KRAFTAVERK

Paths to Recovery (Leiðir til bata)
Ellefta sporið
ELLEFTA SPORIÐ er afar sérstakt spor. Ég kunni vel að meta það um leið og ég heyrði það fyrst. Áður en ég kom inn í Al-Anon hafði ég fengið áhuga á austrænum trúarbrögðum. Mér geðjaðist að hugmyndinni um hugleiðslu. En þó virtust allar tilraunir mínar til að hugleiða mistakast. Ég gat ekki haldið kyrrð í huganum í meira en hálfa mínútu. Þar sem mér tókst það ekki í fyrstu tilraun taldi ég mig vonlausa og gafst upp.
 
Þegar ég kom inn í Al-Anon fékk ég mér strax trúnaðarkonu. Ég spurði hana hvort ég gæti byrjað að hugleiða þó svo að ég væri rétt að hefja sporavinnuna. Hún sagði mér að gera það, að bæn og hugleiðsla væru tæki sem ég gæti alltaf notað. Aftur reyndi ég að hugleiða, viss um að núna myndi mér takast „það“, hvað svo sem „það“ væri. Ég var í öngum mínum þegar ég áttaði mig á því að enn gat ég ekki kyrrt hugann. Hugsanirnir þutu um kollinn á mér á ógnarhraða, svo að ég gafst upp.
Ég hélt áfram að nýta mér sporin. Ég komst að níunda sporinu, skipti um trúnaðarkonu og hóf að vinna sporin upp á nýtt uns ég komst loks að ellefta sporinu. Þó svo að ég ynni öll þessi spor á aðeins fimm eða sex mánuðum þá breyttist ég heilmikið. Ég varð fúsari til ellefta spors vinnu. Ég reyndi að hugleiða og biðja eftir bestu getu og gafst ekki upp þó svo það tækist ekki fullkomlega í fyrsta sinn.
Þó svo að sýn mín á lífið hefði breyst umtalsvert átti ég enn í erfiðleikum með að komast á fætur á morgnana. Flesta daga lá ég í rúminu uns það var orðið nægilega áliðið til að ég gæti hringt í trúnaðarkonuna mína. Eftir að hafa talað við hana fannst mér ég geta hafið daginn. Þegar ég hóf að iðka ellefta sporið ákvað ég að hafa sporið sem mitt fyrsta verk á morgnanaÉg vaknaði upp gröm yfir því að vera á lífi og vildi ekki gera neitt. Ég fór að biðja stuttar bænir sem trúnaðarkonan mín hafði stungið upp á við mig. Ég las andlegt lesefni og reyndi að hlýða á minn æðri mátt. Oft las ég upphátt þar sem mér fannst það hjálpa mér að kyrra hugann. Mér til undrunar áttaði ég mig á því að klukkustund eða svo af slíkri viðleitni gerbreytti viðhorfi mínu! Ég fann fyrir hamingju og var tilbúin til að takast á við daginn. Það varð meira að segja auðveldara að ákveða á hverju ég ætti að byrja! Þetta var ótrúlegt. Ég fór að gera þetta á hverjum degi. Undan­tekningalaust breyttist viðhorf mitt. Suma daga gerðist það snögglega en aðra tók það lengri tíma. Ég hélt bara áfram uns, af einhverri óþekktri ástæðu fylltist hjarta mitt gleði og von. Í hvert skipti var það eins og kraftaverk!
Jafnvel þegar mig langaði að gefast upp hélt ég mig ævinlega við morgun­venjurnar, því ég mundi eftir kraftaverkinu þegar viðhorf mitt breyttist. Ég átti eftir að fá enn meiri umbun fyrir ellefta spors iðkun mína. Dag einn vaknaði ég glöð í bragði og full af orku! Það voru ár og dagar síðan slíkt hafði gerst. Í rúmt ár hef ég nú næstum alltaf vaknað og verið tilbúin til að takast á við lífið. Ég get ekki sagt ykkur hve dásamleg tilfinning það er að vakna og hlakka til dagsins – að vakna og finnast ég vera þátttakandi í lífinu.
 

  B-24, Paths to Recovery  bls. 114-115 (Leiðir til bata)
Birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.©

Öll réttindi áskilin. Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að sé sótt um heimild til Al-Anon Inc. ©