Einn dagur í einu í Al-Anon
3. febrúar
Þegar ég segist ætla að fela guði allan minn vanda þýðir það ekki að ég geti skotið mér undan ábyrgð. Mér hafa verið gefnir sérstakir eiginleikar til að stjórna lífi mínu og frjáls vilji til að beita þeim. Þessir eiginleikar eru dómgreind, skynsemi, góður ásetningur og hæfileiki til að draga ályktanir. Ef til vill stafar vandi minn af því að ég hef misnotað þessa eiginleika. Dómgreindin getur hafa brenglast af reiði og skynsemin af því ég hef ekki skoðað vandamálin af fullri hreinskilni. Góður ásetningur getur farið forgörðum ef við getum ekki umborið bresti annarra. Hæfileikinn til að álykta getur sljóvgast þegar okkur mistekst að skilja okkur frá tilfinningalegri hlið vandamálsins.
Til umhugsunar í dag
Þegar örvænting mín er orðin það mikil að ég leita hjálpar ætla ég ekki að búast við að hún berist mér í formi auðveldra lausna. Ég verð að taka þátt í að leysa vandamálin en minn æðri máttur mun leiða mig og veit mér styrk til að breyta rétt.
,,Ég bið um visku til að skilja erfiðleika mína skýrt og hreinskilnislega, og styrk til að bregðast við þeim á uppbyggjandi hátt. Ég veit að ég get treyst á hjálp guðs til þess.”