Tjáskipti

6. tölublað
 Á fyrstu Al-Anon fundunum mínum heyrði ég oft talað um bókina ,,Í sjálfheldu með alkóhólista“.
Henni var hælt á hvert reipi og sumir kölluðu hana biblíuna sína. Ég keypti gripinn á einum fundinum því ég gerði það sem þetta fólk benti mér á, í þeirri von að mér gæti einhverntima liðið eins vel og þeim virtist líða. Ég ,,las“ bókina áður en ég  fór að sofa og fannst það fljótgert og innihaldið ekki uppfylla þær væntingar sem ég hafði eftir lýsingar félaganna á notagildi hennar.
Ég las hana aftur daginn eftir og rakst þá á ýmislegt sem ég hafði ekki veitt athygli kvöldið áður. Þá áttaði ég mig á því að það var sama sagan og með allt sem ég las á þessum tíma, ég var ekki fær um að taka eftir nema örlitlu í einu.
Ég kunni ekki að hafa eðlileg tjáskipti við fólk og hafði sennilega aldrei gert. Smátt og smátt, með þvi að hlusta á fundum og lesa meðal annars fyrrgreinda bók, gerði ég mér grein fyrir hvernig fyrir mér var í raun komið varðandi tjáskipti við annað fólk og þá sérstakleg aþu tvö sem þá voru virkir alkóhólistar á heimilinu, það er eiginmann og ungling. Nú gat ég farið að taka á málinu með hjálp þessara verkfæra sem Al-Anon hafði til reiðu fyrir mig.
Ég reyndi að gera öllum til hæfis, safnaði upp þvi sem ég var ósátt við og sprakk svo stöku sinnum með meirháttar hávaða, blönduðum handalögmálum ef mér fannst ekki á mig hlustað.
Þessu fylgdi yfirleitt grátur inn á milli og svo tíndi ég allt mögulegt til, fyrst ég var á annað borð byrjuð, og hafði þá eignmaðurinn stundum á orði að ég væri eins og fíllinn; gleymdi aldrei neinu sem á minn hlut væri gert.
Ég byrjaði að tileinka mér kaflann ,,Fimm leiðir til tjáskipta“ og breytti það miklu um mína líðan og andrúmslofti á heimilinu, þrátt fyrir drykkju. Ég notaði hvert tækifæri sem gafst þegar ég fékk að leiða fund og hafði þá fundarefnið oftast tjáskipti. Ég las úr bókinni og fékk síðan að heyra reynslu hinna félaganna sem ég gat nýtt mér.
Eftir að maki minn hóf göngu sína í AA átti ég oft í miklum erfiðleikum með að segja það sem ég þurfti. Þá lá ég stundum yfir bókinni góðu, ásamt öðru sem ég fann um tjáskipti í Al-Anon lesefninu, og undirbjó mig vel því ég var svo hrædd við að fara úr jafnvægi, segja eitthvað sem ég meinti ekki, jafnvel hækka röddina, fara að grenja eða það sem mér fannst nú orðiði einna verst og það var að segja ekki það sem ég meinti og ætlaði að segja. Oft varð ég vör við að þögnin var tekin og skilin sem samþykki.
Það er mikið frelsi fólgið í því að bæta úr svo brengluðum tjáskiptum. Það hef ég reynt. Vissulega fæst þetta frelsi ekki án fyrirhafnar en hún er vel þess virði.
Í dag tekst mér að ráðast ekki á fólk, heldur ræða málið og það án þess að hafa hátt. Ég geri mér far um að halda mig við efnið og hlusta á hvað hinn hefur að segja, minnug þess að ég hef ekki endilega alltaf réttu lausnina. Vissulega hefur það líka hjálpað í tjáskiptum okkar hjónanna að hann er líka að tka á sínum málum með hjálp AA prógrammsins og hefur þar af leiðandi líka breyst.
Ég er oft lengi að koma mér að þvi að ræða málin og segja meiningu mína við fólk af ótta meðal annars við eign viðbrögð ef ég fengi nú höfnun eða annað neikvætt viðhorf, sem gæti komið mér úr jafnvægi. Ég er búin að læra það að ef ég hef í huga þessar ,,fimm leiðir til tjáskipta“ sem bókin bendir á ásamt lykilorðinu í öllum góðum tjáskiptum kurteisi og síðast en ekki síst að biðja æðri mátt um handleiðslu, þá fer undantekningarlaust vel og léttirnn er ótrúlegur.
Þökk sé Al-Anon.

A./gestaritstjóri