3. febrúar 2005 08:26

Reynslusaga:

Annað sporið

“Við fórum að trúa að máttur, okkur æðri, gæti gert okkur andlega heil að nýju.”

Annað sporið á í dag mjög sérstakan stað í mínu hjarta, þar sem ég tel það, ásamt

spori eitt og þrjú, vera grunvöllurinn af bata mínum í Al-anon.  

Þegar ég kom á mína

fyrstu Al-anon fundi var ég full af hroka þegar ég heyrði fólk tala um sinn “æðri mátt”

eða “Guð”. Ég hafði alltaf verið frekar trúuð en gat þó ekki kyngt því að ganga í

einhverskonar trúarsamtök þar sem ég hafði mikla fordóma gagnvart slíku.

Þegar ég hóf vinnu mína í öðru sporinu með trúnaðarkonu, komst ég fjótt að því að

inn í Al-anon samtökunum hefur hver og einn félagi val um hvaða skilgreiningu hann

hefur á æðri mætti. Eina skilyrðið er að þessi máttur sé æðri okkur sjálfum, þ.e.a.s.

ekki mannlegur og að hann sé algóður og almáttugur.

 

Mér létti mikið við þetta og varð ljóst að þrátt fyrir að við notum orðið “Guð” þá þarf

það ekki að þýða það sama. Hver og einn hefur sinn eiginn skilning á Guði, og orðið

“Guð” er aðeins þæginlegt þriggja stafa orð sem við notum svo allir skilji um hvað við

erum að tala.

 

Eins og áður sagði hafði ég alltaf trúað því að til væri eitthvað sem væri mér æðra og

ég bað reglulega bænir. En þegar ég fór að líta til baka fór ég að átta mig á því að ég

hafði trúað á refsandi Guð. Ég trúði því að þeir sem gerðu rangt á hlut annarra yrði

refsað á einhvern hátt og því var ég hálf hrædd við þennan Guð minn. Ég trúði því

einnig að ég væri það sérstök og ætti það bágt að Guð gæti ekki hjálpað mér.

           

Eftir að ég hafði áttað mig á þessu fór ég að endurskilgreina mína hugmynd af Guði.

Ég ákvað því að “reka” þennan gamla Guð minn og “ráða” nýjan. Sá Guð var algóður,

þ.e. hann elskaði öll sín börn jafn mikið, sama hvernig þau voru eða hvað þau höfðu

gert, og hann var almáttugur. Ég fór þar af leiðandi að trúa því smátt og smátt að þessi

æðri máttur gæti gert mig andlega heilbrigða á nýju.

           

Eftir því sem tíminn hefur liðið í Al-anon hefur trú mín styrkst til muna og skilgreining mín

á Guði einnig. Eftir að hafa opnað huga mín pínulítið fyrir hugmynd þessa spors hef ég

fengið hverja sönnunina á fætur annarri um að til sé máttur mér æðri. Í dag er ég farin

að taka eftir litlu kraftaverkunum í lífi mínu og ég trúi því að Guð tali við mig í gegnum

allt yndislega fólkið í kringum mig. Ég bið þess oft að fá að sjá aðra og sjálfan mig með

augum Guðs. Aðeins þá get ég sýnt öðrum kærleik og umburðarlyndi og öðlast andlegt

heilbrigði.

 

Félagi