness, acceptance and action): meðvitund, sátt og aðgerð.
 
Til að byrja með skammaðist ég mín þegar ég áttaði mig á sumum af mínum miður jákvæðum persónueinkennum. T.d. þegar trúnaðarkonan mín kom í heimsókn, var sonur minn, sem var þá tveggja ára, vanur að sparka í hana. Hún benti mér á að þetta væri ekki viðeigandi hegðun. Mér fannst mjög miður að ég skyldi ekki vita svona grundvallarhluti. Trúnaðarkonan mín sagði „Hvernig getur þú að vitað svona nokkuð þegar foreldrar þínir vissu það ekki heldur?“ Hún breytti skömm minni í sátt og spurði síðan, „Hvað ætlar þú að gera í þessu?“ Í stað þess að vorkenna sjálfri mér vegna alls þess sem ég hafði ekki vitneskju um, lagði hún til ákveðnar aðgerðir. Og eins og hún sagði ætíð: „Jákvæðar athafnir byggja upp sjálfsvirðinguna.“
 
Þegar ég vann fjórða sporið og viðurkenndi að ég var oft hrædd og átti mörg leyndarmál, sagði trúnaðarkonan mín við mig: „Þetta eru ekki skapgerðarbrestir. Þetta eru tæki til að lifa af – tæki sem þú þurftir á að halda til þess að lifa af í þinni fjölskyldu.“ Með því að sjá persónueinkenni mín í öðru ljósi varð mér kleift að breyta þeim sem ég ekki þurfti lengur á að halda. Ég þurfti ekki að eiga mörg leyndarmál því að ég átti fólk að sem ég gat treyst. Ég breytti ótta mínum í traust með þeirri vitneskju að bara í dag, er allt í lagi. Trúnaðarkonan mín hvatti mig stöðugt til að halda áfram að þroskast og breytast með því að segja mér að batinn væri eins og skábraut. „Þú getur ekki staðið kyrr,“ sagði hún, „því ef þú ferð ekki áfram, þá ferðu aftur á bak“.
 
Í fyrstu taldi ég mig ekki eiga skilið þá hamingju sem ég fann. Ég tók á móti svo miklum kærleika frá trúnaðarkonu minni og öðru fólki á fundunum. Trúnaðarkonan mín fullvissaði mig um að ég ætti skilið að vera hamingjusöm. Þess vegna tók ég við þeirri hjálp sem hún bauð mér skilyrðislaust. Hún hjálpaði mér að læra að þrífa húsið mitt og smám saman lærði ég að koma skipulagi á hlutina. „Ekki reyna að koma of miklu í verk á einum degi,“ lagði hún til, „annars gæti þyrmt yfir þig. Veldu þér viðráðanlegt verkefni – til dæmis að taka til á einni hillu í einu í stað þess að taka til í öllum skápnum – svo að þú getir lokið ætlunarverkinu og sért ánægð með sjálfa þig.“ Þannig lærði ég smám saman að taka góðri leiðsögn.
 
Trúnaðarkonan mín kenndi mér líka hvað það táknaði að reiða sig á sjálfan sig. Eitt sinn þegar ég hringdi í hana eftir að hafa rifist við móður mína, sagði hún við mig, „Í hvert skipti sem eitthvað gerist geturðu ekki bara hent því svona í mig. Það er kominn tími til að þú farir að vinna vinnuna sjálf.“ Hún varð hörð við mig en smám saman lærði ég að takast á við svona uppákomur án þess að gera úlfalda úr mýflugu. Trúnaðarkonan mín var vön að spyrja mig „Er þetta lífshættulegt?“ Með því að segja þetta sýndi hún mér hvernig ég ætti að forgangsraða hlutunum.
 
Í lokaorðum Al-Anon erum við hvött til að taka við því sem okkur líkar en láta hitt liggja á milli hluta. Trúnaðarkonan mín hvatti mig líka til að taka við því sem mér líkaði ekki. Hún sagði að það væri margt sem væri erfitt og ögrandi en í stað þess að fylgja tilfinningum mínum ætti ég að beita skynseminni. Tilfinningar mínar voru orðnar svo brenglaðar af því að búa við alkóhólisma árum saman að stundum var betra að gera það sem var andstætt því sem mig langaði og þannig gat ég lært að gera það sem var rétt fyrir mig.
 
Ég tók lífinu mjög alvarlega og því sýndi trúnaðarkonan mín mér hvernig ég gæti létt lundina og hlegið að hlutum. Hún hvatti mig til að nota skopskynið því að til þess hefði guð gefið mér það. Hún hvatti mig líka til að vera skapandi í öllu sem ég gerði – hvort sem það var að ryksuga eða versla. „Afstaða þín skiptir höfuðmáli,“ var hún vön að segja. Því sem hún deildi með mér hef ég varðveitt í öll þessi ár. Það er huggun að vita að ég þarf ekki að glata því sem hún gaf mér. Í síðustu viku dó þessi yndislega kona af óvæntu hjartaslagi. Ég er full sorgar en ég sé einnig hlutina mjög skýrt og hef fundið fyrir nýjum styrk. „Reyndu að sakna ekki fólks,“ sagði hún. „Það táknar bara að þú saknar einhvers í sjálfri þér.“ Ég lofa að sakna hennar ekki en hún mun verða í huga mér og í bænum mínum.
 
Fyrir mig gilti að þegar nemandinn er reiðubúinn, birtist kennarinn. Þegar ég fann trúnaðarkonuna mína, Maggie, var ég þess fullkomlega reiðubúin að drekka í mig þekkingu hennar. Fyrir mig hefur jafnframt hið andstæða gilt, þegar nemandi er reiðubúinn, hverfur kennarinn. Maggie var ætlað að hefja nýtt ferðalag, líkt og mér var ætlað að halda áfram á batagöngunni.
 
Diana B. í Ísrael.
Þýtt úr Forum, feb. 2001.
 
Spurningar með greininni Nemandinn er reiðubúinn:
 
1.            Trúir þú að þú eigi skilið að vera hamingjusöm/samur? Hvernig endurspeglast þetta í lífi þínu?
2.            Á hvaða hátt hjálpar „prógrammið“ (Al-Anon-leiðin) þér til að vinna bug á skömm?
3.            Finnst þér ringulreiðin notaleg? Hvaða tæki Al-Anon notar þú til að standast þá freistingu að búa til neyðarástand (krísu)?
4.            Hvernig breytir þú ótta í traust?
5.            Finnst þér þú vera að ónáða trúnaðarmann/konu með því að hringja í hann/hana? Á hvaða hátt hjálpar símtalið ykkur báðum?